31.10.1945
Neðri deild: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (199)

6. mál, togarakaup ríkisins

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson) :

Hæstv. forsrh. kvaðst ekki vera mér sammála um, að ástæða hafi verið til að ganga frá samningum við væntanlega kaupendur skipanna, áður en samningar hefðu verið gerðir um smíði þeirru. Ég tel einmitt, að hæstv. ríkisstj. hafi haft ríka ástæðu til þess að kynna sér nánar, að hve mörgum skipum kaupendur fengjust hér, áður en lauk þessari samningagerð. Það virðist svo, sem sum stærstu togarafyrirtækin, sem verið hafa undanfarið, hafi fremur lítinn áhuga fyrir togarakaupum nú. Hér í Reykjavík eru 2 hlutafélög heimilisföst, sem hafa verið stærstu útgerðarfyrirtæki á þessu sviði að undanförnu. Þessi 2 togarafélög hafa átt undanfarin ár 11 eða 12 botnvörpunga, að minnsta kosti, fyrir stríð og framan af stríðsárunum, og það er ¼ og upp að 1/3 af öllum togaraflota landsmanna. Þessi 2 stóru fyrirtæki hafa að vísu sent umsóknir um skip, en aðeins 1 togara hvort samkv. umsóknarlista Nýbyggingarráðs, og þó eru þessar umsóknir ekki bindandi um að kaupa þau skip, sem hæstv. ríkisstj. hefur ákveðið að láta smíða. Einmitt þetta, að ekki hefur komið fram enn meiri áhugi en þetta hjá þeim fyrirtækjum, sem lengst hafa við þennan atvinnuveg fengizt og það í stórum stíl á okkar mælikvarða, það hefði átt að verða hæstv. ríkisstj. hvöt til þess að athuga þetta nánar, áður en hún gekk frá samningum. Það má benda á það til viðbótar, að þessi 2 fyrirtæki hafa nú á stríðsárunum misst og selt nokkur af skipum sínum, líklega helming, og var því enn meiri ástæða til að ætla, að þau hefðu áhuga á að ná í skip í staðinn.

Hæstv. forsrh. svaraði fyrirspurn minni þannig, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki haft samráð við bæjarstj. Reykjavíkur um þessa samningagerð. Að því leyti svaraði hann fyrirspurninni neitandi, en þó gaf hæstv. forsrh. það í skyn, að bæjarstjórn Reykjavíkur mundi telja eðlilegar þær breytingar, sem gerðar hafa verið á bráðabirgðasamningum, sem gerðir voru nú í sumar, og lét í það skína, að bæjarstj. mundi telja þessi skip þannig, að hún mundi vilja stuðla að því, að þau kæmu sem flest til bæjarins, en óskaði eftir að fá nánari skýringar á atriðum málsins. Mér finnst þetta geta skipt miklu máli, því að þar getur verið um stór kaup að ræða. Þetta liggur fyrir eins og ég gat um áður. Bæjarstj. Reykjavíkur hefur gert kröfu til hæstv. ríkisstj. um að fá a. m. k. 2 af hverjum 3 skipum, sem keypt yrðu, til Reykjavíkur, og ef einstakir útgerðarmenn í bænum vildu ekki kaupa þennan skipafjölda, þá vildi bæjarstj. sjálf kaupa það, sem til vantaði.

Ef maður athugar þennan umsóknarlista Nýbyggingarráðs, þá kemur í ljós, að útgerðarfyrirtækin í Reykjavík hafa ekki óskað eftir að fá nema 8 eða 9 skip, og þó að þau vildu kaupa þau skip með þeim kjörum, sem hér eru í boði, þá mundi samt koma í hlut bæjarstj. Reykjavíkur 10 togarar; ef hún héldi fast við kröfuna um að fá 2 af hverjum 3 skipum til bæjarins og óskar að fá þessi skip, sem hæstv. ríkisstj. hefur samið um smíði á. Hér tel ég, að sé um stórt atriði að ræða, sem æskilegt sé að fá upplýst, þar sem þetta gildir allmikinn hluta af þeim samningum, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert. Ef hæstv. forsrh. getur ekki upplýst um vilja bæjarstj. í þessu efni, þá er ekki ólíklegt, að aðrir, sem hér eiga sæti í þessari hv. deild, geti gefið upplýsingar um þetta, því að hér munu vera einhverjir af bæjarfulltrúum úr Reykjavík. Ég vil sem sagt óska eftir upplýsingum um það, hvort bæjarstj. Reykjavíkur gerir kröfu til þess, eins og fram kom bréflega til ráðuneytisins í sumar, að fá til bæjarins 2 af hverjum 3 togurum af þeim skipum, sem hæstv. ríkisstj. hefur samið um kaup á. og hvort hún mundi sjálf kaupa þau skip, sem einstaklingar vilja ekki kaupa, ef hæstv. ríkisstj. tekur til greina kröfu bæjarstj. um úthlutun skipanna. Ég ætla ekki að fara út í að ræða það atriði, hvað Reykjavík ætti að fá mörg af þessum skipum. En ég óska eftir að fá upplýst af hæstv. ráðh. eða öðrum, hvort bæ.jarstj. heldur við samþykkt sína að því er snertir þessi skip.

Hæstv. forsrh. gaf þær upplýsingar nú, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki þurft að greiða nema 10. hluta kostnaðarverðsins við undirskrift samninganna. Hins vegar sagði hann fjhn., að greiða ætti 20%, og hefði hann þá átt að vita það rétta í málinu, vegna þess að hæstv. ráðh. sagði, að búið væri að ganga frá samningum. Það lítur út fyrir, að annaðhvort hafi fjhn. ekki verið sagt frá þessu atriði eða hæstv. stj. hafi fengið breytingu á samningunum síðar, og ef til vill hefur hún þá fengið breytingar á þeim að öðru leyti en þessu, og væri gott að fá upplýsingar um það.

Hæstv. ráðh. segir, að till. mínar hér séu ekki fullnægjandi til þess að færa áhættuna af ríkissjóði. Ég get ekki betur séð en að svo sé, þar sem í till. mínum er gert ráð fyrir, að væntanlegir kaupendur setji fullnægjandi tryggingu fyrir kostnaðarverði skipanna. Það er að vísu rétt, að till. mín nær ekki til þess að fjarlægja áhættuna frá ríkissjóði, ef svo fer, að hv. ríkisstj. getur ekki selt nema nokkurn hluta af þessum keyptu skipum.

Þá lýsti hæstv. ráðh. yfir því, að hann gerði fastlega ráð fyrir því, að 25 millj. kr. lánsheimild væri alveg nóg handa ríkisstj., og það styður auðvitað þá skoðun, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki þurft að borga nema 10. hluta kostnaðarverðsins, þegar gengið var frá samningum, og ekki þurfti að taka lán til að inna þessa greiðslu af höndum. Mér finnst því allt mæla með því, að 25 millj. kr. séu alveg nóg, og fram yfir það, og það hefur verið venja hér á Alþingi að veita ekki lántökuheimildir út í bláinn eða umfram það, sem ástæða er til.