12.01.1945
Neðri deild: 103. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

164. mál, prófessorsembætti í heilbrigðisfræði

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Ég get ekki stillt mig um að segja nokkur orð í sambandi við ummæli tveggja stuðningsmanna stjórnarinnar. Það er merki slíkra manna, að ef eitthvað er gert í nógu stórum stíl, þá er það ágætt, en ef eitthvað er lagfært, sem er óhafandi, þá er það með öllu ótækt. Hv. 11. landsk. talaði um, að stofnað hefði verið embætti í dauðum fræðum. Ef ég þekkti ekki trú þessa manns, þá mundi ég spyrja, hvaða fræði það væru. Það hefur verið fullyrt áður af mönnum, sem hafa verið miklu spámannlegar vaxnir en hann, að kristindómurinn væri dauður eftir nokkur ár. En enn þann dag í dag er hann betur lifandi en nokkur önnur vísindi. Og eftir því, sem ég hef vanizt, þá hafa hin verklegu vísindi hingað til verið talin dauð fræði, en kristindómurinn og ræktun mannsins hin lifandi vísindi, og er í þessu sambandi vert að athuga áhrif verklegra vísinda á nútímaheiminn. Það er ekki þörf á að fara fleiri orðum um þetta. En það er leiðinlegt að heyra hina sömu menn vera að hneykslast á smá-lagfæringum, sem leggja til að verja fleiri milljónum króna í auknar launagreiðslur.