05.12.1945
Efri deild: 45. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (1282)

64. mál, ábúðarlög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil benda hv. frsm. landbn. á, hvort ekki væri rétt að leita upplýsinga hjá þeim manni í ráðuneytinu, sem hefur með þessi mál að gera, Friðgeiri Björnssyni, um það, hvað það mundi kosta ríkissjóð, ef hann ætti að uppfylla þær kröfur, sem gerðar eru til hans samkvæmt þessu frv. sem landeiganda. Það er viðurkennt af hv. landbn., að þetta snerti jafnt eignir ríkissjóðs eins og einstaklinga. Og mér eru svo vel kunnug þessi mál, að ég veit, að ef ekki verður látið stórfé í byggingar á jörðum ríkisins um land allt, verða þessi ákvæði ekki uppfyllt. Og ég vildi, að hv. n. fengi upplýsingar um þetta hjá Friðgeiri Björnssyni, sem er fulltrúi ríkisins um þessi mál og er þessum málum kunnugur. Og hann mun geta gefið upplýsingar um það, hvernig ástandið er um byggingar á jörðum ríkisins. Ég segi ekki þetta til þess að draga úr því, hverjar skyldur ríkisins eru um að byggja upp á jörðum sínum, heldur til þess að vekja athygli á þessu, áður en frv. fer í gegnum þessa hv. d. — Ég vil einnig benda á, að hv. landbn. gæti á ýmsan hátt tryggt þann rétt sveitarfélaganna, sem hún hyggst að gera með þessum l., án þess að þannig sé farið að eins og hér er stefnt að. Það er ekki nema sjálfsagt, að sveitarfélög vilji tryggja sig gegn því tjóni, sem af því hlýzt, ef jarðir fara í eyði, ef það er fyrir trassaskap. En það er hægt að gera á mildari hátt en hér er farið fram á og með miklu meira réttlæti. Mér finnst réttlátt, að þegar kröfur koma fram út af því, að sveitarfélag bíði hnekki af því, að jarðeigandi heldur illa við húsum á jörð sinni, þá eigi sveitarfélagið forgangsrétt að jörðinni, ef hún er seld fyrir Þeim kröfum, ef ekki er hægt að ná samkomulagi um, að jörðinni verði betur við haldið. Ég hygg, að hægt sé að ná sama takmarki á miklu mildari hátt með því móti og á réttlátari hátt en með því að samþ. það, sem hér liggur fyrir um þetta atriði.