17.12.1945
Neðri deild: 55. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

92. mál, tekjuskattsviðauki 1945

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Það eru nokkrar aths. við ræðu hæstv. fjmrh., sem ég vildi gera. Hann sagði, að að líkindum hefði þessi veltuskattur aldrei verið lagður á, ef meiningin hefði verið að draga hann frá tekjum áður en skattur væri á þær lagður. Hann sagði, að það mundi kannske ekki svara kostnaði að leggja hann á með því móti. Það eru ekki litlar upphæðir, sem ríkið innheimtir með tollum á útlendan varning, það skiptir millj. kr. Og það er leyft enn þá að draga þessa tolla frá tekjum áður en skattur er á lagður. Ég hef ekki heyrt fyrr, að e. t. v. svaraði ekki kostnaði þessi tollaálagning af þessum sökum. En mér skilst gilda það sama um veltuskattinn, sem er 1% tollur á allan innfluttan varning.

Þá heldur hæstv. fjmrh. því fram, eins og hann mun hafa gert áður, að þessi skattur komi ekki niður á neytendum, heldur sé þetta viðbótarskattur á gróðafyrirtæki í verzlun og iðnaði. Þetta er mesti misskilningur hjá hæstv. fjmrh., og er ég raunar hissa á því, að hann skuli enn halda þessu fram, því að þetta mál hefur verið svo þaulrætt bæði á Alþ. og á fundum og í blöðum landsins.

Viðvíkjandi verzlun kaupmanna er það að segja, að ef það hefur reynzt mögulegt að leggja þennan skatt á verzlanir án þess að þær hækkuðu útsöluverð vara hjá sér, þá var vitanlega leikur einn fyrir verðlagningaryfirvöldin að ákveða minni álagningu hjá þessum verzlunum og þar með lægra vöruverð til almennings. En meðfram fyrir veltuskattinn hefur þetta ekki verið gert, og vöruverð hefur því verið hærra en það hefði verið, ef skatturinn hefði ekki verið á lagður. En sérstaklega verður það ljóst, að þessi kenning hæstv. fjmrh. um, að skattur þessi komi ekki niður á almenningi í landinu, er röng, þegar athugað er, hvernig verzlun er háttað í samvinnufélögum landsins. Yfirleitt hafa kaupfélög úthlutað arði til félagsmanna sinna fyrir hvert ár, í flestum tilfellum verulegum. En veltuskatturinn gerir það að verkum, að sú endurgreiðsla til félagsmanna af vöruverði minnkar verulega hans vegna og jafnvel hverfur alveg í sumum tilfellum vegna þessa skatts. Þetta verður því til þess í raun og veru að hækka vöruverðið sem veltuskattinum nemur, og sú verðhækkun kemur þyngst niður á þeim, sem stærstar fjölskyldur hafa fram að færa, og gildir að þessu leyti sama um veltuskattinn og um aðra tolla. Það er því alrangt, að þessi skattur lendi eingöngu á gróðafyrirtækjum. Það er víst ekki vafasamt, að það er einhvers staðar milli 30 og 50% af landsmönnum, sem hafa sín aðalviðskipti við kaupfélögin í landinu. Og þessi skattur og afleiðingar hans, ef ekki verður leyft að draga hann frá tekjum áður en skattur verður á þær lagður, lendir á öllu þessu fólki og með mestum þunga á þeim, sem minnsta gjaldgetu hafa, þ. e. þeim, sem flesta hafa á framfæri hjá sér.

Hæstv. fjmrh. telur, að ef brtt. mín yrði samþ., mundi það raska mjög fjárhagsáætlun ríkissjóðs á næsta ári. Vitanlega mundi þetta lækka nokkuð tekjur ríkissjóðs á næsta ári. Ég hef ekki gert mér grein fyrir, hve miklu þetta mundi nema. Hæstv. ráðh. segir, að frekar muni þörf á að auka tekjur ríkissjóðs á fjárl. en að minnka þær. En ég tel það bara mjög óeðlilega og varhugaverða braut að stefna inn á., að leggja tekjuskatt, tekjuskattsviðauka og stríðsgróðaskatt á útgjöld manna. Hæstv. fjmrh. gæti þá alveg eins fundið upp á því að flytja frv. um það, að leggja skyldi skatt á vörumagnstollinn og verðtollinn, því að það er enginn eðlismunur á því annars vegar og hins vegar því, sem hér á að gerast í sambandi við veltuskattinn, ef brtt. mín verður ekki samþ. Og það mætti raunar þá taka hver önnur útgjöld sem vera vill og með jafnmiklum rétti leggja tekjuskatt og stríðsgróðaskatt á þau, og þar væru náttúrlega möguleikar fyrir hæstv. fjmrh. til að ná einhverjum viðbótartekjum í ríkissjóðinn, meðan einhverjar eignir eru, sem hægt er að taka af mönnum á þann hátt. En ég held, að það ætti að fara aðrar leiðir en þessar, þegar ríkið vantar fé, aðrar en þær að leggja tekjuskatt og stríðsgróðaskatt á útgjöld manna, svo sem með því að gera betri gangskör að því en gert hefur verið að innheimta tekjuskatt og eignarskatt eftir gildandi l. Mikið af þessu kemur ekki fram við framtöl. Okkar nágrannaþjóðir hafa gert gangskör að þessu nú með því að láta fara fram eignaframtal og eignauppgjör til þess að ná þessum sköttum og til þess að byggja á því sín skattal. En hér er öfugt farið að. Hér virðist hæstv. ríkisstj. ekki hafa áhuga fyrir því máli þrátt fyrir sínar yfirlýsingar um væntanlega röggsemi ríkisstj. í þessum málum, sem fram komu, þegar ríkisstj. var mynduð. En í stað þess á að taka þennan nýja sið, að leggja tekjuskatt og stríðsgróðaskatt á þær tekjur manna, sem hafa verið teknar af þeim með veltuskatti. Má segja um þetta: Ólíkt höfumst við að, þegar þetta er borið saman við það, sem nágrannaþjóðir okkar gera nú til þess að ná tekjum í ríkissjóði sinna landa.