02.04.1946
Efri deild: 97. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1296 í B-deild Alþingistíðinda. (2223)

32. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. 2. minni hl. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Við, sem höfum undirritað nál. frá 2. minni hl. landbn., 1. þm. N.-M. og ég, höfum leyft okkur að koma fram með rökst. dagskrá um, að deildin vísi þessu frv. frá sér og stjórnin láti athuga það nánar í samráði við Búnaðarfélag Íslands. Fyrst og fremst er sú ástæða fyrir því, að við gerum þetta, að hér á þessu þingi munar litlu um það fylgi, sem er með eða móti þessari lagabreytingu. Og nú fara kosningar í hönd, og því rétt að bíða og sjá, hvernig alþingiskosningar fara, því að það gæti orðið fyrsta verk næsta Alþ. að breyta því, sem hér er verið að gera, ef andstæðingar frv. ná meiri hl. Ég geri ráð fyrir því, að bændur muni una því illa að vera svo sviptir umráðarétti yfir sjóðnum sem hér stendur til, og því komi fram kröfur um að afnema þetta eða hvert búnaðarsamband hafi óbundnar hendur um það, hvort það innheimtir þennan skatt eða ekki, og því réttast að veita búnaðarsamböndunum aðeins heimild til þess að innheimta gjaldið og leggja það á hverju í sínu umdæmi eftir nánari fyrirmælum. Ég býst nú við, að mörg búnaðarsambönd kæri sig ekki um að fá þetta fé úr höndum ríkissjóðs. Ég geri ráð fyrir, að réttast sé, að lögin verði látin standa óbreytt eða að gerðar verði á þeim miklar breytingar.

Hv. 2. þm. Árn. kvað svo á, að ekki skyldi hér teygja lopann, en ég er ekki vanur því að vera margorður. Ég tel, að ekki hafi verið gerð öllu meiri árás á bændastéttina en með þessum breyt., er Nd. samþykkti. Þeir eru ekki aðeins sviptir forráðarétti sínum, heldu er gengið svo langt, að stofnun bænda, Búnaðarfélagi Íslands, er ekki trúað fyrir að vera reikningshaldari þessa fjár, en Búnaðarbankanum falið það. Án þess að ég sé sérstaklega fylgjandi stjórn Búnaðarfélagsins, þá held ég, að henni væri trúandi fyrir þessu fé. Og nú mega búnaðarsamböndin kasta þessu fé út í hvippinn og hvappinn, þar þarf engan umsjónarmann, þótt búnaðarþing þyrfti þess, En það þurfti bara að kippa þessu úr höndum Búnaðarfélagsins. Hér er illa farið að bændastéttinni og furða að slíkt skuli renna undan rifjum fyrrv. bónda. Ég get tekið það upp, sem ég hef áður sagt, að þeir, sem stóðu að þessari sjóðsstofnun, voru í þeirri trú, að hér væri verið að vinna fyrir bændastétt landsins og í hennar þágu, en áttu sér einskis ills von, að vélar væru að baki, og sjóður þessi yrði í höndum búnaðarþings og Búnaðarfélags Íslands. Og þótt þetta væri lamað með því, að tilsjónarmaður var settur, þ. e. landbrh., þá hefur þó allt verið kyrrara síðan. En nú er laumazt aftan að bændum og þeir og þeirra stofnun svipt yfirráðum þessum. Ég skal ábyrgjast, að ef bændur hefðu vitað, að þannig yrði að farið, þá hefðu þeir aldrei leitað á náðir Alþingis um sjóðstofnun þessa. Ég hef minnzt á það hér, að nú reynir á, hver er hugur bænda um þennan sjóð, sem hér er deilt um, því að nú kemur til þeirra kasta að velja sér búnaðarþingsmenn, og geta þeir því valið fulltrúa sína eftir því, hvaða hug þeir bera til þessa máls, og eftir það er ekki hægt að segja, að ekki sé farið eftir vilja bænda um úthlutunina, því að það er hægt að setja þessum fulltrúum reglur, sem þeir eiga að fara eftir.

Ég tel þetta mikið mál fyrir heiður og sæmd bændastéttarinnar, og það verður áreiðanlega tekið tillit til þess við búnaðarþingskosningarnar, hver hugur manna er til þessa. Og ég er alveg undrandi yfir þeim mönnum, sem eru aldir upp í sveit og þykjast ekki vera angabrotnir eða rótarslitnir, að þeir skuli geta fylgt þessu frv., þar sem óhætt er að segja, að verið er að reyna að lama hið eina athvarf og málsvara bænda, sem er Búnaðarfélagið, og sýna þeim slíka óvirðingu, að þeir eru ekki aðeins sviptir umráðarétti sínum, heldur eru þeir einnig sviptir reikningshaldi þessa fjár.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð mín fleiri, en vona, að það séu það margir vinir og velunnarar hinnar fornu bændastéttar hér, að þeir láti ekki pólitíska lóuþræla villa sér sýn, er þeir fara að eins og Flatmýringurinn sællar minningar, sem stóð á því og tróð það niður í dýið, sem hann vildi draga upp úr því. En sá var munurinn, að hann var í góðri trú, að hann væri að bjarga, hver sem trú þeirra manna var, er breyttu frv. í Nd., en létu svo sem þeir væru að draga það upp úr.