09.04.1946
Efri deild: 102. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1482 í B-deild Alþingistíðinda. (2607)

29. mál, fræðsla barna

Gísli Jónsson:

Út af ummælum hv. 1. þm. Eyf. þótti mér rétt að segja nokkur orð. Hann talar um, að þau ákvæði, sem hér eru sett, séu þar með ákveðin í hinum frumvörpunum. Það má vera, að hann hafi slegið einhverju föstu um atkvæði Framsfl. í þessum málum, en ég ætla að lýsa því yfir a. m. k. fyrir mína hönd, að ég greiði atkv. hverju sinni eins og mér þykir henta. Þá vil ég endurtaka það, að ákvæði um starfstíma kennaranna eiga heima í lögum um skyldur starfsmanna ríkis og bæja, en ekki í þessum lögum.

Í öðru lagi vildi ég leyfa mér að benda á, að ég sá ástæðulaust fyrir hv. 1. þm. Eyf. að draga inn í þetta mál minningu fyrrv. skólastjóra kennaraskólans, þess mæta manns. Í sambandi við það vil ég spyrja : Finnst hv. 1. þm. Eyf. virkilega, að andi séra Magnúsar Helgasonar svífi yfir kennarastéttinni eða barnaskólafræðslunni á Íslandi nú? Ég trúi því ekki, að honum finnist það, og það er einmitt það, sem hv. frsm. frv. vill útiloka hér nú með því að mæla á móti því, að till. mínar og hv. þm. S.-Þ. verði samþ. um að koma prestunum að við barnafræðsluna. Með því vill hann útiloka, að þessi andi svífi yfir börnunum. Ég vil biðja hv. 1. þm. Eyf. að athuga það, að ef hann vill með atkv. sínu styðja að því, að andi Magnúsar Helgasonar svífi yfir íslenzkri æsku, þá á hann ekki að greiða atkv. með því, að þessi till. verði felld. Ég skal m. a. leyfa mér að benda hv. 1. þm. Eyf. á það: Var það andi séra Magnúsar Helgasonar, sem hvíldi yfir því ákvæði, þegar hv. 7. landsk. — hinn réttkjörni 7. landsk. — slóst fyrir því með hnúum og hnefum að setja það ákvæði inn í fræðslul., að inn í kennaraskólann mætti enginn fara, sem hefði líkamslýti? Var það andi séra Magnúsar Helgasonar, sem hvíldi yfir því ákvæði, þegar verið var að hefja baráttu fyrir því, að enginn maður með hæfileika séra Magnúsar Helgasonar kæmist að barnafræðslunni? Það gerði ekkert til, þó að þeir væru andlega volaðir þessir menn, ef þeir bara höfðu ekki líkamslýti. Það mega ekki koma að barnafræðslunni menn, ef þeir eru krypplingar eins og Morten Hansen, af því að hann var andlega heilbrigður, en ef þeir eru andlega volaðir, þá er sjálfsagt að fá þá í þessa stétt. En ég vil biðja hv. 1. þm. Eyf. að athuga það, að nemendurnir verða ekki alltaf eins og kennarinn, og þar þarf ekki annað en að vitna í fyrrv. formann Framsfl., sem reyndi að kenna þeim Hermanni og Eysteini, — og hvernig hafa þeir reynzt honum? Það er því óhætt fyrir hv. 1. þm. Eyf. að fylgja mér í þessu máli og styrkja með því minningu Magnúsar Helgasonar.

Viðvíkjandi þeirri aths., sem hv. 7. landsk. gerði út af mínum till., m. a. að hann taldi, að það væri of mikið að leggja 50 mín. kennslu á svo vanþroska börn, þá hef ég ekkert viljað um það segja, en aðeins tekið fram, að þetta eigi heima í reglugerð, því að ef áfram verður haldið á þessari braut og börnin verða því vanþroskaðri sem þau eru lengur í kennslu hjá þessum mönnum, þá þarf kannske að breyta þessu oftar og fljótar en Alþingi kemur saman. Það þótti ekki fyrir hálfum mannsaldri mikið 50 mínútur. Nú er upplýst af hv. 7. landsk., að börn séu nú orðin svo andlega vanþroska, að það sé ómögulegt að leggja á þau meira en 40 mínútur, og því legg ég til, að þetta verði ekki bundið í l., heldur ákveðið með reglugerð. Ég er ekki í neinum vafa um, að ef hv. 7. landsk. og hans flokkur fær að ráða áfram í skólamálunum, þá duga ekki 40 mínútur, þá verður að færa niður í 10 mínútur. (BSt: Væri ekki ráð að losa sig við þennan flokk?) Jú, það væri ráð. (BSt: Hv. þm. gæti kannske gert eitthvað í því.) Það liggur ekki fyrir hér í dag.

Ég vil í sambandi við það, sem hann minntist á það, sem ég hefði sagt um þann hroka að samþ. ekki mínar till., taka fram, að ég var ekki sérstaklega að óska, að þær yrðu samþ. Hann sagði, að það mætti ekki vænta þess, að menntmn. færi að hlaupa frá yfirlýsingum sínum og ákvörðunum, þó að frá mér kæmu brtt. Ég hef ekki óskað eftir því, heldur að hv. frsm. menntmn. sýndi ekki svo mikinn hroka að vilja ekki líta á till., hvaðan sem þær kæmu, en það gerði hann ekki. Hann bar þær aldrei undir n., enda hlupu sumir nm. frá yfirlýsingum sínum viðvíkjandi öðrum till., því að ýmsar till. voru samþ. hér með atkv. þeirra manna, sem eru í menntmn., og það till., sem þeir höfðu víst aldrei athugað eða skoðað í n. sjálfir.

Ég vil ekki deila um kostnaðinn við fræðslun. Það er ekki aðeins, að hv. 7. landsk. þm. vilji ekki, að ríkissjóður greiði kostnaðinn, heldur vill hann forða því, að málið fari aftur til Nd., en ekki það, að hann vilji létta þessari byrði af fátækum sýslusjóðum, m. a. Austur-Skaftafellssýslu, og ef það er ástæðan, þá er rétt, að það komi fram á framboðsfundum í vor, að hann hafi ekki viljað létta þessu gjaldi, litlu að vísu, af sýslunni, en það er ekki ástæðan, heldur hitt, að hann vill ekki, að málið fari til Nd.

Hann segir, að það sé ekki tryggt, að skólan., sem verða sammála um ákveðinn mann til skólastjóra, kunni á því meiri skil en hinir aðilarnir. Það var aðeins einn aðili, menntmrh., sem gat skipað þennan mann, og hann hefur gert það á móti meiri hl. skólan. Er þetta lýðræði? Er það lýðræði, ef einn maður á að ráða meiru en fimm menn heima fyrir? Ég tel það ekki neitt lýðræði. Það kann að vera austrænt lýðræði, það er ekkert annað. Ég vil vænta þess, að hv. þm. sýni með atkvgr., að slíkt lýðræði óski þeir ekki eftir, að verði sett inn í fræðslulöggjöf Íslands.