21.11.1945
Efri deild: 34. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í B-deild Alþingistíðinda. (250)

92. mál, tekjuskattsviðauki 1945

Bernharð Stefánsson:

Eftir þetta svar hæstv. fjmrh. sé ég ekki ástæðu til að taka þessa brtt. aftur til 3. umr. Ég geri ráð fyrir, að forlög hennar verði þau sömu hvort sem er.

Ég mun ekki lengja mál mitt, en vil aðeins taka fram, að hæstv. ráðh. sagði, að lög þessi væru aðeins stundarfyrirbrigði og væru fyrst og fremst afleiðing af niðurgreiðslum á landbúnaðarvörum. Þetta er hægt að segja, en ég býst þó við, að þarfir ríkissjóðs verði nægar, þó að hætt verði að greiða niður landbúnaðarafurðir. Til dæmis þegar hin víðtæka tryggingalöggjöf, sem nú er í undirbúningi, kemur til framkvæmda, má gera ráð fyrir, að það kosti ríkissjóð ekki minna en uppbæturnar á landbúnaðarafurðum nú. Ég hef því þann grun, að þessi l. séu ekkert stundarfyrirbrigði.

Hæstv. ráðh. áleit þessa brtt. óviðeigandi vegna þess, að veltuskattsl. giltu aðeins 1945. En einmitt þess vegna tel ég fremur viðeigandi en óviðeigandi, að þessi till. komi fram, þegar innheimta á beinlínis skatt af veltuskattinum á árinu 1946. Hæstv. ráðh. sagði, að meiri hl. hefði verið fyrir veltuskattsl. og þess vegna óviðeigandi og þýðingarlaust að bera fram þessa tillögu. En mér finnst engin sönnun fyrir því, að þm. hafi ekki skipt um skoðun, þar sem þá var um að ræða lög aðeins fyrir árið 1945, en nú er um að ræða 1946 og lög fyrir það ár. Ég mun ekki deila hér um veltuskattsl., en ég tel mjög hæpið að telja hann stríðsgróðaskatt, því að í sumum tilfellum geta verið stríðsgróðamenn, sem engan slíkan skatt greiða, og mótstætt.

Um till. verða að ganga atkv., og sé ég ekki ástæðu til að orðlengja þetta meira. Ég óska eftir nafnakalli um till. á þskj. 188.