16.04.1946
Efri deild: 108. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1756 í B-deild Alþingistíðinda. (2758)

172. mál, nýbyggingar í Höfðakaupstað

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hv. frsm. skildi ekki ræðu mína, en maður skyldi nú ætla, að hann væri inni í málinu, og ég vil mælast til þess, að hæstv. fjmrh. gefi mér og hv. þd. upplýsingar.

Það er talað um 5 millj. kr. fjárveitingu til þessa fyrirtækis, og því vil ég spyrja: Er ætlazt til, að fyrir utan þessa fjárhæð sé veitt í ofanálag fjárhæð, sem veitt er til venjulegra bygginga? Ef hins vegar önnur lán verða veitt og þær upphæðir notaðar ofan á þessar 5 millj. kr., er þá heimilt að veðsetja eignir, ef þessi lán verða tekin? Hvernig er þetta hugsað?

Í öðru lagi benti ég á viðvíkjandi 2. gr. frv., hvort það sé ekki nauðsynlegt, er farið er út í svona áform, að setja sérstakan framkvæmdastjóra. Skipulagsstjóri fer ekki að standa frammi á Skagaströnd, en einhver verður að stjórna þessu 5 millj. kr. fyrirtæki. Mér sýnist, að óhjákvæmilegt sé að setja hér sérstakan framkvæmdastjóra. Skipulagsstjóri er til þess að skipuleggja, en ekki til þess að hafa framkvæmdastjórn á hendi. Það þarf að hafa sérstakan mann til þess að sjá um byggingaframkvæmdir, útvega efni og gera samninga um sölu húsa o. s. frv. .

Ég vil vænta, að n. athugi þetta og hvort ekki sé rétt að gera breyt. á frv., þannig að framkvæmdastjóri verði settur.

Hv. frsm. sagði, að ég hefði ekki skilið 3. gr. frv., en ég er nú hræddur um, að hann hafi sjálfur ekki verið svo skilningsgóður þar. Hér vantar skilgreiningu á, til hvers á að nota þessar 5 millj. kr., og ef þeim verður dreift niður á þessa 4 liði, verður lítið eftir til þess að nota til vatnsveitu og rafmagnsstöðvar. Og ef byggja á tugi húsa, hvað verður þá eftir í götur? Vantar því hér mikið. Eins og að ekki mætti byggja, fyrr en tryggt væri, að húsin seldust aftur. Auk þess vantar heimild um lántöku við sölu húsanna. Mér finnst, að málið vanti undirbúning, og eins og það er nú í pottinn búið, þá er hætt við, að það verði eins og snjóbolti, sem veltur um landið og verður svo stór að lokum, að hann velti um ríkissjóðnum. Þetta er nokkuð mikið út í bláinn, og lítur helzt út fyrir, að taka eigi úr skýjunum heila borg.

Ég vil, vegna þess að ekkert hefur komið fram í frv. vegna lána, bera síðar fram brtt. í þá átt, að ríkisstj. sé leyft að tryggja sér lóðarréttindi, og að verðhækkunargjöld, sem kynnu. að verða á þeim, renni í ríkissjóð.

Hv. 1. þm. Eyf. mælti það ómaklega, að tryggingafrv. hefði fengið óþinglega meðferð. Ég mótmæli alveg þessari staðhæfingu,, hv. þm., því að málið hefur legið í þingnefnd síðan í desember.