12.01.1945
Neðri deild: 103. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í B-deild Alþingistíðinda. (813)

217. mál, skipun læknishéraða

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Ég stend aðallega upp til þess að mótmæla því harðlega fyrir hönd allra lækna í Reykjavík, að þeir séu látnir vera þau ómenni, að þeir neiti að vitja sjúklinga, þegar þeir eru beðnir um það, en hv. 3. þm. Reykv. sagði þetta um læknana í Reykjavík. Ég þekki þá marga. Hv. 3. þm. Reykv. segir, að þeir geti alltaf fundið sér eitthvað til, til þess að fara ekki. Ég geri ekki ráð fyrir, að nokkur læknir í Reykjavík reyndi að finna sér eitthvað til, til þess að fara ekki, þegar hann væri kallaður í nauðum, eins og 3. þm. Reykv. sagði, að þeir gerðu. Og ég vona, að reynsla hv. 3. þm. Reykv. hafi ekki gefið honum tilefni til þess að fara þessum orðum um læknana í Reykjavík, heldur hafi þetta verið í misgáningi sagt hér í hv. d., af því kappi, sem hann leggur á það að fá sitt mál fram í sambandi við þetta mál, til þess að eiga hægara með skriffinnsku í sjúkrasamlaginu.

En mörkin, sem sett voru milli Reykjavíkur- og Álafosshéraðs á þessu þingi, þegar l. frá 10. marz voru samþ., eru óljós, ég viðurkenni það fúslega. Og það kann að mega deila um það, hvort einhverjir sumarbústaðir í heiðinni, sem er á þessum mörkum, tilheyri þessu eða hinu læknishéraðinu. En í því tilefni er ekki nema um sumarbústaði að ræða. Og fólkið í þeim er úr Reykjavík, og þess vegna finnst mér eðlilegast, að það sé áfram í Reykjavíkurlæknishéraði, sama héraði og það er, þegar það er heima hjá sér í Reykjavík. Það fólk, sem er svo efnum búið, að það getur átt þannig tvö heimili, en það er megnið af því fólki, sem. um er að ræða í þessum sumarbústöðum, hefur efni á því að sækja lækni í sumarbústaðina. En það er ekki margt fólk, sem er í býlum þarna, sem alltaf er búið í. Þó kann að vera, að einhverjir, sem eiga sumarbústaði þarna, hleypi einhverju fólki í þá nú, þegar þeir ekki nota þá sjálfir, svo að þess vegna séu fleiri á þessu svæði heldur en á venjulegum tímum. Það er ekki ótrúlegt. En þó að tillit sé tekið til þess. er þar ekki um margt fólk að ræða. Og það á að lögum nú læknissókn í Reykjavík. Og það eru það margir læknar í Reykjavík, að það er hægara fyrir þetta fólk að sækja til einhvers læknis í Reykjavík en eins að Álafossi. Og vafalaust gæti Álafosslæknirinn ekki síður verið upptekinn heldur en allir þeir um það bil 90 læknar, sem starfa í Reykjavík.