19.02.1946
Neðri deild: 70. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1362 í B-deild Alþingistíðinda. (2271)

149. mál, virkjun Sogsins

Pétur Ottesen:

Hv. iðnn. hefur samræmt þetta frv. við ákvæðin í frv. til raforkul. Þá hefur hún samræmt þetta að því leyti, að hér á að gilda sama hámark að því er snertir ábyrgð ríkissjóðs fyrir láni til virkjunarinnar. Þær aths., sem ég gerði um þetta, hefur n. tekið til greina. Einnig hefur hún flutt 2 eða 3 aðrar brtt., að gefnu tilefni, þótt ég gæfi ekki tilefni til þess, og má segja, að þessar brtt. stefni í rétta átt og geri frv. að orðalagi til einnig skýrara en annars hefði orðið. En meginatriði þess, sem ég beindi til n., að taka upp slík ákvæði sem þessi inn í raforkulagafrv., sem þá áttu einnig að geta gilt um hliðstæða aðstöðu, eins og ég benti þá á, — a. m. k. er það á tveim öðrum stöðum, sem nokkuð stendur líkt á um nú, sem sé virkjun Laxár í Þingeyjarsýslu og Andakílsárvirkjunina, — hefur hún ekki getað fallizt á, eftir því sem hv. frsm. upplýsti hér nú. Telur hann réttara, að sú leið verði farin, að þegar óskir svipaðar þeim, sem í þessu frv. felast, koma fram, þá verði samin um það sérstök l., ef Alþ. á þeim tíma vill sinna slíkum málaleitunum. Ég benti á, að ég teldi heppilegra, að ákvæði um þetta væri að finna á einum og sama stað, sem sé í þeirri heildarlöggjöf, sem um þetta gilti, því að mér sýnist það dálítið einkennileg málsmeðferð, þegar samtímis því, að verið er að setja heildarlöggjöf um þetta, þá skuli einnig samþ. sérákvæði fyrir einstakan aðila. Það þýðir náttúrlega ekki að fara út í deilur um þetta hér, en með tilliti til þeirrar skoðunar, sem ég hef lýst í því efni, get ég ekki aðhyllzt þessa aðferð, þó að ég sé samþykkur þeirri stefnu, sem fram kemur í þessu frv. og ég vil þá einnig að fái að njóta sín gagnvart öðrum aðilum, sem svipað stendur á um. Það, að ég vil ekki lýsa yfir fylgi mínu við frv., stafar eingöngu af þeirri aðferð, sem hér um ræðir, en ekki efni frv.

Ég skal svo ekki eyða fleiri orðum um þetta. N. hefur sínar ástæður fyrir sinni afstöðu, og skilst mér, að hún standi öll óskipt að því, að haga nú afgreiðslunni þann veg, sem hv. frsm. hefur lýst.