02.03.1945
Efri deild: 140. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í D-deild Alþingistíðinda. (6379)

290. mál, lagasafn

Jónas Jónsson:

Það er mjög ánægjulegt að heyra, að hæstv. ráðh. er að þoka þessu máli áfram, því að það hefur verið mjög óþægilegt fyrir bæði lögfræðinga, alþm. o. fl., að bók þessi hefur ekki verið til. En fyrst þetta mál er til umr., vil ég spyrja hæstv. ráðh., hvort hann áliti ekki rétt að gera ráð fyrir, að bókin verði gefin út með heldur stuttu millibili, 5–6 ára fresti, og geyma stílinn. Það var ætlazt til þess upprunalega, en það leið svo langur tími, að lítið gagn var að eiga það. Ég hygg, að það verði alltaf svo mikil eftirspurn eftir þessari bók, að skynsamlegt sé að gera ráð fyrir, að hún verði gefin út með stuttu millibili. Eins og nú er ástatt fyrir ríkisprentsmiðjunni hvað vinnuafl áhrærir, þar sem hún hefur allt of lítið starfsfólk til sinna mörgu verkefna, þá vil ég heldur mæla með, að reynt sé að semja við aðra prentsmiðju. Það er ótrúlegt, þegar maður lítur á, hve mikið er prentað af lítt nauðsynlegum bókum, að hæstv. stj. skuli ekki geta fengið einhverja prentsmiðju til að vinna þetta verk.

Þá er annað, sem ég vil skjóta til hæstv. ráðh., og það er það, að þegar fyrst var verið að undirbúa þessa bók, þá var ætlazt til, að við þingið væri sérstök laganefnd. Það urðu um það deilur þá, og þessi n. var aldrei skipuð. En þótt það væri ekki nauðsynlegt vegna bókarinnar, þá held ég, að allir geti verið mér samdóma um, að heppilegt væri, að slík samræmingarnefnd viðvíkjandi löggjöf væri á Alþingi. Þetta er engin formleg fyrirspurn til hæstv. ráðh., og ég veit, að hann muni ekki segja neitt um það, en það getur verið, að hann ætti að nota þessa gömlu heimild bæði til léttis fyrir þingið og að lagasmíðar verði greiðari aðgangs en verið hefur nú að undanförnu.