10.04.1946
Efri deild: 103. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1201 í B-deild Alþingistíðinda. (2087)

128. mál, landshöfn í Keflavíkur- og Njarðvíkurhreppum

Frsm., (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Á þessu frv. voru gerðar víðtækar breyt. í Nd., og hafa þær farið mjög á annan veg en samkomulag varð um við hlutaðeigandi aðila, er málið var til meðferðar í sjútvn. þessarar hv. d. Ég hef reyndar ekki haldið fund í n., en ég hef rætt málið svolítið við meðnm. mína, og höfum við komizt að þeirri niðurstöðu, að málið hafi spillzt í meðferð hv. Nd. Ég hef talað við hæstv. forsrh. og hæstv. atvmrh., og varð samkomulag um að láta málið ganga fram í trausti þess, að stj. haldi sig í framkvæmdum við samninga þá, sem gerðir voru áður. En meginbreyt. er sú, að ekki verði að framkvæmdum snúið, fyrr en búið sé að afla nægilegs landrýmis fyrir höfnina og það sé komið úr eigu einstaklinga. Tel ég, að ekki eigi að byrja á framkvæmdum fyrr. — Vafasamt er, að brtt. á þskj. 704 geti staðizt, og kann að vera, að hún stríði á móti ákvæðum stjskr.

Við viljum ekki tefja málið, en óskum þess, að það komist fram á þessu þingi. Leggjum við þá til, að frv. verði samþ. óbreytt við þessa umr.