29.11.1945
Efri deild: 41. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1226 í B-deild Alþingistíðinda. (2104)

21. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Ég vil aðeins segja örfá orð út af þessari fyrirspurn. Mér finnst það vera í beinu framhaldi af því, sem áður hefur verið rætt um þetta mál. Það er vel hægt að hugsa sér, að það yrði ekki eins árs veiting til hafnarmannvirkja á Húsavík, sem ríkissjóði ber að leggja fram, og það hefur reyndar tíðkazt svo áður og oft komið fyrir, að það hefur ekki verið. Þá verður gangur málsins sá, að viðkomandi staður fær samþykki ráðuneytisins á því verki, sem á að hefja, af hvaða tagi sem það er. Því fylgir þá kostnaðaráætlun, og útreikningur á ríkissjóðshlutanum er þá mjög auðveldur. Svo þegar fjárl. eru afgr. næst á eftir, þá sker þingið úr, hversu mikill hluti af ríkissjóðshlutanum er veittur í þeim fjárl. Ef hann er veittur til fulls, þá er ekkert meira um það að segja, en ef hann er ekki veittur til fulls, verður viðkomandi staður að fá bráðabirgðalán til þess að koma í staðinn fyrir það, sem ríkissjóður hefði á þeim tíma átt að leggja fram. (JJ: Hver borgar vextina?) Það hefur verið venja, að ríkissjóður taki engan þátt í vaxtakostnaði slíkra bráðabirgðalána, heldur verður viðkomandi staður að borga þá. Það hefur verið föst regla. Um ábyrgð ríkisins á hinum hlutanum er slegið föstu, að ríkisstj. skuli hafa heimild til að ábyrgjast hann, þó að ekki sé lagt fram að fullu fjárframlag á móti ríkissjóði. Ríkissjóður getur ábyrgzt að fullu þann hluta, sem hann greiðir ekki og viðkomandi staðir hafa til bráðabirgða útvegað eftir setningu þessara l., eða það, sem ríkissjóði ber að greiða, en hefur ekki verið sett í fjárlög.