22.11.1944
Neðri deild: 80. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

120. mál, fólksflutningur með bifreiðum

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. — Ég vildi aðeins þakka hv. frsm. samgmn. fyrir það, hvernig hann hefur tekið undir þær óskir eða till., sem ég bar fram við þetta mál, þegar það var hér til umr. síðast. — Það er alveg rétt, eins og hann greindi, að þessar óskir eru aðallega tvær. Í fyrsta lagi, að sérleyfisgjaldið fengi að ganga, eins og það hefur gert hingað til, að einhverju miklu leyti a.m.k. til þess að styrkja þá menn, sem við erfiða aðstöðu eiga að búa, til þess að halda uppi gististöðum fyrir sérleyfisferðir. Og virðist mér, eins og hv. frsm. hefur flutt brtt. um, með þeim skýringum, sem frá honum fylgja, þá sé heimilt að láta þetta ganga eins og hingað til. Og þá er mínum tilgangi náð.

Í öðru lagi óskaði ég eftir því, að stjórn þessara mála yrði ekki bundin með l. algerlega við póstmálastjórnina, eins og gert er ráð fyrir í brtt. n., heldur yrðu hafðir opnir möguleikar fyrir því, að öðrum stofnunum yrði falið þetta, ef hentara þætti. Póstmálastjórnin hefur farið með þetta nú um skeið, og í aðalatriðum sjálfsagt þannig, að tilganginum með því hefur verið náð. En eins og l. bera með sér og þeir vita, sem kunnugir eru, þá eru líkur til þess, að á þessu kunni að verða nokkur breyt. á næstunni, þannig að það starf, sem framkvæmd l. hefur í för með sér, mun að verulegu leyti kunna að aukast og að hentara kynni að þykja að fela það þá öðrum stofnunum heldur en póstmálastjórninni. Ef yfirstjórn þessara mála á að taka í sínar hendur að verulegu leyti rekstur sérleyfisbifreiða eða stjórn stöðvanna hér í Reykjavík, þá eykst þetta starf, sem póstmálastjórnin hefur með höndum. Og er því eðlilegt, að það sé a.m.k. opið, að hægt sé að fela annarri stofnun þetta starf. — Ég er þakklátur hv. samgmn. og frsm. hennar fyrir það, að hún hefur tekið þá aths. einnig til greina. Því að mér skilst, að eftir brtt. þessari, sem nú er flutt, sé þetta opið á svipaðan hátt eins og óskað var.

Þá er aðeins eitt atriði eftir, sem er um afgreiðslustöðvar og yfirtöku ríkisins á rekstri sérleyfisleiða að einhverju meira eða minna leyti. Það er heimild í l. til þess að gera þetta, en tæplega skapaðir möguleikar til framkvæmda þess eins og l. eru, eins og hv. frsm. tók réttilega fram. Hann sagði, að þetta yrði að duga til að byrja með, sem nú væri fyrir hendi. En miklar framkvæmdir er ekki hægt að hafa af þessu tagi af hálfu þess opinbera, nema með því að koma til Alþ. og fá um það sérstök l. Aðeins afgreiðslustöð hér í Reykjavík yrði svo stórt fyrirtæki, að það mundi kosta hundruð þús. kr. eða milljón að byggja hana, og er þá ekki óeðlilegt, að til Alþ. þyrfti að koma, ef í það ætti að ráðast, til þess að fara fram á sérstaka heimild í því skyni. En hvort sem ríkisstjórnin tekur að sér að reka þessar sérleyfisferðir að nokkru leyti eða ekki, þá er samt sem áður mjög nærri sú þörf, að sameiginleg afgreiðsla hér í Reykjavík verði tekin upp fyrir þennan rekstur, sem allar sérleyfisbifreiðar gætu gengið frá. Það eru mikil og margvísleg óþægindi fyrir fólk að þurfa að fara sitt í hverja átt, eftir því hvaða sérleyfisleið er ætlað að nota, en geta ekki gengið að þessu á vissum, ákveðnum stað og sama gildir viðkomandi sendingum, sem fólk þarf að senda, og ýmislegu fleiru, sem með bifreiðum þarf að fara. Og með því að hafa afgreiðsluna svona á einum stað er ýmislegt fleira, sem hægt væri að lagfæra. Ég geri ráð fyrir, að framkvæmd þessa atriðis yrði á þann hátt, að ráðuneytið mundi rannsaka möguleika til þess að fá úr þessu bætt og bera þá, að athuguðu þessu máli, á ný fram sérstaka tillögu.