28.11.1945
Efri deild: 39. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í B-deild Alþingistíðinda. (1155)

123. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð (heildarlög)

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Herra forseti. Út af þessari aths. frá hv. þm. Barð. vil ég segja það, að ég álít, að það gæti ekki komið til greina að breyta ákvæðum 4. gr. frv. á þann veg, sem hv. þm. talaði um, að erlenda gjaldeyrinum yrði skipt jafnt á milli Landsbankans og Útvegsbankans. Slíkt kæmi ekki til greina, nema að undangengnum samningum milli bankanna. Þetta ákvæði um gjaldeyrinn er sett inn eftir að bankarnir hafa haft þetta mál til athugunar. Og ég held, að ég geti sagt með vissu, að samkomulag hafi orðið um það milli bankanna, að skiptingin á erlenda gjaldeyrinum verði eftir þeim hlutföllum, sem í frv. greinir. Ég hygg, að það sé á misskilningi byggt hjá hv. þm. Barð., að hallað sé á Útvegsbankann með þessu ákvæði frv. Ég ætla, að þessi skipting sé nokkurn veginn í samræmi við veltu bankanna og í samræmi við innstæðufé hvors bankans fyrir sig. Og það gengi a. m. k. í mjög öfuga átt við þróunina, sem hefur orðið annars staðar, — því að ég ætla, að mjög víða sé það orðið svo, að þjóðbankinn einn hefur gjaldeyrisverzlunina, — ef við færum að draga gjaldeyrisverzlunina meir en orðið er undir banka, sem þó er að nafninu til einkabanki. Þetta atriði mætti að sjálfsögðu athuga síðar meir, ef fram kæmi óánægja með þessa skiptingu, sem ég hef þó ekki orðið var við. Þá mætti ná nýju samkomulagi um þessa skiptingu. En ég efast um það, eins og sakir standa, að það væri hagkvæmt fyrir Útvegsbankann að breyta þessu þannig, að gjaldeyririnn skiptist jafnt á milli bankanna. A. m. k. er víst, að þegar l. um þetta voru sett, taldi Útvegsbankinn sér þetta fyrirkomulag, sem í frv. er miðað við, hagkvæmt.