07.12.1944
Sameinað þing: 72. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í B-deild Alþingistíðinda. (621)

143. mál, fjárlög 1945

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. — Ég vil í fáum orðum gera grein fyrir afstöðu minni sem eins nm. í fjvn. til þeirra till., sem n. flytur, og mun mega líta á það sem afstöðu okkar beggja sósíalistanna, sem sæti eigum í fjvn.

Það álit hefur komið hér fram, að tekjuáætlunin væri óvarleg. Ég get ekki fallizt á, að þetta sé rétt. Meira að segja tel ég, að í einstökum atriðum hefði mátt áætla tekjurnar hærri en gert er, og fer ég þar eftir reynslu undanfarinna ára. — Það eru einkum 6 liðir, sem n. hækkar. Tekju- og eignarskattur er í frv. áætlaður 21 millj. kr., en n. áætlar hann 22,5 millj. kr. Nú á þessu ári er þessi skattur álagður 24 millj. kr., og eftir því sem nú horfir, má búast við, að tekjur manna verði hærri. Þess vegna mætti búast við, að þessi liður verði 24 millj. kr., en n. hefur, eins og áður er sagt, einungis áætlað hann 22,5 millj. kr. Það er að vísu rétt, að erfitt gæti orðið að innheimta þetta, ef verulegt hrun kæmi, en ég tel ekki ástæðu til að óttast það svo mjög.

Annar liður, sem n. hækkar, er stríðsgróðaskatturinn. Hann er í frv. 8 millj., en hjá n. 9 millj. kr. Nú í ár er stríðsgróðaskatturinn álagður 9,5 millj. kr., og eins og fyrr er sagt, eru tekjur fyrirtækja á þessu ári yfirleitt meiri en áður, svo sem stórútgerðarinnar. Þess vegna er full ástæða til að ætla, að þessi liður verði a.m.k. eins hár og n. áætlar.

Þriðji liðurinn er verðtollurinn. Í frv. er hann áætlaður 25 millj. kr., en hjá n. 28 millj. kr. Núna í októberlok var verðtollurinn þegar orðinn 28 millj. kr., og eru þá tveir mánuðir eftir. Enn fremur má geta þess, að á sama tíma í fyrra var verðtollurinn 2 millj. kr. lægri en hann er nú, en varð þá 34 millj. kr. Má því búast við allmikilli rýrnun á þessum lið, ef hann skal talinn óvarlegur. Að minni hyggju hefði mátt áætla hann hærra en gert er.

Fjórði liður er vörumagnstollur. Hann er í frv. áætlaður 8 millj. kr., en hjá n. 9 millj. kr. Þessi tollur er nú í nóv. orðinn 9 millj. kr., svo að sýnilegt er, að hann fer í 10 millj. Hann er því áætlaður 1 millj. lægri en hann verður.

Þá kem ég að fimmta lið, sem er tekjur af áfengisverzluninni. Þar gerir frv. ráð fyrir 13,3 millj. kr., en n. 22,1 millj. kr. Eins og komið hefur fram í umr., eru líkur til, að tekjur af áfengisverzluninni verði nú 27 millj. kr. Er því áætlun n. 5 millj. kr. lægri en líklegt er, að verði í reynd. Ég skal taka það fram, að ég er ekki ánægður með, að þessi liður skuli vera svo hár, og skal verða fyrstur til að vinna gegn því. En ég sé ekki ástæðu til að áætla þetta öðruvísi en sýnt er, að það verður. Það mun rétt, að þessi liður lækkar, ef atvinnutekjur lækka, enda er gert nokkuð fyrir því í áætlun n.

Loks er sjötti og síðasti liðurinn, og það eru tekjur af tóbakseinkasölunni. Þar áætlar frv. 6,5 millj., en n. 7,9 millj. kr. Í ár munu tekjur af þessum lið fara 1/2 millj. fram úr áætlun n., og ég lít svo á, að þetta séu nokkuð öruggar og stöðugar tekjur. Þessi áætlun mun því vera síður en svo of há.

Í nál. getum við þess, að ýmsir útgjaldaliðir megi vera lægri að okkar áliti, en höfum hins vegar ekki viljað gera ágreining út af því. Sömuleiðis viljum við hækka suma útgjaldaliði, en þær till. fengu ekki áheyrn í n. T.d. er það skoðun mín, að ýmsir liðir, sem eru undir nafninu „eftirlit“, mættu falla niður, og sama má segja um liðinn um kirkjubyggingar. — Viðvíkjandi framlagi til dvalar barna í sveit leggur n. til, að það verði fellt niður. Þessum lið hefði ég viljað halda, en verja fénu nokkuð öðruvísi en gert hefur verið.

Þá vil ég geta þess, að nokkrir liðir hafa síðan komið fyrir n. og bíða 3. umr., t.d. 250 þús. kr. til framfærslumála og atvinnubáta. Þessi liður er með öllu óþarfur, og sú n., sem með þetta hefur að gera, er nú orðin dýrari en styrkþegarnir, þannig að á síðasta ári námu laun framfærslumálan. 45 þús. kr., en styrkir þeir, er hún veitti, einungis 35 þús. kr. — Ég vildi, að framlag til íþróttasjóða væri hærra, en till. mín í þá átt bar ekki árangur, og sama er að segja um fleiri liði, sem ég hefði kosið, að væru hærri. Að öðru leyti er ég ánægður með þá afgreiðslu, sem n. hefur haft á frv., svo sem með hækkanir til vega og hafnargerða.

Ég held, að ég þurfi svo ekki að taka fleira fram. Ég stend ekki að neinum brtt. nema sem nm., og það, sem ég er óánægður með, vænti ég að fá lagfært fyrir 3. umr.