04.02.1946
Neðri deild: 63. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í B-deild Alþingistíðinda. (2117)

21. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Þetta frv. er samið af mþn. í sjávarútvegsmálum, sem starfaði s. l. tvö ár í þessu máli og öðrum, og er í aðalatriðum í þá átt að sameina í einn lagabálk öll helztu hafnarlög, sem gilda fyrir kaupstaði og kauptún og ýmsa staði aðra, sem hafa þurft og munu þurfa að láta gera hafnarframkvæmdir á næstunni. Þetta er eiginlega aðaltilgangur frv., að safna þessum l. í eina heild, svo að betra yfirlit fáist, í stað þess að hingað til hafa verið sett l. um hvern einstakan stað, eftir því, sem hann hefur þurft á að halda, og síðan breytt, eftir því sem ástæður eru fyrir hendi og þörf til aukinna framkvæmda. Þetta hefur orðið allumsvifamikið, og setning þessara l. ætti að gera málið miklu einfaldara, á svipaðan hátt og nú á sér stað um vegalög og aðrar svipaðar framkvæmdir. Verulegar breyt. eru ekki gerðar í þessu frv. frá gildandi hafnari. aðrar en þær, að eins og málið hefur verið afgr. nú frá Ed., hefur flokkunum verið fækkað í tvo, en áður voru þeir þrír. Mismunandi fjárframlag úr ríkissjóði hefur verið á hvern flokk, en nú skal minnsta framlag ríkissjóðs til hafnargerðar vera 2/5 en var áður 1/3. Eru þeir staðir, sem hafa haft 1/3, sameinaðir hinum, sem hafa notið framlags að 2/5. Flokkurinn með helmings framlag er látinn óbreyttur, þó þannig, að ýmsum stöðum nýjum hefur verið bætt við. Enn fremur er það ákvæði sett, til þess að gera glögg mörk milli þessara flokka, að fari kostnaður við hafnarmannvirki fram úr 800 þús. kr. hér eftir, skuli viðkomandi staður fara milli flokka og njóta aðeins framlags að 2/5 kostnaðar úr því.

Enn fremur er það, að til kostnaðar við hafnargerð og lendingarbætur teljist ýmis fleiri mannvirki en áður, svo sem dráttarbrautir, innsiglingarmerki, sem ekki voru áður styrkhæf mannvirki talin. Að öðru leyti er í þessu frv. tekið upp megnið af þeim ákvæðum, sem eru í gildandi hafnarl., og gilda víðast lík ákvæði, þó að með nokkuð mismunandi orðum sé sagt í ýmsum hafnarl.

Þá eru loks með þessu frv. numin úr gildi allflest gildandi hafnarl., og er þessu frv. ætlað að koma í staðinn fyrir þau öll. Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en vildi leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til sjútvn. að þessari umr. lokinni, og teldi mjög æskilegt, að hægt væri að flýta afgreiðslu þess, vegna þess að ýmsir staðir, sem hlut eiga að máli, hafa gert ráðstafanir í samræmi við væntanlega samþykkt þessara l., enda mun ekki vera um þetta verulegur ágreiningur, nema þá um smávægileg atriði. Leyfi ég mér að leggja til, að frv. verði vísað til sjútvn.