17.04.1946
Neðri deild: 114. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1729 í B-deild Alþingistíðinda. (2654)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Hallgrímur Benediktsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umr. um þetta mikilsverða mál. Það hefur verið rætt um það frá ýmsum hliðum, bæði í sambandi við húsaleigulög o. fl., svo að menn munu hafa kynnzt öllum viðhorfum málsins. En það voru ummæli, sem féllu hjá hv. 2. þm. Reykv., sem ég get ekki látið hjá líða að leiðrétta. Hann sagði, að viðskiptaráð leyfði ekki frjálsan innflutning á byggingarefni. Þetta er ekki alls kostar rétt. Með járn og sement hefur það t. d. verið þannig, að innflutningur hefur verið algerlega frjáls, en staðið hefur á skipakosti, þótt nú hafi nokkuð úr rætzt. Ég vil benda á þetta til að sýna, að það er ekki allt fengið með því að stofna til stórra félaga, ef aðrir möguleikar eru ekki fyrir hendi. Þeir, sem hafa haft með þetta að gera, hafa reynt að greiða úr eftir getu. Og þegar rætt er um byggingu íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum, verður að gæta nokkurrar hófsemi, þannig að ekki sé um of dregið frá framleiðslunni. Fyrir viku voru hér 3 skip á höfninni, þar af eitt sementsskip, og reyndist mjög erfitt að ná úr því farminum. Þetta sýnir, að þótt við hér á Alþingi gerum stófelldar áætlanir, þá verðum við að hlíta þeim aðstæðum, sem fyrir hendi eru.

Ég ber ekki á móti því, að þörf sé á að bæta úr húsnæðisvandræðunum, en kröfurnar í því efni verða að samrýmast getunni. Þá vil ég benda á, að á meðan dýrtíðin er svo gífurleg, er sagan ekki öll sögð með því, þótt við fengjum nóg efni. Það verður einnig að vera til nægur vinnukraftur, svo að ekki horfi til stórvandræða fyrir þá, sem ætla að byggja. Ég hef hér fyrir framan mig öruggar tölur um, hvernig byggingarkostnaður skiptist. Hagstofan hefur reiknað út, að helmingur byggingarkostnaðar sé vinnulaun. Þó er allur akstur talinn með efniskostnaði, en ætti í rauninni að teljast með vinnu. Þá er ekki heldur reiknað með neinni eftirvinnu, en venjulega er unnin 1 klst. í eftirvinnu. Frá því þetta er reiknað út, hefur byggingarkostnaður hækkað um 10% samkvæmt upplýsingum frá byggingarmeisturum, og eru það eingöngu vinnulaun, sem orsaka þá hækkun. Þess vegna endurtek ég það, að þegar við komum af stað byggingarframkvæmdum í stórum stíl, þá verðum við jafnframt að tryggja það, að byggingarnar verði ekki óeðlilega dýrar vegna skorts á vinnuafli. Mér er kunnugt um, að það er algengt hér í Reykjavík, að byggingarkostnaður húsa fer langt fram úr áætlun, vegna þess að ekki er hægt að vinna að byggingunni af fullum krafti. Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að allt kapp verður lagt á að flytja inn efni. Nokkur skortur er nú á timbri, en engin þurrð á sementi og steypustyrktarjárni. Ég veit til þess, að SÍS og fleiri aðilar hafa tryggt sér sement frá Noregi og Danmörku, alls um 9 þús. tonn, en það er takmarkað, sem þessi lönd geta framleitt, vegna kolaskorts.

Ég vildi gefa þessar skýringar, en mun ekki ræða þetta nánar, enda hef ég áður komið inn á þetta efni í sameinuðu Alþingi í sambandi við húsaleigulögin.