21.11.1944
Efri deild: 72. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

183. mál, nýbyggingarráð

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. — Frv. þessu, sem flutt er af ríkisstj., og í dag hefur verið afgreitt frá hv. Nd., er ætlað að lögfesta eitt ákvæði í þeim samningum, sem stjórnarflokkarnir gerðu með sér, áður en stjórnin var mynduð. Ég get í aðalatriðum, varðandi rök fyrir málinu, látið nægja að vísa til þeirrar grg., sem frv. fylgir og tekin er úr nefndum málefnasamningi.

Eins og frv. ber með sér, er ætlazt til þess, að 300 millj. kr. af inneignum Landsbankans erlendis séu lagðar á sérstakan reikning og að eingöngu megi verja þeirri fjárhæð til þess að kaupa framleiðslutæki og annað varðandi nýsköpun atvinnulífs þjóðarinnar, samkvæmt nánari ákvæðum nýbyggingarráðs, eins og ákveðið er í 1. gr. frv. — Í 2. gr. er svo gert ráð fyrir því, að ríkisstjórnin skipi 4 manna nefnd, sem nefnist nýbyggingarráð, og er í 2. gr. ákveðið um verkefni nýbyggingarráðs. — Í 3. gr. er svo fyrir mælt, að ríkisstj. ákveði með reglugerð nánar um starf nýbyggingarráðsins. Og í þeirri gr. segir enn fremur, að ef henta þykir að dómi ríkisstjórnarinnar, sé heimilt að fela nýbyggingarráði störf nokkurra mþn., sem þar eru nánar tilgreindar. Það er viðurkennt af öllum, að það séu kannske úr hófi fram margar mþn. starfandi. Og eins og ég hygg að ég hafi tekið fram í umr. málsins í hv. Nd., er það ekki tilgangur ríkisstjórnarinnar, þegar hún nefnir þessar ákveðnu mþn., sem greindar eru í 3. gr., á nokkurn hátt með því að vilja gefa í skyn, hvað þá meira, að þær nefndir hafi ekki unnið sín verk með samvizkusemi og góðum árangri. En tilgangurinn er einungis sá að heimila ríkisstj., ef í ljós kemur, þegar nýbyggingarráð tekur til starfa, að það flýti fyrir gangi mála, að fela nýbyggingarráðinu þau störf, að kveða þá svo á.

Á þessu stigi málsins sé ég svo ekki ástæðu til að fylgja frv. úr hlaði með fleiri orðum, vegna þess að málið liggur skýrt fyrir. Og ég held, að það sé óþarft vegna hv. þm. Þeir munu nú þegar allir hafa á því mikinn kunnugleika. — Ég vil leyfa mér að leggja til, að þessu frv. verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og hv. fjhn.