10.04.1946
Efri deild: 103. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1492 í B-deild Alþingistíðinda. (2619)

29. mál, fræðsla barna

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég verð að láta undrun mína í ljós yfir því, hve lítinn byr brtt. mín á þskj. 694 hefur fengið í hv. d. í ræðum manna. Og ber þó ekki að ganga fram hjá því, að úr öðrum áttum hefur verið vel í hana tekið, sem ég er þakklátur fyrir. Mig undrar þetta sökum þess, að ég hef sterkan grun um, að fylgismenn hæstv. ríkisstj. á Alþ. ætli að samþ. lagafrv. með þeim ákvæðum, að kennarar við æðri skóla eigi heimtingu á því að hafa frí 10. hvert ár til framhaldsnáms. Þetta er nú í frv. og hefur gengið þannig gegnum hv. Nd. Og mig grunar það fastlega, að það verði að l. Þess vegna undrar mig, að úr þessari átt skuli hafa komið fram jafnsterk mótmæli gegn því að veita heimild til þess, að barnakennarar fái frí til framhaldsnáms 10. hvert ár. Það barst í tal undir þessum umr. í gær um þetta mál, að það mundi verða nokkuð erfitt fyrir fræðslumálastj. að standa á móti beiðnum barnakennara um þetta og því væri ekki mikill munur á því, hvort um heimild eða ákveðinn rétt væri að ræða. Ég álit á því mikinn mun, hvort fræðslumálastj. geti á sínum tíma takmarkað þetta eftir því, sem henni finnst geta ríkissjóðs leyfa. M. a. hefur 6. þm. Reykv. talið það vera mjög óvarlegt að samþ. þessa brtt. mína. En það var þó hv. þm., ef ég man rétt, sem hafði orð á því í hv. d., að barnakennarar yrðu fyrir misrétti, ef lagaákvæði yrði sett um það, að aðrir kennarar hefðu þessi fríðindi. Og nú hefur hann í ræðum sínum í dag og í gær látið skína í það, að hann gæti fallizt á að samþ. eitthvað í þessa átt, þar sem skemmra væri gengið en í minni till. Hv. þm. var að stinga upp á því í gær, að í staðinn fyrir eitt ár kæmi þrír mán., og skildist mér þá, að það ætti að halda sér við 10. hvert ár. Hv. þm. virtist líta svo á, og það hefur borið á því líka hjá öðrum, að þetta væri frí til hvíldar fyrir kennara, og mundu því 3 mánuðir nægja. Ég hef gert grein fyrir því og till. ber það með sér, að hér er ekki um frí að ræða, heldur framhaldsnám og þá helzt í útlöndum. Og ég álít lítið gagn í því að veita frí í 3 mánuði til slíks náms. Þeir gætu þá haft sumarið frítt og fram til jóla. Ég er ekki nægilega kunnugur framhaldsskólum fyrir kennara í nágrannalöndunum, en ég hygg það sé ekki hægt að ljúka námi í þeim skólum á þessum tíma, t. d. á kennaraháskólum, sem ég veit, að eru til í Danmörku og Noregi og víðar. Ég álít, ef þess konar frí eru veitt, þá þurfi það að vera í eitt ár. Hitt er svo annað mál, að til samkomulags vildi ég gjarnan draga úr því, sem farið er fram á í minni till. Í minni till. er heimilt að veita barnakennurum frí 10. hvert ár. Og ef barnakennarar eru 400 að tölu í landinu, þá væru það um 40 menn á ári, sem hefðu frí. Þetta er að vísu aðeins hugsanlegur möguleiki, því að ýmsar ástæður valda því, að þótt fræðslumálastjórn tæki allar beiðnir til greina, mundu ekki allir sækja um þetta. Þegar menn eru búnir að vera mörg ár í starfi, orðnir heimilisfeður og bundnir alls konar böndum, þá verða það aldrei nándar nærri allir, sem sækja um það að fara af landi burt í eitt ár. En ég vildi samt koma á móti óskum um það, að úr þessu væri dregið. Ég ætla því að leyfa mér að bera fram skriflega brtt. við mína eigin brtt. á þskj. 694, svohljóðandi: Í stað orðanna „tíunda hvert ár“ komi: einu sinni. — M. ö. o., það skal veita hverjum barnakennara þetta orlof einu sinni á hans starfsævi með þeim skilmálum, sem í frvgr. er nánar tilgreint. Vona ég, að þegar ég ber fram þessa till., þá geti allir sætzt á það, a. m. k. þeir, sem hugsa sér að veita öðrum kennurum þann rétt, eins og nú er ráðgert. Og þá geta þeir tæplega annað en samþ. þetta, þegar svo vægilega er í sakirnar farið. Það má vel vera, að það væri rétt að taka þetta til sérstakrar íhugunar um alla kennara. Og ef hæstv. kennslumálarh. lýsti yfir því, að hann mundi styðja tilsvarandi ákvæði í öðru frv. og skyldi í einu lagi taka til athugunar, hvernig þessu yrði fyrir komið um kennara við æðri skóla og barnaskóla, þá gæti ég fallið frá því, að nokkuð væri sett inn í þessi l. um þetta atriði. En ákvæði samsvarandi þessu er búið að ganga í gegnum Nd., og ég hafði því búizt við, að þetta yrði samþ. Og það þykir mér hart, ef barnakennarar mega einskis njóta í sömu átt og aðrir kennarar eiga að fá. — Hv. þm. Barð. var með gífuryrði út af því, sem ég sagði í þessu máli. Mér fannst orð hans ekki koma þessu máli við, og hugsaði mér að svara því engu. En úr því ég er staðinn upp, vil ég segja það, að ég hugsa, að minning séra Magnúsar heit. Helgasonar bíði engan hnekki, þótt hann sé nefndur. Hans minning þolir það, að hann sé nefndur hvar og hvenær sem er, svo að aðfinnsla út af því að hafa nefnt hann finnst mér ekki eiga við. Svo var hv. þm. með harða dóma um kennarastéttina og vildi telja, að kennarar væru ekki líkir séra Magnúsi Helgasyni. Það getur vel verið, að ýmsir kennarar í landinu séu ekki líkir þeim ágætismanni, en það fullyrði ég, og þekki ég það alveg eins vel og hv. þm. Barð., að kennarastétt landsins er yfirleitt skipuð góðum mönnum og skylduræknum. Og ég er alveg sannfærður um, að ef aðrar stéttir þjóðfélagsins stæðu eins vel í stöðu sinni og kennarastéttin gerir, þá væri þessu þjóðfélagi sæmilega borgið. Og það er vitað, að ekki er svo langt síðan séra Magnús Helgason var skólastjóri Kennaraskólans, að mjög margir kennnarar eru hans lærisveinar og reyna eftir mætti að fylgja þeim reglum í starfi sínu, sem hann gaf þeim. Þessi dómur hv. þm. var órökstuddur og því sú tegund dóma, sem venjulega eru kallaðir sleggjudómar. Hv. þm. minntist á prestana, og skildist mér hann álíta, að þeir væru líkir séra Magnúsi Helgasyni. Ég ætla ekki að segja neitt misjafnt um prestana, en ég efast ekki um það, að kennarar standa eins vel í sinni stöðu og prestarnir og gengur eins vel að uppfræða æskulýðinn og prestunum að gera fólkið trúað. En þótt hv. þm. hafi viðhaft gífuryrði um kennarastéttina, þá var það náttúrlega ákaflega meinlaust í samanburði við það, sem hann sagði um hæstv. kennslumrh. og fræðslumálastjórnina. Það var á honum að heyra, að ef núv. hæstv. ráðh. veitti málum þeim forstöðu áfram, þá yrði æskulýðurinn og þjóðin öll svo andlega voluð, að ungdómurinn mundi ekki þola nema 10 mín. kennslustund, og annað eftir því. Ég er í andstöðu við hæstv. núv. menntmrh. og mundi heldur í dag en á morgun samþ. á hann vantraust og alla ráðh. fyrir ýmissa hluta sakir, en mér dettur ekki í hug að halda því fram, að þótt þessi hæstv. ráðh. væri um eitthvert árabil aðalvaldamaður fræðslumála landsins, þá hafi það eins skelfilegar afleiðingar og hv. þm. Barð. gerir ráð fyrir. Og mig undrar það, hvernig hv. þm. getur varið það fyrir guði sínum og samvizku að styðja mann í það sæti, sem hann álítur, að hafi slíkar afleiðingar. Mér finnst það beinlínis skylda hans sem alþm. að bera fram vantrauststill. á þann ráðh., sem hann telur, að veiti þannig forstöðu fræðslumálum landsins, að öll börn landsins verði að andlega voluðum vesalingum.

Ég leyfi mér svo að afhenda hæstv. forseta brtt. mína.