10.10.1944
Efri deild: 56. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í D-deild Alþingistíðinda. (6373)

144. mál, línurit yfir vegi

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. — Þál. sú, eða efni hennar, sem hér er gerð fyrirspurn um, hvað líði framkvæmd á, var send strax, þegar hún barst ríkisstj. frá hæstv. Alþ., til vegamálaskrifstofunnar með fyrirmælum um að framkvæma þetta verk svo fljótt sem nokkur tök væru á.

Ég hef fyrir nokkru spurzt fyrir um það, hvað þessu verki líði, og verð, því miður, að upplýsa, að verkinu er ekki lokið. Undirbúningsverkið til þess að fullnægja þessari þál. er mér tjáð af vegamálastjóra, að sé mjög mikið. Hann á að gera línurit af öllum vegum, þjóðvegum, sýsluvegum og hreppavegum. En til þess að hægt sé að fá öll þau gögn fram til þess að vinna að þessu línuriti, þarf mikið verk. Að því verki hefur verið unnið með þeim árangri, að efnið til þess að gera línuritið um meginvegina lá fyrir á síðasta vori. En efni til þess að gera línurit um smærri vegi hafði ekki unnizt tími til að ná saman. Vegamálastjóri upplýsir, að ástæðan fyrir því, að ekki var hægt að klára þetta fyrir samkomudag Alþ. á síðasta vetri, hafi verið sú, að hann sé svo fátækur af hjálparliði, eins og raunar hefur verið skýrt frá hér á Alþ. fyrir nokkrum dögum í sambandi við annað mál, og sé þetta einnig ástæðan fyrir því, að verkinu er enn ekki lokið.

Það hafa verið gerðar ráðstafanir til þess, að gangskör verði að því gerð að ljúka þessu verki, og skal verða lögð áherzla á, að svo verði gert.

Mér þykir fyrir, að þetta þarfa verk hefur ekki getað klárazt, en orsakirnar eru þær, sem ég hef greint. En áherzla verður lögð á að ljúka verkinu svo fljótt sem nokkur tök verða á.

Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, nota tækifærið til þess að svara fyrirspurn, sem sami hv. þm. skaut fram í gær viðvíkjandi athugun og endurskoðun á hafnarl. Það er rétt, sem sá hv. þm. hafði heyrt, að það hafi verið tekin til yfirvegunar og athugunar allsherjarathugun á hafnarlagasetningu í landinu. Milliþn. í sjávarútvegsmálum hefur haft þetta mál til meðferðar, og liggur það fyrir til athugunar hjá vitamálastjóra, sem mun innan skamms geta sinnt því, og er von til, að það komist á rekspöl, þegar útiönnum hans og starfsmanna hans er lokið.