17.04.1946
Neðri deild: 114. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1720 í B-deild Alþingistíðinda. (2637)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Sigurður Thoroddsen:

Herra forseti. Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að heilbr. og félmn. tók á fundum sínum enga afstöðu sem slík til málsins. Nm. hafa allir óbundnar hendur um brtt., sem n. ræddi, og aðrar, sem kunna að koma.

Ég flutti hér við 2. umr. þessa máls brtt. við 4. gr. frv. um það efni, að hér í Reykjavík mættu vera tvö byggingarfélög verkamanna, og skyldu þau félög, sem nú störfuðu þar, öðlast viðurkenningu samkv. l. þessum. Þessi brtt. var felld við 2. umr. Og það kom fram þá, að hér væru helzt ekki nema tvö byggingarfélög verkamanna, sem þá væri helzt að ræða um. Nú flyt ég hér á þskj. 866 brtt. um það, að hér í Reykjavík megi vera frjálst að stofna byggingarfélög verkamanna. Þetta er í samræmi við anda l., að í Reykjavík megi vera eins mörg byggingarfélög og vera vill, ef aðeins nægilega margir menn eru í hverju þeirra. Hv. 4. þm. Reykv. sagði um þetta atriði, að það væri útrætt og búið að taka ákvörðun um það, en ég lít svo á, að hér sé um allt annað að ræða, því að brtt., sem felld var við 2. umr., var um það, að það mættu vera 2 byggingarfélög verkamanna í Reykjavík, en hér er um að ræða, að þetta skuli vera frjálst og að þau geti verið fleiri. Og hv. 4. þm. Reykv. sagði, að það væri útrætt um þetta frá sinni hálfu. Ég skil það vel, því að hann bætir ekki neitt um sínar gerðir með því að ræða um það.

Þá kem ég að brtt. á þskj. 856, um það að heimila ríkisstj. að endurgreiða toll af þeim innfluttum tilbúnum húsum, sem flutt verða inn á árinu 1946. Við þessa brtt. flytur svo hv. 2. þm. N.-M. brtt. um það, að sá hluti tollsins skuli greiddur, að því leyti sem hann er hærri en á því byggingarefni óunnu, er til húsanna þarf. Ég get vel fellt mig við þessa till. hv. 2. þm. N.-M. og tel hana alveg sjálfsagða.

Hv. 4. þm. Reykv. gat þess, að skipuð hefði verið n. til þess að athuga þessi erlendu tilbúnu hús. Þetta er rétt, hæstv. félmrh. skipaði n. fyrir einum eða tveimur mánuðum til þess að athuga þetta mál. Þessi nefndarskipun kom of seint. Það er á annað ár síðan farið var að tala nm að flytja inn þessi hús. Og hvenær þessi n. skilar áliti, er mér ekki kunnugt um. Hún hefur ekki gert það enn. En hv. 4. þm. Reykv. vildi láta bíða að veita þessa heimild, þar til n. hefði skilað áliti eða þar til þingið kemur saman í haust. Ég sé nú ekki þá ástæðu, að þessi brtt. geti ekki orðið samþ. nú, því að hér er aðeins um heimild að ræða fyrir ráðh., og honum er í sjálfsvald sett, hvort hann notar heimildina eða ekki. Og að sjálfsögðu gæti hann beðið eftir áliti n., ef hann vildi, með það að gera eitthvað í málinu. Ég tel sem sagt miklu réttara, að heimildin væri fyrir hendi, svo að þeir menn, sem nú eru að reisa þessi hús, eins og ég gat um við 2. umr., gætu notið þeirra hlunninda strax, þegar n. skilar áliti sínu. Ég vildi að hv. dm. athuguðu þetta mál og fylgdu þessari brtt. minni.

Viðvíkjandi öðrum brtt., sem fram eru komnar, skal ég aðeins minnast á þá brtt., sem er á þskj. 864, 1. liður, um það að takmarka fjölda félagsmanna, sem þurfi að vera í byggingarfélagi. Ég skal taka það fram, að ég mun fylgja þeirri brtt. Einnig mun ég fylgja 3. brtt. á sama þskj., eða öllu heldur þeirri skrifl. brtt., sem hv. þm. Snæf. flytur um það, að tilbúin hús verði um 500 teningsm. eða því sem næst. Það getur verið slæmt að binda þetta við almennt teningsmetramál, og er betra að hafa dálítið svigrúm, svo að hliðra megi til, ef því er að skipta.