14.03.1946
Efri deild: 84. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í B-deild Alþingistíðinda. (1835)

60. mál, raforkulög

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Ég skal ekki blanda mér í deilur þeirra hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. S.-Þ., en vil víkja að brtt. hv. 6. þm. Reykv. Ég lýsti því yfir við 2. umr. þessa máls, að n. væri ljóst, að frv. þyrfti endurbóta við, en til þess er varla hægt að ætlazt, að þingn. takist á hendur að gerbreyta frv., sem mþn. hefur fjallað um. Þetta er annað atriði þessa máls. Hitt er svo það, að í n. fékkst ekki samkomulag um princip atriði málsins. Ég vildi nema burtu IV. kaflann, en hv. 1. þm. N.-M. var því andvígur, og hefur hann nú flutt brtt., sem miðar að því að minnka hlutdeild héraðanna, en auka hlutdeild ríkisins. Ég tel, að héruðin sjálf geti ráðizt í framkvæmdir, ef þau geta fengið 85%, og allar framkvæmdirnar geti síðar fallið inn í heildarkerfið. N. vildi ekki eiga það á hættu að umsteypa frv., enda hefði hún þá klofnað og frv. sennilega ekki náð fram að ganga á þessu þingi, en það finnst mér svo stórt atriði, að ég vil vinna að framgangi málsins eins og það er og brtt. liggja fyrir um þrátt fyrir aðra galla þess. Nú liggja fyrir Sþ. þáltill. frá bæjar- og sveitarfélögum um 85% ábyrgð, og hljóta þær flestar að ná samþykki, þótt þetta frv. næði ekki fram að ganga. Ég vil ákveðið leggja til, að frv. verði nú afgr., svo að þessum málum sé komið í höfn. Ég hef lýst því yfir, að ég er óánægður með ýmis atriði, t. d. skipun raforkuráðs. Samkv. 35. gr. frv. er það einungis ætlað til að aðstoða ráðh., og kemur þá allt annað til greina en ef það ætti að hafa sömu völd og t. d. stjórn síldarverksmiðjanna. En um þetta fékkst ekki samkomulag í n., svo að þótt einungis hefði átt að breyta þessu, þá hefði málið stöðvazt. Ég er hv. 6. þm. Reykv. samþykkur í því, að ef ríkið á að hafa nokkurt vald, þá væri rétt að skipa ráðið á þann hátt, sem hann leggur til, en úr því að ráðh. á að bera ábyrgðina, þá er ekki ósanngjarnt, að hann megi skipa einn mann í ráðið. Þessu má vitanlega breyta á næsta þingi,

Viðvíkjandi 1. brtt. hv. 6. þm. Reykv. er það að segja, að n. er sammála um, að sú leiðrétting, sem þar er lögð til, nái fram að ganga. Annars lít ég svo á, að frv. sé þannig, að það réttlæti ekkert framgang þess annað en hin brýna þörf.

Varðandi það, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði um, að n. hefði átt að vísa málinu frá og láta það fá betri undirbúning, þá vildi ég spyrja hann, hvort hann óskar eftir, að sá háttur verði hafður á um það mál, sem hann flytur um virkjun Sogsins. Ef hann óskar þess, þá er þörfin ekki svo mikil sem látið er í Nd. Ég geri ráð fyrir, að þeir, sem eiga afkomu sína undir því, að þessum málum verði þokað áfram, yrðu ekki þakklátir iðnn., ef hún tefði þetta mál. Þess vegna hef ég tekið það ráð að óska málinu framgangs þrátt fyrir gallana.