11.04.1946
Efri deild: 104. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1687 í B-deild Alþingistíðinda. (2468)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Frsm. (Haraldur Guðmundsson) :

Nefndin hefur komið saman og athugað einstök atriði frv. og brtt., að vísu voru ekki nema 3 nefndarmenn mættir. Nefndin hefur ekki viljað mæla með brtt. frá 4. landsk. og ekki heldur með brtt. frá 9. landsk. En samkomulag náðist um eftirtaldar brtt. Í fyrsta lagi brtt. við 16. gr. frv., að í stað 80% komi 75%. Þessi brtt. er flutt eftir ósk hæstv. fjmrh., og hefur meiri hl. nefndarinnar fallizt á að bera hana fram. Önnur breyt., sem nefndin leggur til, að gerð verði, er við 31. gr. Það er í rauninni ekki efnisbreyting, heldur aðeins formsatriði. Ástæðan fyrir breytingunni er sú, að það þykir óviðeigandi, að sveitarstjórn leggi fram lán til að byggja hús, sem hún er í rauninni eigandi að. — Loks leggur nefndin til, að aftan við frv. komi, að stjórn verði skipuð til ársloka 1949, þótti hentugra að miða við áramót.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta.