13.04.1946
Neðri deild: 109. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1245 í B-deild Alþingistíðinda. (2172)

21. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Þetta mál, sem nú er rætt, er að ýmsu vandræðamál og erfitt viðfangs. Það eru til nokkrar hafnir, þar sem einkahafnarmannvirki eru einu hafnarvirkin. Eins og nú er ástatt, má ekki leggja hafnargjöld á þær, fyrr en hafnarsjóður hefur lagt eitthvað til þeirra. Nú er þetta þó að færast í það horf, að einkamannvirkin eru að hverfa og hafnarsjóðirnir eru að taka við. Ég man í svip aðeins eftir 2 stöðum á Vesturlandi og 1 á Austurlandi, þar sem einkahafnarmannvirki eru. Eðlilegast væri, að þessi einkamannvirki verði lögð undir hafnarsjóði og eigendurnir fái bætur eftir mati. Ég efast um, að þetta ákvæði verði útkljáð svo öllum líki, en hér er bara um bráðabirgðaástand að ræða, sem mun lagast. Eins og nú stendur, þá er þetta ekki „aktuelt“ nema fyrir 2 eða 3 staði.