21.03.1946
Neðri deild: 92. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í B-deild Alþingistíðinda. (2686)

181. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Pétur Ottesen:

Áður en þetta frv. var lagt hér fram á Alþ. var það sent til umsagnar stjórn Búnaðarfélags Íslands. Stjórn Búnaðarfélagsins tók frv. til athugunar og lagði til í bréfi til nýbyggingarráðs, dags. 7. febr. s. l., að gerðar væru nokkrar breyt. á frv., einkum þó varðandi aðalatriði frv. Sérstaklega gilti þó þetta um þau atriði, sem fólu í sér veruleg hagsmunaatriði gagnvart þeim, sem eiga að njóta góðs af þessum l. Bréf þetta var svo sent landbn. Nd. ásamt frv., og mér til mikillar ánægju sé ég, að í þeim brtt., sem hér liggja fyrir, hefur landbn. tekið þær till., sem í bréfinu felast, til greina í öllum aðalatriðum, enda eru till. Búnaðarfélags Íslands meginkjarni þeirra brtt., sem n. ber hér fram. Það er aðeins í einu atriði, sem n. hefur vikið frá um þá tilhögun. Það er viðvíkjandi 2. gr. frv. Stjórn Búnaðarfélagsins lagði til, að nýbýlanefnd starfaði áfram eins og er samkv. gildandi l. Þó hefur landbn. í till. sínum tekið upp þá skipun nýbýlastjórnar, sem Búnaðarfélagsstjórnin lagði til, að öðru leyti en því, að landbrh. skipar einn mann í stjórnina, en samkv. till. Búnaðarfélagsstjórnar átti það að vera gert eftir tilnefningu Búnaðarfélags Íslands. Aðeins þetta er fellt niður í till. landbn., enda er það svo, að þær breyt., sem landbn. ber fram við frv., eru til mjög mikilla bóta á frv., þótt það að sjálfsögðu geti enn þá staðið til bóta, sem ekkert er undrunarvert, og er vel undir það tekið af frv. frsm. n. að taka til athugunar fyrir 3. umr. þær breyt., sem hér hafa verið bornar fram, og þær bendingar, sem fram hafa komið til breyt. á frv. nú við þessa umr. Í bréfi því, sem stjórn Búnaðarfélagsins sendi í sambandi við athugun á þessu frv. og frv. um Ræktunarsjóð Íslands, leggur stjórn Búnaðarfélagsins áherzlu á það, að þessi frv. bæði geti fengið afgreiðslu á þessu þingi, því að stjórnin líti svo á, að þau bæti mjög úr lánaþörf landbúnaðarins og komi að því leyti að góðum notum fyrir hann. Ég vildi taka þetta fram, af því að ég varð þess ekki var, að frsm. landbn. gæti um það. Að öðru leyti skal ég ekki blanda mér inn í þær deilur, sem farið hafa fram um þetta mál. Þó vil ég aðeins benda á nokkur atriði í sambandi við það, sem hér hefur verið rætt. Ákvæði eru um það, að þegar eigandi og ábúandi í byggðarhverfi vill selja býli sitt, þá hafi Byggingarsjóður forkaupsrétt gegn kostnaðarverði að frádreginni fyrningu o. s. frv. Þetta gildir jafnt hvort sem um er að ræða eiganda nýbýlis eða ábúanda í byggðarhverfi. Í þessum ákvæðum eru settir tveir kostir fyrir sölu. í fyrsta lagi á viss aðili forkaupsrétt. Í öðru lagi má ekki selja jörðina fram úr ákveðnu verði, sem markað er í þessum gr. Í 7. kafla er gerð sú frávikning frá þessu ákvæði, að ef hús eða eign, sem hér um ræðir, er ekki í veðböndum við Byggingarsjóð, þá geti viðkomandi sveitarstjórn skotizt fram fyrir Byggingarsjóð og öðlazt forkaupsrétt. Ef um veðbönd er að ræða, kemur sveitarstjórn ekki til greina sem forgangsaðili, þá hefur Byggingarsjóður forkaupsréttinn. Ég vil í þessu sambandi benda á, að ég get tekið undir það, sem kom hér fram áðan, að það skýtur skökku við, að á sama þingi, þegar verið er að upphefja hliðstæð ákvæði, þá skuli vera tekin upp ákvæði sem þessi. Hv. frsm. gat um, að það stæði að því leyti sérstaklega á, að eign viðkomandi manns væri ekki óskert, í þessu efni á hann að eiga hús og ræktun, en hins vegar væri grunnurinn eign ríkissjóðs. En í þessu falli er afnotarétturinn af grunninum tryggður viðkomandi manni. Og það er mjög algengt, að menn hafi t. d. erfðafesturétt til ákveðins tíma á löndum og geti selt þennan rétt, náttúrlega innan þeirra takmarkana, sem erfðafestan nær til, alveg eins og sína' eigin eign á slíku landi. En slíkur erfðafesturéttur leggur engar skyldur á herðar mannsins, því að löggjöfin tekur ekkert tillit til þeirra viðskipta. Og eftir þessu ættu þá tveir aðilar að hafa forkaupsrétt að fasteigninni, ábúandi og sveitarfélagið. Ég vil nú aðeins spyrja, hvort þetta stangist ekki á, þar sem tveir aðilar eiga sama réttinn. Ég tel, að svo sé, og legg því til, að landbn. athugi þetta sérstaklega.

Þá tel ég rétt, að l. verði gerð þannig úr garði, að menn fái hagkvæm lán, svo að þeir sem fyrst geti eignazt jarðir þær, er þeir taka að sér, því að það er ríkt í eðli manna að vilja eiga jarðir sínar sjálfir. Að sjálfsögðu mætti fara að einhverju leyti eftir efnum og ástæðum, en ég tel þetta nauðsyn, til þess að menn leggi verulega rækt við búskapinn.

Ég ætla þá ekki að segja meira að sinni, en vona, að d. taki þessar aths. til íhugunar. Þessi löggjöf er mjög þýðingarmikil og því áríðandi, að hún mæti skilningi.