08.10.1945
Neðri deild: 3. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

6. mál, togarakaup ríkisins

Forsrh. (Ólafur Thors):

Frv. þetta, sem er gefið út sem brbl., fer fram á að heimila ríkisstj. að kaupa eða láta smíða 30 togara erlendis, með það fyrir augum, að þessi skip verði seld einstaklingum, félögum, bæjar- og sveitarfélögum, eins og segir í 1. gr. Í 2. gr. segir: „Til framkvæmda samkv. 1. gr. er ríkisstj. heimilt að taka allt að 30 millj. króna lán, er greiðist upp, er skipin hafa verið seld.“

Eins og allir hv. þdm. vita, er það meginkjarninn í stefnuskrá ríkisstj. að reyna að tryggja, að allir Íslendingar hafi atvinnu við sem allra arðbærastan atvinnurekstur. Í því skyni ákvað Alþ., að 300 millj. kr. af inneign Íslendinga erlendis yrðu lagðar til hliðar og notaðar til að kaupa framleiðslutæki til landsins, og þá fyrst og fremst skip, en að sjálfsögðu margt annað, eins og vélar til verksmiðjureksturs, landbúnaðarvélar og annað fleira.

Mjög skömmu eftir að núv. ríkisstj. tók við völdum hóf hún undirbúning í þessum efnum, enda þótt heimsstyrjöldin væri þá í algleymingi. Stjórnin vildi strax miða að því að tryggja Íslendingum skipabyggingar erlendis. Fyrst og fremst var hófanna leitað í Bretlandi og Bandaríkjunum. Í Bandaríkjunum fékk þetta mál þegar góðar undirtektir. Ekki löngu eftir að sendiherra Íslands í Washington fékk tilmæli frá ríkisstj. gat hann sent þau skilaboð, að Bandaríkin vildu ljá máls á slíkum skipabyggingum fyrir reikning Íslands. Hafði sérstaklega tekið vel í málið admiral Lander, sem var æðsti maður skipabygginga Bandaríkjanna. Þetta varð til þess, að haldið var áfram að rannsaka bæði verðlag á slíkum skipum í Bandaríkjunum og einnig, hvernig þau mundu henta íslenzkum þörfum og staðháttum. Í því sambandi ákvað stjórnin, eftir nokkrar bollaleggingar um það, að senda menn vestur um haf til slíkrar rannsóknar, að hún skyldi senda ákveðnum mönnum, sem lengi hafa haft skipstjórn á hendi í Ameríku, — skipin hafa verið gerð út frá Boston, — fyrirspurnir til að afla nýrra upplýsinga um margt það, sem talið var mestu máli skipta um stærð og gæði og allan útbúnað slíkra togara. En áður en svör bærust við þessum fyrirspurnum, ákvað ríkisstj. að senda vestur um haf til að flýta fyrir málinu þrjá þar til hæfa menn, sem tækju að sér fullkomna rannsókn á þessu okkar mikla hagsmunamáli, og ekki sízt vegna þess, að þá horfði fremur þunglega um undirtektir Breta. Til þessarar farar völdust tveir mætir togaraskipstjórar, Aðalsteinn Pálsson og Hafsteinn Bergþórsson, og ásamt þeim sjóliðsforinginn Pétur Sigurðsson. Þessir menn fengu aðgang að þeim upplýsingum, sem þörf var talin fyrir. Og áður en þeir kæmu heim, bárust Nýbyggingarráði fyrir milligöngu sendiráðsins í Washington þær upplýsingar sem Nýbyggingarráð hafði óskað eftir, frá þessum ágætu, íslenzku ónafngreindu mönnum, sem lengi höfðu haft skipstjórn á hendi. Þegar þær upplýsingar höfðu borizt, þóttu þegar líkur til, að nokkur ljóður væri á því ráði að hefja byggingar vestra. Og eftir að sendinefndin, sem ég gat um, kom heim, staðfestist þessi grunur Nýbyggingarráðs og stj. Þótti því réttara að leita fremur úrræða annars staðar, ef þess væri kostur, en loka þó ekki dyrunum vestra í því efni. Þetta er jafnt vegna þess, að bygging er dýrari í Bandaríkjunum en í Evrópulöndunum, og eins af hinu, að okkur þótti nokkur vafi um, að sama væri öryggi um ágæti skipanna í Bandaríkjunum eins og ef byggð væru meðal þeirra, sem hafa meiri reynslu um byggingu skipa fyrir íslenzka staðháttu.

Jafnframt þessu var málið sótt við Breta. Fyrst á þann hátt, að sendiherra Íslands í London var falið að taka upp málið, í byrjun nóv. s. l. að ég hygg, eða skömmu eftir að stj. tók við völdum, Í öndverðu var þunglega tekið á málinu í Bretlandi. Síðan fór nefnd manna til verzlunar- og viðskiptasamninga við Breta, og var henni falið að sækja þetta mál. Málalyktir urðu að því sinni ekki jákvæðar, en málinu þokaði það í áttina, að Bretar viðurkenndu þörf okkar á vissum siðferðislegum rétti til að fá breytt okkar innstæðum í hagnýt tæki, og lofuðu að athuga málið, svo framarlega sem auðið væri. Var þá aðeins tiltekið, að líkur gætu orðið fyrir svörum af hendi Breta, að mig minnir um miðjan apríl s. l., sem þó ekki varð. Sókn málsins hélt svo stöðugt áfram af okkar hendi og er svo langt komið um eða eftir miðjan júní, að Bretar hafa sagt sendiherra okkar í London — þó ekki opinberlega —, að við mundum fá þá þegar leyfi fyrir 6 togurum, og bráðlega yrðu leyfin hækkuð. Þannig stóðu sakir allt fram í júlímánað, að sendiherra okkar í London kom hingað heim. Og skömmu eftir það barst okkur skeyti frá sendiráðinu í London um, að nú væri búið að gefa út þessi ákveðnu sex leyfi og vilyrði væri jafnframt gefið fyrir fleirum. Þetta var byrjunin, að vísu ákaflega mikilsverð, en þó hvergi nærri fullnægjandi. Ég finn ástæðu til að segja frá því, að innan ríkisstj. gætti nokkurs uggs um það, að Bretar mundu verða þyngri á bárunni í þessu efni og ætluðu að hafa nokkurn hemil á því, hve ört Íslendingar gætu með kaupum eytt þeim innstæðum, sem þeim hafa safnazt á ófriðarárunum. En þessi byrjun gaf nokkra von um, að þessu yrði ekki fylgt svo fast eftir eins og einstakir menn höfðu óttazt. Þegar hér var komið, var ríkisstj. að athuga, hvaða tökum ætti að taka þetta mál, hvort heppilegra þætti að úthluta þá þegar þessum sex leyfum til þeirra, sem réttast þætti að veita þau, og láta svo þá einstaklinga eða félög, sem leyfin fengju, semja sjálfa um byggingu og allt í því sambandi, eða hvort nauður þætti reka til þess, að ríkisstj. eða einhver nefnd hefði um þetta frumkvæði og framkvæmdir. Það var þá sýnt, að miklum vandkvæðum var bundið að úthluta svo fáum byggingarleyfum, þannig að hægt væri að segja, að ekki væri gagnrýnanlegt, hverjir hefðu hlotið og hverjir farið á mis. En meðan stj. var að velta þessu fyrir sér, var Nýbyggingarráð einnig fyrir sitt leyti að athuga í samráði við stj., hvað heppilegast væri. En Nýbyggingarráð tók þá upp hjá sjálfu sér að senda þá þegar þrjá menn utan til þess að fá sem allra fyrst skorið úr því, hvað það væri, sem Bretar ætluðu að láta í té í þessu efni, og hvort ekki væri einnig kostur á að fá skip byggð. í öðrum Evrópulöndum, og þá fyrst og fremst Norðurlöndum, með svipuðum kjörum og viðlíka örugg og ætlað var, að hægt væri að fá skipin frá Englandi.

Ég hygg, að það hafi svo verið í júlímánuði, sem Nýbyggingarráð sendi nefnd manna, Helga Guðmundsson, Gunnar Guðmundsson og Odd Helgason, til að hefja rannsókn þessa máls í nokkrum löndum. Þeir fóru fyrst til Svíþjóðar og fengu sæmilegar undirtektir í skjóli þess samnings, sem Íslendingar höfðu á öndverðu þessu ári gert við Svía og opnuðu möguleika fyrir skipabyggingar fyrir íslenzkan reikning. Ég hirði ekki að rekja gang þessa máls í Svíþjóð, en læt nægja að segja, að þær vonir, sem höfðu vaknað um það, að Íslendingum yrði gerður þess kostur að byggja bæði sæmilega mörg og góð skip í Svíþjóð með mjög hóflegu verði, þær fölnuðu, þegar á hólminn kom. Og ég álít fyrir mitt leyti, að við höfum ástæðu til að láta í ljós rökstudd vonbrigði út af þeim málum.

Þessir menn héldu svo til Danmerkur. Einnig þar var tekið sæmilega á málinu í fyrstu, en þegar á hólminn kom, gat ekkert orðið úr. Þeir fóru þá til Englands, en þangað var förinni stefnt fyrst og fremst. Tóku þeir upp hjá sjálfum sér að mælast til þess við brezk yfirvöld, að við í viðbót við þau sex byggingarleyfi, sem við höfðum þegar fengið, fengjum 24 leyfi, svo að alls yrði Íslendingum þannig leyft að byggja 30 togara, sem yrðu afhentir íslendingum á árinu 1946 og fyrir mitt ár 1947. Þessa málaleitun studdi svo sendiráð Íslands í London, samkv. fyrirmælum frá ríkisstj. Menn þessir unnu svo að því að fá fimm helztu togaraskipastöðvarnar í Bretlandi til þess að gera Íslendingum tilboð um slíkar byggingar, að því tilskildu, að brezk stjórnarvöld heimiluðu. Og þessu máli var það langt komið 19. ágúst s.l., að þessir umboðsmenn Nýbyggingarráðs gátu símað því, að þeim hefði tekizt að fá þessar skipasmíðastöðvar til að ljá samþykki um efnisöflun og annað, sem hentugt þótti að hafa samstarf um, og einnig að gera íslenzku nefndinni fast tilboð um byggingu 30 skipa til afhendingar á þeim tíma, sem ég áður gat um, gegn því, að íslenzkur samningsaðili yrði einn og ekki fleiri, og gegn því, að svarað yrði tafarlaust. Þannig stóðu þá sakir í Bretlandi, að Frakkar, sem höfðu á stríðsárunum misst — ef ég man rétt — 500 af þeim 550 fiskiskipum, sem voru stærri en 100 smál., höfðu fengið leyfi til að byggja eina 15 togara í Bretlandi. Færeyingar, sem höfðu misst nær alla sína togara, höfðu fengið leyfi til að byggja tvo togara, og Belgir til að byggja fjóra. En einnig þeir höfðu misst nær öll sín skip á stríðsárunum. Portúgalsmenn voru þá að leita hófanna um leyfi til að byggja þrjá togara, en voru ekki búnir að fá það. Mjög var þannig sótt fást að úr öllum áttum um heimild til slíkra bygginga. Fyrir það voru viss brezk ráðuneyti treg til að ljá máls á slíkum réttindum Íslendingum til handa, að brezkir útgerðarmenn voru ekki reiðubúnir að ákveða sig um byggingu sinna eigin skipa. En þeir höfðu misst á stríðsárunum 465 skip af sínum togaraflota. Og mörg önnur skip voru svo illa farin, að ætla mátti, að ýmist tæki langan tíma að gera við þau eða þau mundu heltast alveg úr lestinni. En fjárhagur Breta var hins vegar ekki glæsilegri en svo, að þeir hikuðu við að binda sig við byggingar fyrir sig í bili, enda var floti þeirra fyrir stríð fullstór miðað við þarfir þjóðarinnar fyrir fiskveiðar. En það kom greinilega í ljós, að það ráðuneyt:, sem átti sérstaklega að bera hag útgerðarmanna fyrir brjósti, hafði vissa tilhneigingu til að taka treglega á óskum Íslendinga. Samt fór það svo, eins og ég tók fram, að Íslendingum tókst að gera bráðabirgðasamning við fimm aðrar togarabyggingarstöðvar, gegn því, að einn aðili — og aðeins einn — kæmi fram fyrir Íslands hönd, og einnig, að ekki yrðu byggðar nema tvær stærðir af togurum fyrir íslenzkan reikning. Það liggur í augum uppi, að miklu er fyrirhafnarminna, ef frábrigði í öllum stærðum á skipunum er sem minnst. Og þegar vitað var, að brezk stjórnarvöld vildu leyfa byggingarnar, hófst íslenzka ríkisstj. handa og kvaddi á sinn fund nokkra menn, sem þóttu sérstaklega líklegir til að geta ráðið heilt um, hvaða stærðir ættu að vera á þessum skipum, bæði skrokkur og vél og svo útbúnaður að öðru leyti. Allir þessir menn voru valdir úr hópi þeirra, sem umsóknir liggja frá um að eignast slík skip. 5–6 menn voru sérstaklega nefndir til þessa og beðnir um að bera sig saman við aðra aðila, sem taldir voru að hafa áhuga fyrir málinu og þekkingu á því. Þeir voru áhugamenn og unnu kauplaust. Þeir boðuðu svo saman alla útgerðarmenn í Reykjavík og Hafnarfirði og annars staðar, sem til náðist, skipstjóra marga og forráðamenn félaga. Rannsókninni var hagað þannig, að fram komu sjónarmið sem allra flestra þeirra, sem áhuga höfðu. Og að loknum nokkrum fundahöldum, sem stóðu yfir viku eða tíu daga, lagði nefndin einhuga til, að valdar væru eingöngu stærstu stærðir, sem um væri að ræða, en það voru 150 fet og 170 fet, sem Íslendingar gátu valið um. Lögðu þeir einróma til, að tekin yrðu eingöngu 170 feta skip, og, ef kostur væri, 175 feta. Ennfremur töldu þeir nauðsynlegt að auka afl vélarinnar. Loks gerðu þeir þá þegar bendingar um ýmsar breytingar, sem hentugt þætti að fá gerðar, sérstaklega miðað við íslenzka staðháttu, þannig að það fengjust sem bezt skip og sem mest til frambúðar.

Eftir að ríkisstj. hafði fengið þessar upplýsingar, tók hún þá ákvörðun að verða sá aðili, sem mætti fyrir hönd íslenzku þjóðarinnar til kaupanna, enda um engan annan aðila að ræða. Ef ríkisstj. hefði látið undir höfuð leggjast að gera sína skyldu í þessu efni, þykist ég mega fullyrða, að þessi gæs hefði flogið fram hjá Íslandi og við þá ekki átt þess neinn kost að fá skip byggð í Bretlandi í a. m. k. eitt eða tvö ár eða lengur. Stjórnin ákvað þess vegna að gerast aðili og afla heimildar með bráðabirgðal., sem hér er um að ræða, og einnig heimildar til lántöku í þessu skyni. Ákvað stj. einnig að fara að ráðum þeirra mörgu kunnáttumanna, er þeir töldu hagnýtast um byggingu skipanna. Ríkisstj. gaf þess vegna umboð til þess að gera bráðabirgðasamning og bað um 170 feta skip, en óskaði eftir, ef kostur væri, að þau gætu orðið 175 fet, þó með því skilyrði, að þeir sérstöku kunnáttumenn, sem sendir yrðu utan til að gera endanlegan samning, teldu þetta að rannsökuðu máli ekki kostnaðarauka úr hófi. Ég hef nú fengið nokkra vitneskju um þetta frá þessum kunnáttumönnum, en sé ekki ástæðu til að ræða um það hér.

Gert var svo ráð fyrir að senda á ný kunnáttumenn, sem ákvæðu endanlega um stærð skipanna, vélar og allt fyrirkomulag. Voru þeir sendir snemma í september. Það voru þeir Helgi Guðmundsson bankastjóri, Gísli Jónsson alþingismaður, sem ég tel — að öllum öðrum ólöstuðum, skynbærasta manninn á þessa hluti, — og þriðji maðurinn var Aðalsteinn Pálsson skipstjóri, sá er áður fór til Ameríku. Þessir menn sátu við samningaborðið í hálfan mánuð eða meira. um einstök atriði, og er því máli svo langt komið, að búizt er við, að binda megi endi á það um miðjan þennan mánuð. Breytingar þær, sem Íslendingar fóru fram á, hníga allar að því að gera skipin sterkari og stærri og vistlegri, — en þá um leið dýrari. Um margar hverjar þessarar breytinga þurfa skipasmíðastöðvarnar að leita sér tilboða frá öðrum aðilum, og þau geta ekki legið fyrir fyrr en 9.–10. þ. m.

Ég sé ekki ástæðu til að gera grein fyrir því á Alþingi Íslendinga, hvernig þessi skip verða. En mér er ánægja að geta sagt frá því, að ef endanlegir samningar verða eins og nú horfir; þá verða þessi skip með vistlegri íbúðir fyrir alla skipsmenn en mér er kunnugt, að sé nokkurs staðar annars staðar. Og sannarlega er það ánægjuefni, fyrir Íslendinga að geta boðið sjómönnum sínum betri vinnuskilyrði og betri aðbúð og alla aðhlynningu en þeir hafa átt við að búa og nokkrir aðrir sjómenn eiga við að búa, svo að ég viti um. Það er sönnun þess, — ekki í orði, heldur á borði, — að menn kunna að meta ágæti þessara garpa. Og ég hygg, að hvað sem segja megi um dugnað Íslendinga á öllum sviðum, þá komi hann hvergi fremur fram en í sjómennsku þeirra. Og hvergi hafa þeir getið sér meiri orðstír í sambandi við sjómennsku en einmitt á togurunum.

Mér er enn fremur ánægja að skýra frá, að ég hef fengið talsverða vitneskju úr ýmsum áttum þess efnis, að hróður Íslendinga hefur mjög vaxið þar, sem minnzt hefur verið á okkur í Bretlandi í sambandi við skipakaup þessi. Það þykir mjög myndarlega af sér vikið, að svo lítil þjóð skuli þora að hefjast handa um byggingu svo margra togara með einum samningi, og það svo fullkomin skip, að Bretar eiga ekki eitt einasta skip, sem jafngildir þeim. Þetta þykir horft vel fram í tímann og djarflega að verið. Og mér er sagt, að sjómenn og útgerðarmenn og flestir aðilar ytra, sem um okkur hafa heyrt, dáist að þessu framtaki.

Eins og ég sagði áðan, geri ég mér von um, að hægt verði að binda endi á samningana í þessum mánuði. Og sérstaklega vil ég taka fram, að strax og því er lokið, er það ætlun ríkisstj. að selja togarana þeim, sem óska að kaupa og geta sett tryggingu, þannig að ríkið hafi ekki af þessu neina áhættu. Eftir þeim umsóknum, sem nú liggja fyrir hjá Nýbyggingarráði, finnst mér líklegt, að þetta megi takast. En auk þess var það, að bæjarstj. Reykjavíkur hafði mælzt til þess, að 20 togarar af þessum 30 yrðu afhentir til Reykjavíkur, og ég hafði skilið bæjarstj. þannig að ef einstaklingar í Reykjavík gerðust ekki eigendur allra skipanna af sjálfsdáðum, þá væri bæjarstj. reiðubúin til þess að festa kaup á því, sem þar kynni á að vanta, að svo miklu leyti sem stjórnarvöldin treystu sér til þess að gefa Reykjavík heimild til þess að kaupa svo marga af þessum togurum. En mér sýnist allt benda til þess, að stj. hafi ekki með þessu lagt neina hættu á ríkissjóð. Hitt er svo eins og ég hef sagt, ef stj. hefði ekki þorað að afla sér þessara heimilda, sem téð l. greina frá, þá hygg ég, að þetta tækifæri hefði gengið okkur úr greipum. Ég get aðeins sagt frá því, að stj. hefði haft vissa löngun til þess að hafa dieselvélar í þessum skipum, en sérfræðingar réðu frá því. Hins vegar geri ég ráð fyrir því, að hnigið verði að því ráði að hafa olíukyndingu, þó að hún verði að vísu nokkuð dýr. Það þykir að ýmsu leyti henta betur með hliðsjón af því, að margt bendir til þess, að í framtíðinni verði frekar hætta á verðhækkun á kolum en á olíu. En þrátt fyrir þetta þorðum við ekki að hníga að því ráði að hafa dieselvélar í skipunum, þar sem þeir, sem bezt þekkja til, telja, að ekki sé komin nægileg reynsla á ágæti slíkra véla í sambandi við reksturinn. En ég tel ekki ástæðu til að tala um það frekar hér á hæstv. Alþ., því að um það eru auðvitað þeir menn dómbærastir, sem hafa kynnt sér þessi mál til hlítar.

Ég leyfi mér svo að vona, að þetta mál fái góðar undirtektir hér á hæstv. Alþ. Ég veit, að frv. verður samþ., en leyfi mér að vona, að það verði vel metið við stj., að hún gerði skyldu sína í þessum efnum, og er það í fullu samræmi við þá stefnu, sem stjórnarfl. ákváðu, þegar þeir bundust samtökum um stjórnarmyndun. Ég fullyrði, að það hefði verið mjög mikil hætta á því, ef stjórnin hefði látið undir höfuð leggjast að gera þessa skyldu sína, að við værum þá enn í óvissu, ekki aðeins um skipakaupin, heldur væru þá litlar líkur til, að Íslendingar gætu fengið að byggja togara í Bretlandi næstu árin. En það er skoðun okkar, sem að stjórnarsamstarfinu stöndum, að það sé á alla lund verjandi að taka á sig einhverja áhættu í því skyni að breyta þessum peningainnistæðum Íslendinga í arðbær framleiðslutæki til þess að auka öryggi þjóðarinnar og styrkja atvinnumöguleika almennings, það sé verjandi að hætta þessu fé til þess. En auk þess sé ég ekki, að fyrir liggi neitt í dag um það, að nokkur óeðlileg áhætta hafi verið tekin á sig í þessu skyni, því að það er sýnt og hægt að staðhæfa það í dag, að líkur benda til þess, að hægt verði að kaupa þessi skip mun ódýrara verði en þessi samningur greinir. Ég vil svo, að menn hafi það hugfast, að þegar talað er um ákveðna stærð skipanna og ákveðið verð í samningnum, þá er auðvitað eftir að telja með ýmiss konar fullkomin tæki, sem vantar í skipin, en menn eru sjálfráðir um, hvort þeir láta setja í þau. Ég hygg, að það sé góður búskapur fyrir Íslendinga að verja fé sínu í að kaupa fullkomin skip, sem eru ódýr í rekstri og eru til langframa og ekki hægt að segja um, að tjaldað sé til skamms tíma. Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að frv. verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr, og fjhn.