22.01.1945
Efri deild: 108. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1271 í B-deild Alþingistíðinda. (6456)

225. mál, prófessorsembætti dr. Sigurðar Nordals

Frsm. (Kristinn Andrésson):

Herra forseti. — Frv. þetta á þskj. 671 er um að veita prófessor Sigurði Nordal lausn frá embætti með fullum launum og öllum þeim réttindum og skyldum, er embættinu fylgja.

Um þetta held ég ekki geti orðið neinn ágreiningur. Verðleikar Sigurðar Nordals eru þjóðkunnir. Jafnframt því að hafa stundað kennslu í norrænu við Háskólann um 25 ára skeið, er hann afkastamikill vísindamaður og rithöfundur og hefur nú með höndum samningu mikilla ritverka um íslenzkar bókmenntir og menningu.

Frv. þetta miðar að því að gefa honum tækifæri til að helga þessu starfi krafta sína óskipta. Frv. er komið frá hv. Nd., flutt af hv. þm. þeirrar d. og afgreitt frá d. með shlj. atkv. Menntmn. þessarar hv. d. hefur athugað frv. og er sammála um að leggja til, að það verði samþ. óbreytt.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum.