26.03.1946
Efri deild: 92. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1413 í B-deild Alþingistíðinda. (2477)

144. mál, Austurvegur

Frsm. (Eiríkur Einarsson) :

Ég vil taka það fram vegna ræðu hv. þm. Str., að þótt það skipti miklu í þessu máli sem öðrum, að það njóti stuðnings viðkomandi ráðherra, þá er það ekki það eina, sem máli skiptir. Hins vegar er það þingmannsskylda að fylgja málinu, ef það á rétt á sér. Vitanlega geri ég mikið úr því, að hæstv. ráðh. sé málinu fylgjandi, en sá varnagli er sleginn í frv., að mannafli og vélakostur þarf að vera fyrir hendi. Þetta er sett í frv. af því að það er sanngjarnt og réttmætt. Það er hin mesta áherzla, sem þm. geta lagt á málið, að samþ. þetta frv., og ég þekki ekki þann flokksaga að geta ekki fylgt málinu, þótt yfirlýsing liggi ekki fyrir frá stjórninni um stuðning. Ég minnist þess að vísu, að hæstv. fjmrh. gat um erfiðleika og dró sínar ályktanir, en því fólst engin neitun um það, að heimildin yrði ekki notuð. Það er eftirtektarvert, að þegar byggja skal gistihús fyrir fleiri millj., þá er ekki horft í það. En þegar taka á lán til að framkvæma þetta stórmál, sem beðið hefur í 30–40 ár, þá eru ótal ljón á veginum, að margra dómi.

Ég vil að lokum segja það, að ef hv. þvm. Str. hefur átt við það, að fylgi hans með frv. byggðist á því, hvað hæstv. fjmrh. segði, þá mun ég gera hvað ég get til þess að þessi hv. þvm. greiði atkv. með málinu.