08.04.1946
Efri deild: 101. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1480 í B-deild Alþingistíðinda. (2601)

29. mál, fræðsla barna

Eiríkur Einarsson:

Ég á hér brtt. á þskj. 696, og lýtur hún eingöngu að einni gr. frv., þeirri þrettándu. Hún er á þann veg, að á eftir orðunum „en þrjá fjórðu hluta stofnkostnaðar heimavistarskóla“ í fyrstu málsgr. komi : og skólastjórabústaða í heimangönguskólum. Þessa brtt. flyt ég vegna þess, að mér þykir sanngjarnt, að þessir hærri fjárstyrkir nái einnig til skólastjórabústaða í heimangönguskólum. Eins og frv. ber með sér, er ætlaður lægri styrkur til stofnkostnaðar heimangönguskóla en heimavistarskóla, og er hlutfallið ½ móti 3/4. Látum svo vera, þó að þetta ákvæði standi. Hér er miðað við það, að heimangönguskólarnir séu minni byggingar og þar af leiðandi ódýrari, en auk þess kemur ekki til greina, að börn búi í heimangönguskólunum, svo að þar verður ekki eins þungu hlassi að velta hvað kostnað snertir. En hins vegar ber einnig á það líta, að það kemur að einhverju leyti til greina, þegar deilt er um heimavistarskóla og heimangönguskóla, að þar, sem aðstæður eru yfirleitt beztar og stærri héruð, verður um heimavistarskóla að ræða. En aftur á móti þar, sem er meira strjálbýli og minni sveitarfélög og aðstæður allar yfirleitt verri til þess að ná því takmarki, sem skólunum er ætlað að ná, þá finnst mér að verði að taka það til greina og láta, þar sem svo stendur á, stofnkostnað skólaíbúða njóta hærra styrks. Mér finnst þetta samræmingaratriði, sem eigi alla sanngirni með sér. Það er nú svo, að í heimangönguskólum, þar sem um skólastjóra er að ræða og vantar íbúðir, ef um er að ræða fjölskyldumenn, sem óhjákvæmilegt er að láta hafa þak yfir höfuðið, þá getur þetta orðið nokkuð strembið og til verulegrar tafar að fylgja málinu á eðlilegan hátt eftir. Ég veit að vísu, að þetta er fjárgjaldaauki fyrir ríkið. En það eitt út af fyrir sig ætti ekki að verða þess valdandi, að þm. verði á móti till. minni, því að hún miðar að því að reyna að koma þessu þannig fyrir, að það, sem eftir sanngirni og vegna nauðsynjar skuli greiða af ríkinu, það verði gert í samræmi hvað við annað.

Ég vona, að þessi orð mín nægi til fylgis við till., að þau séu á það góðum rökum reist og sýni það mikla sanngirni, að ég vænti þess, að hv. d. sjái sér fært að ljá till. atkv. sitt. Ég vil svo geta þess að síðustu, að menntmn., sem ég á sæti í, hefur óbundna afstöðu með öllu til þessarar till. minnar.