21.11.1944
Efri deild: 72. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

183. mál, nýbyggingarráð

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Ég get nú fallizt á það, að það sé óþarft að hafa um þetta mál langar umr. Það hefur komið skýrt fram í sambandi við yfirlýsingu hæstv. ríkisstj. og í umr. um málið í hv. Nd., hver afstaða. Framsfl. er til þessa máls. Og jafnframt er sú afstaða alveg skýr hjá hæstv. ríkisstj. og þeim, sem hana styðja, að ekki skuli breyta frv. frá því formi, sem það nú liggur fyrir í, eins og það hefur verið lagt fram í upphafi. — Það er því í raun og veru ákaflega þýðingarlítið — og ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar — að nota tímann hér á hæstv. Alþ. til þess að endurtaka hvað eftir annað þau rök, sem borin eru fram gegn málinu, sérstaklega þegar augljóst er, að það er ætlunin að samþ. frv. eins og ríkisstjórnin hefur borið það fram.

Ég mun þess vegna ekki tefja fyrir þessu máli á neinn hátt með því að endurtaka þær umr., sem fram hafa farið um það í hv. Nd. Ég hef — eins og aðrir framsóknarmenn — ákaflega litla trú á því, að þessi nýsköpun takist á þeim grundvelli, sem hér er fyrirhugað að framkvæma hana á. Og ég get í raun og veru tekið undir það, sem eitt blað hæstv. ríkisstj. hefur sagt um þetta mál, að það er hver dagurinn dýr. Ég álít, að það sé hver dagurinn dýr, sem líður, án þess að þessi nýsköpun fái að sýna sig í framkvæmd. Og þá reynslu þarf þjóðin nauðsynlega að fá, hvort þessi nýsköpun verður framkvæmanleg á þeim grundvelli, sem hæstv. ríkisstj. ætlast til. Ég held því, að þetta eigi að koma sem fyrst til framkvæmda, úr því sem komið er, til þess að reynslan um það sýni sig sem fyrst.