07.12.1944
Efri deild: 84. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í B-deild Alþingistíðinda. (760)

164. mál, prófessorsembætti í heilbrigðisfræði

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Í tilefni af fyrirspurn hv. 1. þm. Reykv., hvaða launakjör þessum prófessor séu ætluð, vil ég taka fram, að það var ekki sérstaklega rætt í heilbr.- og félmn. Ég get ekki talað fyrir nefndarinnar hönd um þetta atriði, en álít, að það sé ekkert í þessari 3. gr., sem bendi til, að hann skuli hafa sömu launakjör og yfirlæknar Landsspítalans.

Út af orðum hv. þm. Dal. vil ég segja það, að meiri hl. þeirra snertir í sjálfu sér ekki efni þessa frv., því að eins og tekið er fram, er maður nú á launum, sem annast þessi störf, bæði við matvælarannsóknir og sem stundakennari við Háskóla Íslands, svo að um kostnaðarauka er ekki að ræða í þessu efni. Mér finnst nokkuð miklar kröfur gerðar til háskólans, ef ætlazt er til, að um leið og stundakennari verður fastakennari, þá séu launuð þau störf, sem hann áður hafði með höndum, þannig að þessi kostnaðarauki, sem vissulega er ekki verið að gera of lítið úr og fylgir þessari aukningu háskólans, snertir ekki að neinu verulegu leyti efni þessa frv. Þó að einhver breyt. kunni að verða á launakjörum frá því, sem nú er, verður það ekki nein upphæð, sem nemur.