05.04.1946
Efri deild: 100. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1680 í B-deild Alþingistíðinda. (2448)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Ég get verið ánægður yfir því, að hv. heilbr.- og félmn. eða meiri hluti hennar hefur lýst því yfir, að hún muni fylgja þessu frv. fram hér í hv. d., með breyt., sem n. hefur öll lagt til, að gerðar verði á frv., jafnvel þótt svo kunni að fara, að brtt., sem einstakir nm. flytja, nái ekki fram að ganga. Mér skilst, að þessi afstaða sé sameiginleg með nm., að undanteknum hv. þm. Str., sem ég heyrði ekki betur en lýsti því yfir hér í d. í gær, að hann mundi greiða atkv. móti frv., ef hans brtt. næðu ekki samþykki. Af þeim brtt., sem nm. hafa lagt til, skal ég ekki gera neina sérstaklega að umtalsefni. Þó að ég telji að vísu, að ýmsar þeirra gætu verið til bóta, þá eru þó nokkrar, sem ég tel heldur til spillis á frv., án þess þó að gerbreyta því þannig, að það mundi þó ekki ná að miklu leyti tilgangi sínum, ef það næði fram að ganga.

Mér heyrðist, að hv. 6. þm. Reykv. væri mjög á móti till., sem hefur verið tekin upp um heimild handa sjóðsstjórninni til þess að lána milli deilda, en sú till. er tekin upp beinlínis eftir tilmælum núverandi sjóðsstjórnar, og ég held, að það sé svo mikil eftirspurn eftir lánum úr sjóðnum og notkun hans yfir höfuð, að varla komi til mála annað en að flestir þeir, sem eiga eitthvað í sjóðnum, reyni að nota sér heimildina til þess að byggja, svo framarlega sem lán fæst og byggingarefni, þannig að ótti hv. 6. þm. Reykv. við þessi ákvæði virðist í rauninni alveg ástæðulaus, megi treysta sjóðsstjórninni til þess að misbeita ekki ákv. á nokkurn hátt. Við hv. 6. þm. Reykv. erum mjög sammála um ákvæðin í III. kafla frv., þ. e. a. s., við erum mjög sammála um það, að gera beri sérstakar ráðstafanir af ríkisins hálfu til þess að útrýma heilsuspillandi íbúðum. En hins vegar heldur hv. 6. þm. Reykv. því fram, að till. þær, sem í frv. eru, séu mjög óhagkvæmar fyrir ríkissjóð, en aðrar till., sem hann hefur flutt, miklu hagkvæmari fyrir ríkið. Ég held því hins vegar fram, að þær till., sem í frv. eru, ásamt brtt. meiri hl. n., séu miklu hagkvæmari fyrir ríkissjóð, þannig að þær miði ekki einungis við þá staði, þar sem fólksfjölgun hefur orðið jafnvel með óeðlilegum hætti, heldur ættu þær einnig að ná til alls landsins. Ég vil ekki deila um þetta við hv. 6. þm. Reykv. Við höfum þar hvor sína skoðun, og ég tel óhugsandi, að við sannfærum hvor annan. Mér þykir vænt um, að hv. 6. þm. Reykv. hefur fallið frá þeirri kröfu sinni að kljúfa þetta frv. í sundur í 4 frv., og held ég, að það muni mjög verða til þess að flýta framgangi málsins, enda er þess beðið viða á landinu með mikilli óþreyju, að þetta mál fái afgreiðslu.

Út af brtt. hv. 4. landsk. vil ég segja það, að ég tel, að þær séu að ýmsu leyti þess eðlis, að vert væri að athuga þær mjög gaumgæfilega, sérstaklega till. hans um að búa til stofnun, er nefnist Byggingarstofnun ríkisins, og till. hans um fjárútvegun. Ég vildi þó segja um till. um Byggingarstofnun ríkisins, að hún er að mestu leyti algert nýmæli. Og eftir þeim yfirlýsingum, sem hv. 6. þm. Reykv. gaf í gær, þá virðist mér, að allar þeirra till. gætu e. t. v. stofnað þessu frv. í hættu, svo að það næði ekki fram að ganga á Alþ. í þeirri mynd, sem meiri hl. n. hefur lýst yfir, að hann mundi fylgja því fram, jafnvel að fella brtt. einstakra nefndarmanna. Það eitt út af fyrir sig teldi ég það mikinn skaða, að ég get ekki mælt með till. hv. 4. landsk., þó að ég sé þeim í rauninni að ýmsu leyti samþykkur. Annað atriði er það, að till. hans um fjárútvegun er einnig þess eðlis, að það væri mjög nauðsynlegt að taka hana til athugunar, og yfirleitt þarf að gera einhverjar sérstakar ráðstafanir til þess að útvega byggingarsjóðnum fé, ef ekki má gera það með samkomulagi milli ríkisstj. og bankanna, sem ég tel ekki útilokað, að mætti gera. Till. hans um að búa til sérstaka teiknistofu, sem hafi uppdrætti með höndum og eftirlit með húsbyggingum, gæti ég í rauninni mælt með, þó að ég hins vegar hafi ákaflega litla trú á því, að hún komi að notum á þessum tíma, af þeim ástæðum að ég tel ekki möguleika á því að fá starfsfólk til slíkrar stofnunar, og segi ég það af þeirri reynslu, sem ég hef fengið af því að útvega húsameistara ríkisins starfskrafta. Ég hef hvað eftir annað á þessu og liðnu ári gefið húsameistara ríkisins heimild til þess að ráða húsameistara í skrifstofuna til viðbótar, og niðurstaðan af því hefur orðið sú, að einn húsameistari hefur fengizt til viðbótar í skrifstofuna og enn fremur einnig húsateiknari. Þá hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að leysa húsameistara, sem er starfandi í skrifstofunni, undan ýmsum störfum, sem hann hafði áður, svo að hann gæti gefið sig meira að frumuppdrætti og öðru slíku. En allar tilraunir til þess að fá aukið starfslið til handa húsameistara ríkisins hafa brugðizt, og hefur þó húsameistari ríkisins fengið heimild til þess að ráða sér erlenda aðstoðarmenn, ef ekki væri völ á innlendum. En allar þjóðir eru í mestu húsnæðisvandræðum og alls staðar er ráðgert að byggja upp, og af þeim ástæðum er ekki hægt að fá neina húsameistara til starfa aðra en þá, sem nú þegar eru starfandi í landinu. Og í rauninni eru laun þau, sem húsameisturunum hafa verið ákveðin í launal. hjá því opinbera, það lægri en húsameistara, sem vinna hjá einstökum mönnum, að þegar af þeim ástæðum væri ekki hægt að fá neina húsameistara í opinbera þjónustu. Mér virðast þær brtt., sem meiri hl. n. hefur gert við IV. kafla, orka mjög tvímælis, þar sem gert er ráð fyrir því, að í stað þess að sett séu lagaákvæði um skiptingu byggingarefnis og sérstök n. skipuð til þess, þá sé allt slíkt lagt í hendur viðskiptaráðs og ríkisstj., en hitt allt reglugerðarákvæði, sem annars var gert ráð fyrir, að yrði skipað með lögum. Ég tel þessa breyt. mjög til hins verra, þótt að vísu megi segja, að með sæmilega árvakri ríkisstj. og viðskiptaráði geti þetta komið í sama stað niður, sem ég þó efast um, að verði. Það er augljóst, að nú á næstu árum verður mikill skortur á byggingarefni alls staðar í veröldinni. Jafnhliða og eitthvað raknar úr um samgöngur í Mið-Evrópu, hlýtur eftirspurnin eftir byggingarefni að vaxa mjög stórkostlega, auk þess sem það er vitað, að meðan á stríðinu stóð, hefur ekki verið byggt yfir þá fólksfjölgun, sem orðið hefur, jafnvel í hlutlausum löndum. Það er þess vegna mjög nauðsynlegt að gera þegar í stað ráðstafanir til þess að flokka niður byggingar, þannig að íbúðarhúsabyggingar og byggingar fyrir framleiðsluna sjálfa verði látnar ganga fyrir öllu öðru, en aðrar byggingar, svo sem stóríbúðir einstakra manna og byggingar, sem að skaðlausu mega bíða, verði látnar sitja á hakanum. Það má ef til vill segja, að það sé hægt að gera það með brtt., sem liggur fyrir frá meiri hl. n. En ég tel, að ákvæði þau, sem nú eru í frv., séu meira tæmandi og taki af allan vafa í þessu efni, þó að hins vegar, vegna nauðsynjar um það að fá þetta frv. afgr. sem allra fyrst, ef til vill væri hægt að sætta sig við till. meiri hl. n., ef þær næðu samþykki.

Ég skal svo ekki tefja þessa umr. frekar. Ég vænti þess, að henni geti orðið lokið í dag, þó að ekki sé hægt að ganga til atkv. vegna þess hvað margir þm. eru fjarstaddir, og með því að mjög er áliðið þann tíma, sem ætlazt er til, að þing standi, og almennt er beðið eftir. því um allt land, að frv. fái afgreiðslu, vildi ég mælast til þess við hæstv. forseta, að hann flýti afgreiðslu þess hér í d. eftir því sem hann telur fært. Ég sé af nál., að frv. með nokkrum breyt. er tryggður framgangur, og ég get ítrekað ánægju mína yfir því, þó að mér séu það hins vegar nokkur vonbrigði, að hv. þm. Str. hefur lýst yfir, að hann muni greiða atkv. á móti frv., ef hans till. ná ekki fram að ganga. Hann er ekki hér viðstaddur, og ég skal því ekki fara að ræða hans till. að einu eða neinu leyti, en aðeins geta þess, að mér þótti nokkuð undarleg sú mótbára, sem hann hafði gegn frv., sem var á þá leið, að það væri gerður allt of mikill mismunur á réttindum borgaranna með því, þannig að þeim, sem byggðu verkamannabústaði eftir I. kafla frv., væri gert miklu hærra undir höfði en hinum, sem byggðu samkv. samvinnubyggingal. eða II. kafla frv. Nú er þessi mismunur nokkurn veginn sá sami í frv. og hann er í núgildandi löggjöf, og mér kemur þetta undarlega fyrir sjónir m. a. vegna þess, að ég held, að hv. þm. Str. hafi staðið að hvorri tveggja þessari löggjöf, bæði um verkamannabústaðina og samvinnubyggingarnar, og sú löggjöf hafi verið sett í hans stjórnartíð og með hans fullu samþykki. Það hefur þess vegna ekki gerzt annað í þessum efnum en að haldið hefur verið þeim mismun, sem gerður hafði verið með þessum tvennum byggingarl., honum er haldið í frv., og ég tel hann mjög eðlilegan. Það má segja, að frv. miði að því að létta undir með þrem flokkum manna til þess að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Í einum flokknum eru þeir, sem búa í heilsuspillandi íbúðum og hafa, eftir að athugun hefur farið fram, ekki möguleika að koma upp þaki yfir höfuðið. Í öðrum flokknum eru svo nokkuð betur staddir verkamenn, sem gera má ráð fyrir, ef þeir ekki fá sérstaka aðstoð frá ríkinu, að gangi illa að útvega sér húsnæði. Í þriðja flokknum eru svo betur stæðir millistéttarmenn, sem mundu geta lagt talsvert fram til íbúðarhússbyggingar, en þó er talið, að þurfi einhverja aðstoð ríkisins. Mismunurinn, sem á þessu er gerður, er ekki annar en sá allra eðlilegasti, að það er gert ráð fyrir því, að ríkið og bæjarfélögin veiti þeim fátækustu mesta aðstoð, þeim sem ekki eru eins bláfátækir, nokkru minni aðstoð og þeim, sem helzt geta eitthvað af mörkum lagt, án þess þó að vera einfærir án aðstoðar ríkisins að koma sér upp húsi, sé veitt minnst aðstoð. Ég tel þessa skiptingu mjög eðlilega og í rauninni sjálfsagða, og ég fæ ekki skilið, hvers vegna hv. þm. Str. notar þessa skipting til þess að lýsa því yfir, að hann muni verðal á móti frv., ef hún verður samþ. hér í d.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um málið, Ég vænti þess, að umr. geti orðið lokið á þessum degi og frv. komi svo til Nd. þegar að lokinni 3. umr., sem ég treysti hæstv. forseta til að láta fara fram sem allra fyrst.