17.12.1945
Neðri deild: 55. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (1521)

148. mál, nýbyggingarráð

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Að ég bað um orðið, var ekki sérstaklega vegna þess, hvernig þetta frv. hefur komið hér fram í hv. d., heldur vildi ég benda á það, að mér þykir það ákaflega einkennilegt, að það skuli koma fram að heita má samtímis tvö frv. um breyt. á sömu l., og auk þess eru þessi frv borin fram sitt af hvorri n. Ég veit að vísu ekki, hvort hægt er að segja, að þetta frv. sé hér til umr. Það virðast fáir vilja við það kannast. En eins og orðanna hljóðan er á þskj. þessu, sem hér liggur fyrir, eru þessi tvö frv., sem miða að því að breyta l. um nýbyggingarráð, borin fram sitt af hvorri n. Þetta þykir mér mjög einkennileg aðferð, þar sem sýnilega hefði verið hægt að koma þessu fram í einu og sama frv., eða þá bera þetta, sem hér liggur fyrir, fram sem brtt. við frv. það, sem komið er fram frá sjútvn., því að það var mjög eðlileg og þingleg aðferð að fara þannig að. Ég held þess vegna, að til þess að gera ekki hv. þm. erfiðara fyrir en þörf er á, hefði verið langeðlilegast, að þetta frv. hefði verið dregið til baka nú og borið fram sem brtt. við það frv., sem fyrir þinginu liggur frá sjútvn. um breyt. á l. um nýbyggingarráð.