06.02.1946
Neðri deild: 64. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1355 í B-deild Alþingistíðinda. (2259)

149. mál, virkjun Sogsins

Sigfús Sigurhjartarson:

Aðeins örstutt aths., herra forseti.

Það er óþarft að taka fram, að hv. 1. þm. Árn. er rökslyngasti maður og sýnir venjulega sanngirni. Ég held því, að það séu fullar sannanir fyrir því, að hér sé rökþurrð, er hann heldur ræðu eins og áðan. Hann hóf ræðu sína á því að segja, að ég vildi fela þessi mál einhverju félagi. Nú veit hv. þm., að mér hefur aldrei til hugar komið að fela þessi mál öðrum félögum en sveitar- og sýslufélögum, og þá með miklum takmörkunum, og eru það miklar skyldur, sem lagðar eru á þau félög í því frv., sem hér liggur fyrir. Þessi hv. þm. veit vel, að ef við erum að koma á stofn þjóðnýtingu fyrirtækja, þá geta þau ýmist verið í höndum sveitarfélaga eða ríkisins, eftir því sem hagkvæmast þykir til framkvæmda, hvort tveggja til að tryggja rekstur með almenningsheill fyrir augum, og í þessu frv., er það tryggt, að það er ekki aðeins eitt sveitarfélag, sem þarna kemur til greina, heldur hvert annað sveitarfélag, sem til þess hefur aðstöðu.

Þegar svo hv. þm. hefur lokið þessari röksemdafærslu um, að ég vilji fela þetta einhverju félagi, þá kemur hann að hinu, að það væri barnaskapur að ætla að telja mönnum trú um, að þetta gæti samrýmzt heildarfrv. til raforkulaga, og sagði, að allir læsir menn mættu glöggt sjá, að hér væri ósamræmi á milli. Ég tek ekki nærri mér, þó að hann bregði mér um það, að ég sé ekki læs, en ég vildi benda honum á það, að margir mættu lenda í sama hópi, og skal þá fyrst frægan telja, þann þm., sem síðast lauk máli sínu, hæstv. samgmrh. Hann hefur lýst yfir, að hann telji, að þetta frv. geti samrýmzt þeirri heildarstefnu, sem í raforkufrv. felst.

Svo kom hann að því að tilgreina þá kunnáttumenn, sem ég bað hann að greina, hverjir væru og hann teldi, að hefðu látið í ljós ákveðna stefnu í rafmagnsmálum í heild, en þessi stefna í frv. bryti í bága við. Nefndi hann þá Steingrím Jónsson„ rafmagnsstjóra í Reykjavík, sem hlýtur að koma í hóp ólæsra og óskrifandi manna, því að hann mun vera þeirrar skoðunar, að þetta frv. sé í fullu samræmi við það frv., sem hann átti þátt í að undirbúa. Næst nefndi hann svo Jakob Gíslason, forstöðumann Rafmagnseftirlits ríkisins. Ég átti líka von á því.

Nú hefur form. iðnn. skotið því að mér, að hún hafi beðið Rafmagnseftirlitið að athuga frv. um Sogsvirkjunina og bera það saman við ákvæði heildarfrv., sem sá sami maður hefur átt drjúgan þátt í að semja. Og þá segir hann, að þetta frv. um Sogsvirkjunina geti samrýmzt heildarfrv., svo að einnig þessi maður, ásamt mér og rafmagnsstjóra Reykjavíkur, kemur í hóp hinna ólæsu og óskrifandi, þar sem þeir eru sannfærðir um, að hér sé um samræmi að ræða en ekki ósamræmi.

Vegna þess að ég fékk aðeins leyfi til stuttrar aths., skal ég láta þetta nægja, en hygg, að lengri umr. um málið mundu hafa litla þýðingu. Ég vil aðeins vænta þess, að hv. d. bregðist vel við þeirri ósk Reykvíkinga, að þeir fái að halda áfram að vinna þar stórvirki til hagsbóta fyrir þær 45 þús., sem hér búa, Hafnarfjörð, Grindavík, Njarðvíkur og svo Eyrarbakka og Stokkseyri og önnur blómleg byggðarlög í kjördæmi hv. 1. þm. Árn.