04.03.1946
Efri deild: 76. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í B-deild Alþingistíðinda. (1994)

28. mál, skólakerfi og fræðsluskylda

Frsm. meiri hl. (Kristinn Andrésson):

Herra forseti. Ég var að bíða eftir því, að fleiri tækju til máls. Viðvíkjandi þeim aths., sem komu frá hv. þm. S.-Þ. og hv. þm. Barð., sem óska eftir því, að málinu verði vísað aftur til n., áður en það verður afgr. við 2. umr., þá tel ég óþarft, með tilliti til brtt., sem þegar hafa komið fram við frv.

Ég held hv. þm. Barð. hafi ekki verið viðstaddur, þegar 2. umr. fór fram hér fyrst, ég tel það ósennilegt að minnsta kosti, eftir því, sem hann talaði nú. Hv. þm. sagði, að málið hefði verið ólöglega afgr. frá n., og vitnaði í nál. En hér fór fram umr., sem sýndi það, að málið var afgr. löglega frá n. Fjórir nm. skrifuðu undir, en tveir tóku sér rétt til að koma fram með brtt., og er það ekkert óvenjulegt. Það hefur aðeins komið fram brtt. frá öðrum, hv. 3. landsk., og er hún aðeins um gildistöku l. og ekkert annað. Ég hef að vísu ekki getað haldið fund í n. vegna veikinda síðan umr. fór fram, en eftir viðtali við nm., þá sjá þeir ekki ástæðu til að halda nýjan fund til að athuga till. hv. þm. S.-Þ. Þær hafa lengi legið fyrir n. og eru þess eðlis, að þær raska ekki aðeins öllum grundvelli þessa frv., heldur og grundvelli sjálfra fræðslul., sem nú eru í gildi. Og þessar till. eru ekkert annað en skemmdarstarfsemi við þessi frv., sem hér eru á ferðinni. Þær eru ekki hugsaðar til þess að koma á einhverjum skynsamlegum breyt. við frv., heldur til þess að gera það sem vitlausast útlits. Þessar brtt. eru ekki fluttar af neinni alvöru. Það er auðséð. Það er því alveg óþarft að halda nýjan fund í n. þess vegna. Hins vegar skal ég taka það fram við hv. þm. Barð., að n. hefur athugað frv. rækilega og haldið 7 fundi um málið, þar sem öllum nm. gafst kostur á að vera viðstaddir, og auk þess með mþn., fræðslumálastjóra o. fl. Það er því ástæðulaust að fara að fresta umr. vegna þess, að n. þurfi að athuga frv. frekar. Ég get tekið undir með hæstv. menntmrh., að ég tel, að þótt hv. þm. Barð. ætli að koma fram með brtt., þá geti n. tekið þær til athugunar milli umr. Þar sem málið hefur dregizt svo lengi, tel ég æskilegast, að umr. haldi áfram án frekari tafar.

Það er nú orðið alllangt liðið frá því er umr. var frestað og hv. þm. S.-Þ. hélt sína löngu ræðu. Kenndi hjá honum margra grasa, og riðu rangfærslurnar hver ofan á annarri. Allt þetta virðist benda til þess, að hv. þm. hafi ekki einu sinni lesið frv. Hann hóf ræðu sína með löngum inngangi og þankabrotum um störf mþn. og skipun hennar. Hann taldi, að skipun hennar hefði verið í anda kommúnista og að fyrrv. menntmrh., Einar Arnórsson, hefði verið fulltrúi kommúnista. Og margt fleira, hvað öðru líkt, sagði þessi hv. þm., sem mönnum gengur yfirleitt erfitt að skilja. Það er staðreynd, að mþn. var skipuð sérfróðum mönnum í skólamálum, mönnum af öllum flokkum. Mér er ekki kunnugt um, að sósíalistar hafi átt þar nema einn fulltrúa. Hann hefur þá orðið að vera sæmilega duglegur, ef nefndarstarfið allt á að bera keim af anda kommúnista. Það sést líka, ef frv. er skoðað niður í kjölinn, að það felur ekki í sér neina stórvægilega byltingu í fræðslumálum þjóðarinnar. Ég gat þess í framsöguræðu, að í raun og veru væri frv. aðeins staðfesting á þeirri þróun, sem hér hefur átt sér stað í skólamálum landsins. Frv. felur í sér tvö meginatriði: 1) Skólaskyldualdur er lengdur um eitt ár. 2) Skólakerfi landsins verður samræmt. Verður það til mikilla hagsbóta fyrir nemendur. Próf við lægri skóla nú veita ekki nein réttindi til inngöngu í æðri skóla. En hugmyndin er einmitt sú, að prófin við lægri skóla veiti rétt til náms í framhaldsskólum. — Ein af firrum hv. þm. S.-Þ. var sú, að störf mþn. hefðu farið fram í laumi, og hann taldi, að allsherjarþögn hefði ríkt um till. n. Þær hefðu hvergi verið ræddar, ekki í blöðum, stjórnmálafélögum né af öðrum aðilum, — aðeins af þessari n. Þetta er fjarstæða. N. hóf starf með því að leita álits skólanefnda og kennara alls staðar á landinu. Málið hefur verið rætt í félögum, á kennaraþingum og þingum fjórðungssambandanna. Skólastjórar héraðsskólanna hafa haldið fundi og rætt till. Einnig hefur málið verið rætt í stjórnmálafélögum, og m. a. í Félagi ungra framsóknarmanna, og hélt ég, að hv. þm. ætti ekki að vera það ókunnugt. Einnig hafa félög sjálfstæðismanna tekið málið á dagskrá. Hér hef ég meðferðis úrklippur úr blöðum, þar sem samþykktir um málið hafa birzt. Ekki hirði ég um að lesa þær allar upp, t. d. yfirlýsingu frá Kennarasambandi Austurlands. En hér eru ályktanir frá þingi S.U.F. Ein ályktun þessa þings er varðandi frv. þetta og er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „3. þing S.U.F. telur brýna nauðsyn bera til þess, að ríkið styrki sem bezt heimavistar- eða heimangöngubarnaskóla í sveitum, þar sem það telur, að farskólafyrirkomulagið sé úrelt og ekki lengur viðunandi, og leggur áherzlu á, að slíkar stofnanir verði um leið menningarleg félagsheimili sveitanna.“ — Hér kveður við allt annan tón en hjá hv. þm. S.-Þ. — Á landsfundi sjálfstæðismanna s. l. sumar voru skólamálin einnig tekin til umræðu. Þar var samþ. svo hljóðandi ályktun (með leyfi hæstv. forseta) : „Flokkurinn vill vinna að því, að allir æskumenn fái notið framhaldsnáms að loknu barnaskólanámi, og leggur til, að skólakerfi landsins sé samræmt sem bezt í þessum tilgangi. .... Flokkurinn telur nauðsynlegt að tryggja það sem bezt, að barnakennslan verði framvegis fullkomnari og meir í samræmi við þarfir fólksins í hinu almenna starfslífi en verið hefur.“

Allt er þetta í samræmi við frv. þessi. Það er því síður en svo, að mál þetta hafi ekki verið rætt, jafnvel í stjórnmálafélögum.

Þó, er enn eitt atriði, sem hv. þm. S.-Þ. vildi gera mikið úr. Það voru hin auknu útgjöld, er yrðu af framfærslukostnaði og styrk til fátækra barna til að njóta kennslu. Hv. þm. rangfærði mjög 9. gr. frv., en hún er svo hljóðandi: „Nú getur nemandi ekki stundað skyldunám sökum fjárskorts, og skal þá veita styrk til þess af almannafé.“ Eins og allir sjá, nær þetta ekki nema til skyldunáms barna og þá ekki nema til ákveðins aldurs þeirra. Þetta er engin breyting frá þeim fræðslulögum, sem nú gilda, nema hvað viðkemur skólaskyldulengingunni. Í skýringum n. við þetta ákvæði segir í grg.: „Ákvæði um styrk af almannafé til náms barna og unglinga á fræðsluskyldualdri, er forráðamenn geta ekki kostað þau, er í raun og veru sjálfsagt, því að hér á ekki eingöngu að vera um skyldu að ræða, heldur einnig réttindi.

Í núgildandi lögum um fræðslu barna er þetta ákvæði í 9. gr.: „Geti framfærandi barns á lögskipuðum skólaaldri ekki staðizt kostnað þann, er leiðir af lögboðinni skólavist þess, skal sá kostnaður að einhverju eða öllu leyti eftir ákvörðun hreppsnefndar (fátækrastjórnar) greiðast úr fræðslusjóði (bæjarsjóði) sem gjöld til skólahalds.“ Þetta ákvæði þarf að rýmka þannig, að skylt sé sveitarstjórn að veita þennan styrk samkv. till. barnaverndarnefndar eða skólanefndar (sbr. lög um barnavernd, nr. 43 23. júní 1932, og breyt. á þeim lögum, nr. 76 1933), og ekki aðeins þá, er börn eiga í hlut, heldur einnig unglingar á fræðsluskyldualdri, og skuli m. a. mega verja honum til að standast kostnað við skyldunám þeirra.“

Þetta er því engin nýjung í íslenzkri skólalöggjöf. Eins og n. bendir á, eru Englendingar komnir lengra en við í þessum efnum. Þeir veita efnasnauðum nemendum styrk til framhaldsnáms og allt til loka háskólanáms.

Þá hélt hv. þm. S.-Þ. því fram, að það þyrfti sérstakt próf upp í verknámsdeildina. Þetta er algerlega gripið úr lausu lofti. (JJ: Hvernig fer það fram án prófs?) Börnin velja sjálf á milli. (JJ: Það verður eitthvað skrýtið. Nú er ekkert smíðaverkstæði til á landinu). — Þá minntist þessi sami þm. á framandi skólafyrirkomulag. N. kynnti sér allrækilega skólafyrirkomulag á Norðurlöndum og í Englandi, en mest tillit var tekið til þeirrar þróunar, sem hér hefur orðið í skólamálum okkar. Þessi frv. eru lítið annað en staðfesting á þeirri þróun, sem hér hefur verið, og gert er ráð fyrir líkri framhaldsþróun í sömu átt. Að sumu leyti er gengið styttra í frv. þessu en í nágrannalöndum okkar. Í Englandi er skólaskylda til 16 ára aldurs samkv. lögum, en hefur víst ekki komið til fullra framkvæmda enn. Á Norðurlöndum miðast skólaskylda við 15–16 ára aldur. En það, sem virðist fara einna mest í taugarnar á hv. þm. S.-Þ., eru till. um stofnun heimavistarskóla í sveitum. Í ræðu og riti hefur þessi hv. þm. talað um voða, sem mundi leiða af stofnun heimavistarskólanna. Það eigi að leggja niður farkennsluna, ræna börnunum af heimilunum og þvinga þau til að fara í heimavistarskóla. Nú býst ég við, að hv. þm. og aðrir viti ósköp vel, að allir, sem við skólamál fást, hika ekki við að fullyrða, að farkennslufyrirkomulagið sé orðið úrelt og óviðunandi. Það þarf ekki annað en fylgjast með því, sem gerzt hefur undanfarið. Gott er að athuga plögg varðandi frv. frá 1934, en þar er bent á, að nauðsyn beri til að stofna heimavistarskóla í sveitum. Grg., sem fylgdi því frv., er prentuð hér sem fskj. I. á bls. 20, og geta menn séð, hvílík áherzla hefur verið lögð á að afnema farkennsluna. Þar segir: „Víðast er ekkert húsnæði fyrir farskólana, og verður því að semja við einstök heimili þennan og þennan veturinn um að taka kennara og börn í vist um lengri eða skemmri tíma. Oft gengur þetta hörmulega illa, eins og við er að búast, þar sem engum ber skylda til að gera það. Vegna þessara örðugleika er víðast orðið mjög erfitt að fá nokkurn mann viljugan í skólanefnd.“ Síðan er bent á, hversu starfsskilyrði farkennara eru ill. Í 3. lið í sama fskj. segir. „Um 40% af þeim börnum, sem koma í farskólana 10 ára gömul, eru svo illa undirbúin, að þeim verður ekki hálft gagn af skólavistinni, og skólatíminn er svo stuttur, að engin von er til, að úr undirbúningsleysinu sé hægt að bæta. Sérstaklega gildir þetta um þá námsgrein, sem mest á ríður, en það er lesturinn.“ Og n. skýrir ástæðuna fyrir því, að svona er komið, en það er vegna þeirra breyt., sem átt hafa sér stað í sveitunum, þar sem fólkinu fer sífellt fækkandi á heimilunum. Og enn segir svo : „Á heimilunum drukku börn og unglingar í sig hina þjóðlegu menningu, kynntust sögu og bókmenntum þjóðarinnar og lærðu flest þau störf, sem atvinnulíf þjóðarinnar þá útheimti af fullorðnum mönnum að kunna. Nú eru þessi uppeldisskilyrði sveitaheimilanna að miklu leyti úr sögunni og verða það sennilega enn þá víðar á næstu árum. Það virðist því einsætt, að ef ekkert verður að gert, þá muni menning sveitanna í náinni framtíð bíða þann hnekki, sem þjóðinni allri stendur ískyggileg hætta af. En það, sem þarf að gera, er að skapa uppvaxandi kynslóð sveitanna menningarskilyrði í samræmi við kröfur og þarfir hins nýja tíma.“ Og enn síðar segir svo: „Barnafræðslan í sveitunum hefur víða staðið í stað, síðan skólaskylda var lögboðin 1907. Allir ættu að geta séð, hversu slík kyrrstaða í undirstöðuatriðum menningar sveitanna er hættuleg fyrir þjóðarheildina. Nú verður að hefjast handa og hrinda í framkvæmd svo fljótt sem auðið er hinu langmesta menningarmáli sveitanna, sem nú kallar að, byggingu heimavistarskólanna.“ Þetta segir í greinargerð við barnafræðslufrv. frá 1934. Nú gerði mþn. fyrirspurn til skólanefnda, hvað þær álitu um heimavistarskóla og farkennslu. Kom fram einróma álit þeirra, og töldu þær yfirleitt mikla nauðsyn á heimavistarskólum. Vil ég leggja áherzlu á þetta, því að gegn þessu hefur hv. þm. S.-Þ. mælt sérstaklega. Mþn. leitaði upplýsinga hjá kennurum landsins og spurði þá, hvort leggja ætti farskólahaldið niður. 69 kennarar svöruðu játandi, þar af höfðu 39 kennarapróf. 531/3 skólanefnda svaraði játandi. Nei sögðu 8 kennarar, þar af 6 réttindalausir. 3 skólanefndir voru vafasamar, en 112/3 sögðu nei. Sem dæmi um svör skólanefndanna er tekið upp svar skólanefndar Svínavatnsskólahverfis í Austur-Húnavatnssýslu. Þar segir m. a.: „Skólanefndin telur, að farskólahaldið geti ekki réttlætzt nema sem bráðabirgðafyrirkomulag og muni aldrei geta orðið annað, enda þó að við það hafi orðið að una víðast hvar um sveitir landsins allt of lengi ýmissa orsaka vegna .... Annmarkar farskólahaldsins eru ótal margir. Augljósasti annmarkinn er sá, að fyrirkomulagið er hugsunarvilla. Fræðslulögin fyrirskipa skólaskyldu barna 10–14 ára, en sjá ekki fyrir neinum skólastað. Engin lög eru fyrir því, að hægt sé að þvinga niður skólann á einn eða annan stað í skólahverfinu, ef enginn vill af frjálsum vilja halda hann. Fræðslulögin bjóða því það, sem hugsanlegt er, að ekki sé hægt að framfylgja . . . . Skólanefndin lítur svo á, að markvisst og ákveðið verði að stefna að því, að í hverju sveitaskólahverfi verði fastur heimavistarskóli, og séu börnin skólaskyld frá 7 ára aldri ....“

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. S.-Þ. fór með, þar sem hann sagði, að Bjarni Bjarnason hafi ekki fengið að segja álit sitt, þá er nú tilvitnun frá n. í grg. með frv. um fræðslu barna, þar sem haft er eftir Bjarna á Laugarvatni, að að hans áliti ætti að leggja farskólana niður. Reynslan hafi sýnt, að miklu færari unglingar komi úr heimavistarskólunum. Það má fullyrða, að með stofnun heimavistarskólanna, sem mþn. leggur til, er farið samkv. fyllstu óskum allra þeirra, er hafa reynslu af skólamálum okkar.

Rangfærslur þessar vildi ég leiðrétta hjá hv. þm. S.-Þ., þótt nokkuð langt sé liðið síðan hann hélt ræðu sína. Annars virðist hugsunarháttur hans vera hinn furðulegasti. Hann berst nú á móti frv. af alefli og flytur sjálfur brtt., sem augsýnilega eiga ekki að miða að því að laga frv., heldur eru þær endileysa ein. En sjálfur sækir hann ekki fundi menntmn. Það, sem þessi þm. virðist stefna að, er einhvers konar miðaldaskólafyrirkomulag. Hann vill ekki hugsa sér þjóðfélagið eins og það er, heldur að það sé eitthvert gamaldags bændaþjóðfélag. Hér var bændaþjóðfélag, en aðalbreytingarnar, sem nú eru á orðnar, hafa gerzt á þessari öld. Þjóðfélagið er orðið margbrotnara og útheimtir meiri þekkingu og kunnáttu af þegnum sínum. Þróunin gengur í þá átt að gera allt fjölbreyttara. Það er eins og hv. þm. sé ekki að hugsa um börnin og kröfur þeirra um fræðslu, heldur sé hann að hugsa um bændur sveitanna, sem missa vinnukraft barnanna. Því miða allar till. hans að viðhaldi baðstofulífs, þær eru allar tómt föndur, enda hefur hann ávallt á síðari árum barizt gegn bóklegu námi og viljað fá í staðinn leikfimi og eitthvert verklegt föndur. En með slíkum hugsunarhætti og er á bak við till. hans er ekki hægt að komast áfram í hinu íslenzka þjóðfélagi. Því að það er síður en svo, að hér séu á ferðum till. ákveðinnar n., sem hafi verið skipuð, því að á bak við tillögurnar eru kröfur æskunnar og þjóðfélagsins um aukna menntun. Æskan knýr á um aukna menntun til þess að geta leyst af hendi þau þjóðfélagsstörf, er bíða hennar. — Með tilliti til þessa sé ég ekki ástæðu til að taka till. hv. þm. alvarlega eða til athugunar í n., þær eru annars eðlis.

Viðvíkjandi kostnaðarhlið þessa máls, sem hv. 3. landsk. kom að, þá vil ég vísa til þess, sem ég sagði í framsöguræðu minni, en þá var hv. þm. víst ekki viðstaddur, og til grg., sem er með frv. um gagnfræðanám, og til skýrslna, sem síðar hafa komið frá fræðslumálastjóra. Þar kemur í ljós, hvert þróunin í íslenzkum skólamálum stefnir. Skólaskyldualdur lengist um eitt ár, en þó með undantekningu í sveitum. En mþn. gerði ráð fyrir, að nemendaaukning fyrir þennan árgang yrði um 3000, eftir tölum frá 1942, en nú kemur í ljós, að þessar tölur eru þegar úreltar, eftir skýrslum frá því í fyrra, svo að í stað 3000 koma 1800, og þar frá dragast 600 nemendur í sveitum, svo að ekki þarf að reikna með nema 1200 nemenda fjölgun, Og þá þarf ekki að bæta við nema 40 kennurum til að kenna þessum 1200 nemendum. Ég gerði grein fyrir því í framsöguræðu minni, hver kostnaðurinn við þetta yrði, og það var einnig gert af frsm. í Nd., og væri aukinn kostnaður til kennara 1 millj. og 200 þús. kr., og ef gert er ráð fyrir, að rekstrarkostnaður verði 600 þús., þá verður kostnaðurinn í allt 1 millj. og 800 þús., en þá er líka öll löggjöfin komin til framkvæmda, en gert er ráð fyrir, að það taki 4–6 ár. Árið 1942 hafði n. gert ráð fyrir, að kostnaður við að byggja skólahús, reiknað með að það þyrfti 100 nýjar skólastofur, yrði 15 millj. kr., en nú hefur eitthvað verið byggt, svo að kostnaðaráætlunin er orðin eitthvað lægri.

Ég sé svo ekki, að það sé hægt að gefa frekari upplýsingar um þetta en þegar hefur verið gert. En hvort sem þetta frv. verður samþ. eða ekki, þá hlýtur æskan í landinu að gera kröfur til aukinnar menntunar, jafnframt því, sem þjóðfélagið er alltaf að gera hærri kröfur til menntunar þegna sinna, og þessum kröfum verður að svara. Það hefur verið skipuð n. til að athuga þörf á mönnum í ýmsar iðnaðar- og atvinnugreinar þjóðarinnar, og mig minnir, að niðurstaðan hafi verið sú, að það þurfi strax allt að 500 sérfróða menn með stúdents- eða framhaldsmenntun til þess að svara þessum kröfum. Og þá er um tvennt að velja, annaðhvort að senda þessa menn utan til náms, og ekki verður það síður kostnaðarsamt, eða að mennta þá hér. Frv. miðar að því að gera skólakerfið hagkvæmara og sníða það eftir þörfum þjóðfélagsins. Hv. þm. S.-Þ. vill láta þetta koma til framkvæmda eftir nokkur ár og hafa þá þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, og er það eitt dæmi um alvöruleysi hans í þessu máli. En það þarf enga þjóðaratkvgr., öll þjóðin stendur á bak við þetta.

Mér finnst brtt. hv. 3. landsk. óþörf, en það skiptir litlu máli, hvort þetta kemur strax til framkvæmda eða 1. jan. 1947, og greiði ég atkv. á móti henni, því að frv. þyrfti að fara aftur til Nd., ef einhver breyt. yrði gerð. Hv. þm. var ekki við nú, þegar ég tók aftur upp úr framsöguræðu minni atriðið um kostnaðinn. En hvað það snertir að fresta framkvæmd þessa til byrjunar næsta árs, til þess að geta gert áætlun um kostnaðinn, þá er það óþarfi, því að sú áætlun, sem hægt er að gera, er þegar til staðar.