09.11.1945
Efri deild: 26. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (1079)

72. mál, strandferðaskip

Jónas Jónsson:

Ég vildi aðeins segja fáein orð til þess að láta í ljós ánægju mína ekki aðeins yfir þessu frv., sem hér er um að ræða, heldur líka til þeirrar n., sem hefur undirbúið þetta og fleiri mál. — Mér finnst það ekki óskylt þessu máli að minna nú á það, að vegna þeirra miklu erfiðleika, sem hafa verið um strandferðir undanfarið, sérstaklega á Vestfjörðum og Austfjörðum, tókum við okkur saman nokkrir þm. fyrir 2–3 árum um að flytja þáltill, um tvö efni, annað, að sett væri nefnd til þess að undirbúa byggingu skipasmíðastöðvar í Reykjavík, og í öðru lagi, að undirbúið væri plan um strandferðir. Það er alveg óvenjulegt, að mál gangi svo fram sem hér hefur orðið raun á, því að þessi 4 manna n., einn maður úr hverjum flokki, var ekki. aðeins búin að gera sína rannsókn á skipasmíðamálunum á einu ári, heldur var líka Alþ. búið að samþ. löggjöf, sem þar að laut, með góðu samkomulagi við Reykjavíkurbæ. Svo leið annað ár og sama lukka hefur fylgt þessu máli, því að nú ætla báðar hv. þd.samþ. frv. um ráðstafanir til bættra strandferða.

Sú beina ástæða til þess, að þessi n. var skipuð, voru vandræði fólksins á Austur- og Vesturlandi, sem útilokað er frá bifreiðasamgöngum, bæði innan héraðanna — ekki aðeins að vetrinum, heldur einnig að sumrinu, — og einnig frá að geta komizt í samband við aðalþjóðvegi landsins með bifreiðasamgöngur. Og þá vildi ég leyfa mér að skjóta því til hæstv. ráðh., sem tekið hefur þetta með miklum dugnaði, að ég vildi vonast til þess, að Austfirðingar og Vestfirðingar fengju eins fljótt og við verður komið þá minni báta, sem þeim eru ætlaðir, og að þeir bátar yfirleitt færu ekki út úr fjórðungnum hvor fyrir sig. Ég veit, að það er rætt um það, að þessi skip gangi lengra. En ef á að vera mögulegt að nálgast þær samgöngur fyrir fólk austan lands og vestan, sem annað fólk hefur með bílum, þá er ekki um það að ræða, að þessi litlu skip megi þaðan fara. En af því að þetta liggur ekki fyrir nú, ætla ég ekki langt út í það, en þó finnst mér aðeins mega benda hæstv. ráðh. á það, að það eru alveg sérstaklega þessir erfiðleikar, sem hrundu þessu máli af stað, og það er æskilegt, að þetta fólk gæti notið þessara skipa til fulls.