16.04.1946
Efri deild: 108. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1753 í B-deild Alþingistíðinda. (2753)

172. mál, nýbyggingar í Höfðakaupstað

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Það liggja hér fyrir tvær brtt. við frv., og er önnur þeirra frá hv. þm. Dal., sem er ekki viðstaddur. Hann hreyfði í n. nokkuð svipuðu því, sem hann hefur nú borið fram hér, þó ekki eins og hann hefur orðað brtt., heldur hreyfði hann í n., að hann mundi telja frv. aðgengilegra, ef ákveðið væri, að á ári skyldi verja 1 millj. til þessara hluta. En hann hefur nú horfið frá því og ber fram brtt. um, að þetta skuli vera eftir því, sem fé er veitt í fjárl. Ég veit ekki, hvort það getur orðið til nokkurs gagns að samþ. þessa brtt. Ef sagt er í frv., að verja megi allt að 5 millj. kr., eftir því sem fé er veitt til þess í fjárlögum, skilst mér, að eiginlega hafi fjárveitingarvaldið það á valdi sínu, hvort yfirleitt er ráðizt í þetta eða ekki. Það er ekki víst, að það geri það, því að hér er lánsheimild til stj., og ég sé ekki vel, hvernig byrja á á fyrirtæki eins og þessu, nema vita það fyrir fram, hvort fé sé fyrir hendi til þess að ráðast í það, því að það getur orðið mesta fjársóun að byrja á því og hætta við það, áður en það getur orðið að gagni. Sýnist mér því þessi brtt. fara gróflega nærri því að gera málið að engu.

Hin till. er frá hv. 1. þm. Eyf., í samræmi við fyrirvara hans, og er það sama till. og felld var í Nd., um að tryggja hreppsnefndinni meðstjórn þessa fyrirtækis. Nú er þetta gert í frv. óbreyttu, því að hreppsnefndin á að tilnefna einn mann í nýbyggingarnefnd, og auk þess er það vitaskuld engan veginn útilokað, að annar maður eða fleiri úr hreppsnefndinni verði í þessari n. Mér er sagt, að svo muni verða, og hefur hún þá a. m. k. góða íhlutun um þetta. En annars sýnist mér það vera einsætt og er alveg eindregið með því, að framkvæmdir eins og þessar verði að vera á valdi sérstakrar n., sem hefur sérstakan áhuga á því að framkvæma þessa till. Það er ekki hægt að fela hreppsnefndinni að hafa afskipti af þessu umfram það, sem henni hér er ætlað. Hv. 1. þm. Eyf. sagði, að þetta væri sovét, sem sett væri upp hér. Ég sé ekki, að þessi n. breytist neitt við það að fá rússneskt nafn. Þetta er n. mjög íslenzk og skipuð á líkan hátt og nefndir eru skipaðar, eftir tilnefningu ákveðinna aðila og að lokum af ráðherra, án tilnefningar. Þetta er sá venjulegi máti, hvort sem það heitir sovét eða ekki. Hv. þm. sagði, að sovétsvipurinn kæmi af því, að hér væru völdin tekin af venjulegum héraðsvöldum. Þetta er mjög takmarkað verkefni, sem lýtur einkum að því að annast nýja löggjöf. Þar að auki á þessi n. að leggja niður öll sín völd í árslok 1951 og afhenda venjulegum sveitaryfirvöldum þetta verk. Ég sé ekki, að það sé neitt athugavert við þetta út af fyrir sig í grundvallaratriðum. Hitt er annað mál, hvort mönnum þykir rétt að ráðast í þetta. En naumast verður í það ráðizt, nema skipuð verði alveg sérstök stjórn í þessu skyni.

Hv. þm. Barð. hreyfði nokkrum andmælum við frv., einkum við 3. gr., og sagðist ekki vita, hvað þetta ætti að þýða, því að hér væri ekki annað en sem mætti gera samkv. öðrum lögum.

Það er fyrir það fyrsta ekki. Ég veit ekki til, að l. um skipulagningu í kaupstöðum eigi að sjá um að koma á skipulagi í byggðum landsins, heldur gera uppdrætti og vera til hliðsjónar. En ég skil þetta svo, að hér sé um meira að ræða. Ef byggja á upp kauptún, verður að byggja eftir skipulagningu, sem gerð er, og verður það þá miklu meira en skipulagsnefnd getur annað. En annars skildi ég satt að segja ekki, hvað hv. þm. átti við, því að í 3. gr. er alls ekki verið að tala um, að hér sé verið að setja upp eitthvað, sem annars væri ómögulegt að gera. Það er aðeins verið að tilgreina, hver séu störf þessarar n., og eru þau upp talin hér í gr. En þar sést einnig, að ýmsir aðrir aðilar mundu fjalla hér um. Hér er talað um verkefni n., og það, sem framkvæmt er eftir öðrum l. á ýmsum stöðum, kemur ekki málinu við.

Þá talaði hv. þm. Barð. um 3. b. að reisa íbúðarhús í samráði við nýbyggingarráð. En mér virtist hann hlaupa yfir niðurlagið: til þess að selja þau fullsmíðuð. Það er ekki meiningin, að n. eigi að vera hér húsasmiður áfram, heldur byggi hún húsin og selji þau síðan. — Ég skal ekki fara frekar út í það, sem hv. þm. Barð. sagði um þetta. Ég sé aðeins ekki, að það sé nokkuð athugavert við 3. gr. Mér er ekki kunnugt um, þar sem hann talaði um stóra leigu á lendum ríkisins þarna. Eftir því sem ég veit bezt, hefur leigan verið lögð undir þá gömlu byggð, sem þarna hefur verið, en jörðin Spákonufell mun vera alveg laus enn þá.

Það mætti náttúrlega ræða dálítið um það, sem þeir hv. þm. Dal. og hv. 1. þm. Eyf. töluðu um feitu og mögru kýrnar. En ég ætla ekki að fara neitt út í það. Ég vil aðeins segja það, að satt að segja hef ég eiginlega skilið allar þessar ráðstafanir um nýbyggingarráð og nýsköpun atvinnuveganna — þó að það sé kannske misskilningur hjá mér — sem eins konar Jósefs hlutverk. Og ég er með því, vegna þess að ég hef litið svo á, að með þessu sé verið að reyna að taka afrakstur góðu áranna og geyma hann til erfiðu áranna í þeim hlutum, sem skynsamlegast verði að teljast að geyma þann afrakstur í. Hitt getur svo vel verið, að hv. 1. þm. Eyf. telji þennan afrakstur betur geymdan á annan hátt.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar, en lýsi yfir því, að ég mun greiða atkv. móti báðum þessum brtt.