19.10.1944
Sameinað þing: 58. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í D-deild Alþingistíðinda. (6155)

167. mál, verðlagsvísitalan

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. — Það er tilgangslaust að eyða miklum tíma í það að ræða við þá hv. þm., sem hér hafa tekið til máls af hálfu sósíalista, þar sem þeir hafa engan skilning sýnt á því máli, sem hér er til umr., og þar sem ég hef ekki nema athugasemdartíma, þá mun ég stikla á stóru. Ég vil, sem dæmi um röksemdafærslu þessara manna benda á þá röksemd hv. 1. landsk. þm., að Eimskipafélag Íslands hafi grætt 20 millj. kr. á síðastliðnu ári, vegna þess að það hefði borgað svo hátt kaup, og því væri um að gera að borga sem allra hæst kaup til þess að græða sem mest. Þegar menn koma fram með svona röksemdafærslur, þá er tilgangslaust að eyða miklum tíma í það að svara þeim. Þessi sami hv. þm. taldi rangt að breyta grundvelli verðlagsvísitölunnar vegna þess, að verkalýðsfélögin semdu um ákveðið kaup. En verkalýðsfélögin semja ekki samkvæmt vísitölu, heldur semja þau um ákveðið grunnkaup, svo að þetta skiptir engu máli. Hann taldi og, að hér í Reykjavík væri kaupið of lágt, vegna þess að hér þyrfti fólkið að búa í bröggum, en þetta sannar einmitt, að kaupið er hærra hér en annars staðar, vegna þess að annars vildi fólkið ekki vinna það til að þurfa að búa hér í bröggum. Þetta sýnir því, að fólkið vill heldur vinna hér á mölinni en við framleiðsluna. Verð landbúnaðarafurðanna er ekki nógu hátt til þess að borga það kaup, sem hér er greitt.

Ég skal svo ekki eyða fleiri orðum að þessum hv. þm., en skal nú víkja nokkrum orðum að hv. 2. þm. Reykv. Hann beindi þeirri spurningu til mín, hvernig stæði á því, að ekki væri til nóg kjöt á markaðinum allan ársins hring. Hann krafðist skýringar á þessu máli og sagði, að neytendur ættu heimtingu á því að fá nægilegt kjöt og aðrar landbúnaðarafurðir allt árið. En hvað hefur þessi hv. þm. gert til þess að stuðla að því, að landbúnaðurinn gæti framleitt nógar afurðir? Hann hefur gert allt, sem hann hefur getað, til þess að hindra slíkt. (BrB: Það er þarfaverk að vinna að því, að ekki sé framleitt meira kjöt). Hv. þm. veit það, að ef nýtt kjöt á að koma á markaðinn að sumrinu, þá verður það að vera af dilkum, sem ekki eru fullvaxnir, og það verður því að vera miklu dýrara þá en að haustinu, til þess að bændur skaðist ekki á því að selja það svona snemma. Ef kjöt væri svo selt að sumrinu við miklu hærra verði en endranær, þá mundi það hafa mikil áhrif til hækkunar á vísitöluna, og hv. þm. veit, að stjórnarvöldin mundu ekki láta slíkt afskiptalaust. Ef hv. þm. vill samþ. mína till., um að kjötverð að sumrinu verði ekki látið koma inn í vísitöluna, þá vinnur hann þar með að því að tryggja það, að kjöt kæmi á markaðinn að sumrinu. Þá sagði hann, í sambandi við það, sem ég var að tala um fólksstrauminn úr sveitunum, að þetta fólk færi til þess að vinna að framleiðslunni við sjóinn, það stundaði útgerð og sækti björg í skaut hafsins. Þetta er ekki rétt. Fólksfjölgunin við sjóinn er meiri en sem samsvarar vexti útgerðarinnar, og hvað er að segja um þá staði, þar sem útgerðin hefur gengið saman, þótt fólkinu hafi fjölgað, eins og t. d. hér í Reykjavík? Ekki hefur fólkið flutzt þangað til þess að vinna við útgerðina. Nei, þetta fólk hefur farið að stunda setuliðsvinnu, en ekki til þess að vinna að framleiðslunni, og þessi hv. þm. hefur gert allt, sem í hans valdi hefur staðið, til þess að draga fólkið frá framleiðslunni og í setuliðsvinnuna, en hann hefur ekki gert sér grein fyrir því, hvað við muni taka, er setuliðsvinnan hættir. Þá mun þetta fólk sitja eftir atvinnulaust og heimta atvinnuleysisstyrk af ríkinu. Heldur þessi hv. þm., að þetta sé til hollustu fyrir þjóðfélagið? Hvað ætlar hann að gera við þetta fólk, þegar setuliðið fer, sem það vonandi gerir bráðum? Hefur hann ekkert hugsað fyrir því, eða ætlar hann bara að hafa það til þess að kjósa flokk sósíalista?

Svo kemur þessi hv. þm. og segir, að neytendur eigi kröfu á því að fá nægilegar landbúnaðarvörur allt árið um kring, en hann telur ósanngjarnt að fara fram á það, að verkafólk bæjanna fari út í sveitirnar til þess að vinna þar að framleiðslustörfum, og hann telur, að það sé bezt að láta bændur eiga sem allra erfiðast fyrir, en í sömu andránni segir hann, að neytendur eigi kröfu á því að fá nægilegar landbúnaðarvörur allt árið. Það er tilgangslaust að ætla sér að ræða við menn, sem viðhafa slíkan málflutning. En það var eitt atriði í ræðu þessa hv. þm., sem sýnir það, að það er að berast ljósglæta inn í huga hans og að hann muni ef til vill vera að hverfa eitthvað frá villu síns vegar. Það hefur oft komið fram frá sósíalistum, að Ísland væri ekki hæft til þess að stunda þar landbúnað, en þessi hv. þm. sagði hér í gær, að það mætti jafnvel framleiða hér landbúnaðarvörur í samkeppni við önnur lönd. Það er gott, að þessi skoðanaskipti skuli hafa orðið hjá þessum hv. þm., því að það er fyrsta skilyrðið til þess, að við getum lifað hér, að við höfum trú á landinu, og ef þessi hv. þm. er nú búinn að fá trú á landinu, þá er gott til þess að vita, og þess má þá vænta, að hann reyni að útbreiða þessa trú sína.

Hv. þm. sagði einnig, að við mundum geta framleitt hér fisk í samkeppni við England, og ég er honum sammála í þessu, því að fiskimið okkar eru frjórri og betri en flest önnur. Það er ekki landinu að kenna, að við getum ekki látið framleiðslu okkar bera sig, heldur hitt, að við höfum ekki nógu gott stjórnarfar. (EOl og BrB: Heyr!) Hv. þm. sagði, að árið 1942 hefði landið skaðazt um margar millj. kr. vegna þess, að verðið á kjötinu hefði verið of hátt. Þessi plata er nú orðin gömul, og ég hélt sannast að segja, að hún væri orðin svo slitin, að ekki væri hægt að spila hana lengur. (BÁ: Jú, ef skipt er um nál.) Þessi hv. þm. er samt svo þrautseigur, að hann reynir að fá hljóð úr plötunni eins lengi og hægt er. En þetta eru engin rök hjá háttv. þingm., því að sannleikurinn er sá, að kjötverðið 1942 var ekki of hátt. (EOl: Já, 10 millj. eru vitanlega ekki neitt). Hagstofan taldi, að bændur þyrftu að fá 3,69 kr. fyrir kg af kjötinu, en þá fengu þeir 3,80 kr. fyrir kg. Þetta munar því ekki nema 11 aurum á kg, og það gerir ekki margar millj. kr., þótt hv. 2. þm. Reykv. leyfi sér að fullyrða það. Það er ekki undarlegt, þótt hv. þm. furði sig á því, að fulltrúar bænda skyldu hækka kjötverðið árið 1942, þegar hann beitti sér fyrir því að hækka grunnkaup um land allt þetta sama ár. Hann mun hafa ætlazt til þess, að bændur og fulltrúar þeirra svæfu þá á verðinum og gerðu ekki neitt, en fulltrúar bænda svöruðu þessum grunnkaupshækkunum á hinn eina rétta hátt, með því að hækka verðið á landbúnaðarvörunum, og það varð til þess, að landbúnaðurinn er nú ekki kominn í auðn, og það er því að þakka, að þessi hv. þm. og neytendur almennt geta nú fengið mjólk og skyr handa sér og sínum börnum. (EOl: Viltu ekki senda mér skyr á morgun? Það hefur ekki fengizt síðustu vikur). Forseti hefur ekki gefið mér nema athugasemdartíma, og ég er því búinn að tala mig dauðan sem kallað er. Það er ekki heldur ástæða til þess að tala meira við þennan hv. þm., þar sem hann hefur ekki borið fram nein rök, þótt hann hafi talað um mál, sem ég veit, að hann hefur hæfileika til þess að skilja, en virðist ekki vilja skilja.