16.04.1946
Efri deild: 108. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2026 í B-deild Alþingistíðinda. (2848)

104. mál, atvinna við siglingar

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef því miður ekki getað fylgt samnm. mínum um afgreiðslu þessa máls. Það hefur þó ekki alltaf orðið mér hryggðarefni, þó að ég skilaði sérstöku nál. í n. En í þetta skipti þykir mér ekki sársaukalaust að fá ekki meiri hl. n. á mína skoðun í þessu máli, af því að hér er um svo alvarlegt mál að ræða, að ég fullyrði, að þeir hv. þm. sumir, sem greiða atkv. um það, hafa ekki á nokkurn hátt gert sér grein fyrir því, hvað hér er á ferð. Þeir hafa ekki gert sér grein fyrir því öryggisleysi, sem hér er verið að skapa, ekki aðeins fyrir líf okkar duglegu sjómanna, heldur og einnig eigur landsmanna. Ég þarf ekki að rekja mörg dæmi til þess að sýna fram á, að það hafa komið fyrir hin hörmulegustu slys á mótorbátaflotanum einmitt vegna þess, að það hafa ekki verið þeir menn við vélarnar, sem æskilegt hefði verið að hafa við þær. Það hafa verið menn við vélarnar, sem hafa brugðizt á síðustu stundu, t. d. á Kristjáni á sínum tíma, sem fyrir vélarbilun rak út á haf, og enginn er kominn til að segja, að ekki hafi verið því að kenna, að nægilega þekkingu á vél skorti um borð í skipinu.

Það er vitanlegt, að þegar verst er veður og mest hættan, þarf einmitt langmest á því að halda, að þetta atriði sé öruggt, þ., e. að það sé örugg vél í skipinu, sem er aflgjafinn, og svo öruggur vélamaður til að stjórna henni. Og það er kannske táknrænt hér nú, að þeir menn, sem á síðustu stundu eiga að taka ákvörðun um það atriði, forðast stólana til þess að geta stungið höfðinu í sandinn, því að þeir halda, að þeir beri ekki eins mikla ábyrgð á þessu máli, ef þeir hlusta ekki á umr.

Ég vil benda á það, að það var auðvelt að ná sama marki sem hér er stefnt að með miklu aðgengilegri og viturlegri aðferð. Og það er langmest fyrir till. einstakra manna, sem ekki eru í n., en nm. hafa sýnt fullan skilning á málinu, heldur annarra hv. dm., sem hafa sótt þetta mál með miklu offorsi. En þeir eru ekki færir um að bera ábyrgð á þeim hörmungum, sem það kann að hafa í för með sér, ef þetta frv. verður samþ., og þeim erfiðleikum vegna þess, að hér er verið að svipta gersamlega grundvellinum undan þeirri þekkingu, sem þarf að vera í þessu efni á flotanum.

Ég vil ekki láta hjá líða að benda á þetta mál og hverjir verði að taka afleiðingunum. Ég vil einnig í sambandi við þetta mál benda á, að sterk mótmæli hafa komið frá þeim mönnum, sem mesta hafa þekkinguna, eins og frá Farmannasambandinu, og vara þeir við þeirri hættu, sem hér er um að ræða. Þá hafa komið fram mótmæli frá Vélstjórafélagi Íslands, sem ekki byggir á eigin hagsmunum, heldur með fullum rökum fyrir því, að hér sé um ranga leið að ræða. Þeir mótmæla harðlega 11., 12., 13., 14. og 15. gr., og það eru þær gr., sem ég álít, að mest hætta liggi í að samþ. af frv. Það er sýnt, að það er ekki aðeins búið að hlunnfara með umreikningi hö. svo stórkostlega, að vélarnar, sem nú eru taldar 250 hö. eru í raun og veru 275 hö.

Það munu vera um 63 undanþágur, sem kæmu til greina, ef sú leið væri tekin, 34 undanþágur við mótorvélar frá 150 og allt að 440 hö. og munu 18 af þessum undanþágum vera veittar vélstjórum, sem lokið hafa prófi á minna mótornámskeiði Fiskifélags Íslands, og undanþága til 16 manna, sem hafa nám, en nú eiga að fá réttindi samkv. þessum l. Það er þess vegna augljóst, að langsamlega mestur hl. þessara undanþága eru undir 150 hö. og þess vegna er algerlega þarflaust að hlaupa að því, sem hér er verið að gera. Það er enn fremur viðbúið, að það mundi mikið minnka aðsókn að mótornámskeiðum, ef menn þyrftu þess ekki endilega að fara á þessi námskeið og hugsa sem svo, að það væri miklu auðveldara að fá réttindin án þess að leggja það á sig með þeim erfiðleikum, sem það hefur í för með sér. Það eina, sem við gætum gert til þess að vinna á móti því, er að nota undanþágu, en eins lítið og mögulegt er, einmitt til þess að svæfa ekki áhuga ungra manna til þess að ljúka námi og fá sín réttindi. Þá hefur komið fram mótmælaskjal, þar sem bent er á sömu hættuna og þar sem því er algerlega mótmælt. Þar segir, að nú í vetur hafi verið 47 nemendur á hinu meira mótornámskeiði Fiskifélags Íslands. Og er ekki útlit fyrir, að skipum með vélar yfir 150 hö. fjölgi svo á næsta ári, að ekki sé hægt að fullnægja þeim kröfum. Auk þessara mótmæla hafa komið frá hv. Nd., sem hefur gengið frá þessu frv. eins og það er nú, og hv. meiri hl. .sjútvn. þeirrar d. tilmæli, sem hafa komið til mín sem form. n., um það að fá veigamiklar breyt. samþ. hér í Ed., meðal annars við 55. gr. og 47. gr., og eru þær hvorki meira né minna en í 12 liðum, sem þeir óska eftir og segja, að nauðsynlegt sé að setja inn, til þess að breyt., sem hv. Nd. setti, séu ekki tóm vitleysa. Þannig er gengið frá málinu í Nd., ég vil biðja hv. dm. þessarar d. að athuga þetta. Og það er einn af sjútvnm. Nd., sem sendir þessi plögg, og í því trausti, að Ed. láti ekki viðgangast að samþ. frv. eins og það er. Og þó að ekkert annað hefði komið fram gegn því, að frv. yrði endanlega samþ. eins og það er nú, þá er þetta nægileg ástæða til þess, að hv. þm. kynntu sér þetta mál betur, en þeir virðast ekki mega vera að því að hlusta á rök í málinu.

Ég vil leyfa mér að benda á, að samkv. því, sem lagt er til á þskj. 644, þá hefði verið gerlegt að gera þær breyt. að hækka réttindin frá 300 í 600 hö. heldur en upp í 1200 hö. gufuvélstjóranna, sem byggist á því, að takmörkin í þessu bóklega og verklega námi eru sett við 300 hö. nú.

En 600 ha. takmörkin eru frá þeim tíma, sem ekki þekktust fiskiskip yfir það. Þess vegna er millibilið milli 600 og 1200 ha. af því, að viðkomandi menn hafa starfað á þeim skipum, og bóklega og verklega námið er það sama fyrir alla vélstjóra, sem hafa skip yfir 300 hö.

Hins vegar er mikill munur á bóklegu og verklegu námi fyrir þá, sem hafa með skip fyrir neðan 300 ha. vél að gera. Ég hefði fellt mig við þessa breyt. og sérstaklega með tilliti til þess, að nú er von á nýjum togurum með stærri vélar eða um 1200 hö. Ég tel hættu þar enga, vegna þess að námið er þar fyrir hendi. En ég get ekki fellt mig við, að hv. þm. samþ. hér á Alþ., að mönnum, sem hafa verið aðeins vélstjórar á trillubátum með 16 ha. vélar í eitt ár og stjórnað henni á sitt eindæmi og fái 108 stunda kennslu verklega og 8 daga bóklega fræðslu, verði gefinn réttur til þess að fara með 200 ha. vélar og eiga þá um leið að bera ábyrgð á lífi þeirra, sem þar eru um borð. Ég get ekki fallizt á, að þetta var rétt. Það má segja, að það detti engum manni í hug að taka slíkan mann til þessara starfa, þá er það líka því síður viðeigandi, að Alþ. fari að gefa út heimild til þess að slíkur maður geti eignazt slíka heimild.

Ég lít svo á þetta mál, að það þurfi að endurskoða alla löggjöfina um nám við vélgæzlu, hvort sem um gufuvélar eða mótorvélar er að ræða, og samræma kröfurnar alveg við það nám, sem sett hefur verið fyrir þá menn, sem hafa réttindi til þess að fara með 300 ha. vélar. Ég álit, að það eigi að sameina kröfur um nám til vélgæzlu á öllum vélum, sem eru yfir 300 hö., og það eigi ekki að hverfa frá kröfum um nám, sem nú eru í gildi, heldur auka þær kröfur. Ég get hins vegar fallizt á, að heppilegra sé, að í staðinn fyrir 4 ára smíðanám megi koma styttra og að það megi t. d. með 12 mánaða sérstöku námskeiði, þar sem beint væri eingöngu að sérstakri meðferð véla. Ég er tilbúinn að taka upp samvinnu um þetta atriði. En ég verð ekki með í því að samþ. l., sem ég veit fyrir fram, að verða til þess að skapa sorg og erfiðleika fyrir okkar þjóðfélag, þó að slíkt komi harðast niður á sjómannastéttinni og þeirra nánustu. Og það á sama tíma sem við eyðum mörgum millj. kr. til byggingar björgunarskútu til þess að hirða bátana, sem rekur um hafið af því að öllu öryggi hefur verið svipt frá þeim. Ég vil ekki verða með í þeirra leik, sem ætla að gera það, en eru ekki færir til þess að standa undir þeirri ábyrgð, sem þeir taka á herðar sér með þessu máli. Ég vil ekki af þessari ástæðu þurfa að skapa minningarathöfn á Alþ., því að ég mundi ekki geta varið það fyrir sjálfum mér, þegar ég stæði upp í virðingarskyni við hina látnu, að orsökin að slíkum hörmungum væri bein afleiðing af gerðum okkur alþm., þegar við samþ. þau l., sem okkar sjómenn eiga að fara eftir.

Ég hef bent hér á aðra leið í þessu máli, þá leið, sem kemur fram í brtt. minni á þskj. 854, þ. e., að ráðh. sé heimilt, þegar skortur er á vélamönnum, að veita þeim mönnum, er skipaskoðun ríkisins telur færa til þess, leyfi til þess að gegna þessu starfi, þó að skorti nokkuð á þekkingu þeirra. Og það eftir að skipaskoðun ríkisins hefur leitað umsagnar útgerðarfélagsins um það, að réttindamaður sé ekki fyrir hendi. Þá skal einnig fylgja vottorð um kunnáttu þessa manns. Og ég mótmæli því, að þetta sé ekki heppilegri leið, og hún er alls ekki erfiðari. En svo vil ég, að gerðar séu róttækar ráðstafanir til þess, að ríkisstj. skipi 3 manna n. til þess að endurskoða l. og breyta þeim eins og nauðsynlegt er vegna hagsmuna okkar og öryggis. Ef öryggið á hafinu er ekkert, er ekkert öryggi til í landinu. Og ég er undrandi yfir því, að hæstv. ríkisstj., sem berst fyrir þessu máli, skuli ekki fyrir löngu hafa séð að sér og stoppað það.

Þær breyt., sem ég legg til að gerðar verði, vona ég, að hv. d. athugi, og ég trúi ekki fyrr en ég tek á því, að svo verði ekki gert og Alþ. taki þá á sig þá ábyrgð að fara með málið eins og hér er gert ráð fyrir.

Hv. frsm. sjútvn. sagði, að langur starfstími væri sá skóli, sem menn ættu helzt að ganga í. Og er ég honum sammála í því. En er ekki hægt að krefjast þess, ef mínar till. eru samþ., að það verði ekki veitt undanþága nema, til þeirra manna, sem hafa langan starfstíma og geta sýnt það, að þeir hafi unnið þann tíma við vélgæzlu? Ég vil svo alvarlega vænta þess, að mínar brtt. á þskj. 854 verði samþ.