08.12.1944
Sameinað þing: 73. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (632)

143. mál, fjárlög 1945

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Ég á hér nokkrar brtt., en áður en ég sný mér að þeim, vildi ég beina örfáum orðum til fjvn: út af viðhaldi veganna.

Viðhaldi veganna úti um land var mjög áfátt í sumar, þótt gott sumar væri, og var borið við, að of lítið fé hefði verið áætlað til þess. En það er ekki forsvaranlegt, að þeir vegir, sem til eru, séu ófærir lengri eða skemmri tíma, og ætti því fjvn. að athuga þetta. — Alþ. verður að hafa áætlunina til þessa svo ríflega, að umferð stöðvist eigi.

Á þskj. 612 á ég brtt. um að hækka fjárveitingu til póstflutninga. Á þessu þ. var borin fram till. um að láta koma til framkvæmda till. frá mþn. í póstmálum. Ég sé, að fjvn. hefur tekið þetta til greina, og nemur hækkun hennar 200 þús. kr. Ég þykist sjá, að fjvn. vilji koma þessu í áttina, en hún er bara allt of smástíg. Við lögðum til, að þessi liður yrði hækkaður um 500 þús. kr., en til vara 300 þús. kr., og er það þó of lítið. Hér er um hagsmuni allra landsmanna að ræða, og undirbúningur á smíðum póstkassa ætti þegar að vera hafinn.

Enn á ég eina brtt. á sama þskj. Vildi ég láta bæta við orðinu „áætlað“ við hin um brúasjóð. Ég hef spurt um þetta undanfarin ár, hvað væri í brúasjóði, en eigi fengið rétt svar fyrr en nú. Það má segja, að þetta skipti ekki miklu máli, því að væntanlega verða alltaf einhverjir á þingi, sem sjá um, að sjóðurinn verði ekki snuðaður.

Þá á ég líka þrjár aðrar till. á sama þskj., og vil ég minnast á tvær þeirra, en um þá þriðju verður talað af öðrum. Önnur þeirra er um það að verja allt að 50 þús. kr. til þess að fá lækna í þau héruð, sem læknislaus eru. Það var tilgangurinn með sams konar till., sem tekin var í fjárl. í fyrra, að ,láta læknana fá launauppbót, en féð var ekki notað. — Hin till. var líka tekin upp í fyrra, um að greiða læknisvitjanastyrki til þeirra héraða, sem eru læknislaus þrjá mánuði af árinu eða lengur, og nemi þeir allt að læknislaunum þann tíma, sem héraðið er læknislaust. Vona ég, að till. þessar verði samþ.

Þá vil ég einnig mæla með till. um brú á Hofsá í Svarfaðardal, því að eigi er meiri þörf á annarri brú en þessari, og hvað sem öðrum brúm líður, þá verður skilyrðislaust að bæta þessari brú við.

Þá á ég brtt. á þskj. 626, um læknisvitjanastyrk handa sveitum, sem eiga sérstaklega erfiða læknissókn. Ég sá ekki betur en þetta hefði alveg fallið niður, en það átti víst að vera falið inni í liðnum til læknisvitjanasjóða. En ég lít svo á, að ekki ætti að hafa ósundurgreindar upphæðir á fjárl., sem eigi er greint, hvernig á að verja, eins og t.d. með styrki til barnaskóla í sveitum, og fleira mætti telja, sem sjálfsagt er, að sé sundurgreint á fjárl. Ef till. verður tekin aftur til 3. umr., vona ég, að hv. fjvn. taki upp þá hreppa, sem ég hef tekið hér upp og eiga mjög langt að sækja lækni.

Næsta brtt. á þskj. 626, er II. við 12. gr., XII, nýr rómverskur liður. Sá liður hefur alltaf verið innifalinn í læknavitjanastyrknum og er til þess, að hægt sé að hafa lækni á Raufarhöfn um síldveiðitímann. Þetta hefur verið svo undanfarið, og er engin ástæða til að láta það falla niður. Leyfi ég mér því að taka liðinn upp og vænti, að enginn sé á móti því að samþ. hann.

Ég er enn með till. á sama þskj. Hún er um, að veittur sé styrkur í Borgarfjörð eystra til a,ð hafa þar lærða hjúkrunarkonu, meðan þar er ekki læknir. Ég hef verið svo hæverskur að ætlast ekki til, að þessi styrkur haldist, ef læknir fengist, en það getur verið, að þessi hæverska sé um of, þar sem hv: þm. N.-Ísf. á hér till., sem fer fram á, að lærð hjúkrunarkona verði fengin í þorp af svipaðri stærð og í Borgarfirði er og líka hefur lækni. En ég hef samt ekki ætlazt til, að fjárveitingin héldist, nema læknir sé ekki í héraðinu. Það hafa verið þrír svona styrkir á fjárl. áður til héraða, sem enginn læknir fæst í. Fjórði staðurinn er Bolungavík, en þar er læknir, og hefur þessi till. mín því meiri rétt á sér en till. um að launa hjúkrunarkonu þar.

Þá er brtt. á þskj. 646, VII, við 13. gr. A IX. Þar eru ætlaðar til ferjuhalds 11 þús. kr., en hjá mér 8900 kr. Nú er komin brú yfir Eldvatnið, og er ekki ástæða til að ferja undir brúnni. Allur fjöldinn mun heldur ganga yfir brúna í stað þess að nota ferjuna. Ég geri þá till., að þar, sem margir ferjustaðir eru við hverja á, ákveði hreppsnefnd, hvernig fénu sé skipt. Svo er t.d. um Jökulsá á Dal. Þar munu vera sex ferjustaðir. — Ég gat ekki annað en lagt til, að kláfferjurnar væru styrktar líka. En af því að mér er ekki kunnugt um, hve mikil umferð er á hverjum stað, hef ég lagt til, að hreppsnefnd ákveði skiptingu fjárins.

Þá legg ég til, að styrkur til ferjuhalds á Lagarfljóti verði hækkaður og sýslun. ákveði skiptingu hans. Frá Lagarfljótsbrú til ósa eru um 60–80 km, og eru þar þrjár ferjur. — Styrkur til ferjanna við Auðsholt og Iðu í Árnessýslu frá árunum 1943 og 1944 hefur ekki verið hafinn. Við Iðu er líklega ein fjölfarnasta ferjuleiðin. Því hefur verið bætt við, að þar sem þessar ferjur eru á sýslueða hreppsvegum, komi fé á móti styrk ríkissjóðs, og skal ferjutollur ákveðinn af sýslun. og samþ. af vegamálastjóra. Vil ég vænta þess, að þar sem ég hef lækkað liðinn í heild, en fjölgað ferjustöðum, hafi enginn við till. mínar neitt að athuga, og vil ég biðja hv. fjvn. að taka þær vel til athugunar.

Þá vil ég benda á, að nauðsynlegt er að áætla nægilegt fé í fjárl. til vegaviðgerða, svo að ekki sé hægt að segja, að ekki sé unnt að gera við vegina, ef þeir verða ófærir, af því að fjárlagaheimild sé ekki til.