26.04.1946
Efri deild: 114. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2038 í B-deild Alþingistíðinda. (2865)

104. mál, atvinna við siglingar

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Eins og kom fram við 2. umr. þessa máls, hafa sjútvn. borizt brtt., sem óskað var, að hún flytti við frv., en þær komu svo seint, að ekki var hægt að taka þær til athugunar áður en nál. var gefið út. Ég hef svo kallað n. saman og lagt þessar brtt. fyrir hana. En meiri hl. n. hefur ekki fallizt á að bera brtt. fram, mest af þeim ástæðum, að hann taldi, að hætta væri þá á því, að frv. næði ekki fram að ganga á þessu þingi. Hins vegar er meiri hl. n. ekki á móti 1. og 2. tölul. í brtt. minni hl., sem er eingöngu leiðrétting á frv. Ég hef fengið þær upplýsingar hjá Vigfúsi Einarssyni skrifstofustjóra í atvmrn., að ráðuneytið telji ekki fært að veita skírteini út á frv. eins og það er á þskj. 644, nema þessar breyt. komi inn í frv., vegna þess að hann gæti ekki greint á milli þess, hvenær þessir menn ættu að hafa réttindi samkv. l. og hvenær ekki, þar sem ekki er samræmi í þessu gegnum öll lögin. Viðvíkjandi 3. lið brtt. 955 er það þannig, að eins og nú er hefur ráðuneytið ekki rétt til að veita neina undanþágu, en það er vitanlegt, að þó að þetta frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir, þarf enn víðtækari undanþágu, og yrði það þá að gerast án heimildar. Vigfús Einarsson upplýsti einnig, að ráðuneytið mundi ekki sjá sér fært að gera það, svo framarlega sem þessi brtt. væri felld, því að það væri viljayfirlýsing þingsins um það, að undanþágu ætti ekki að veita, og stefndi það þá flotanum í hættu, þangað til gefin væru út bráðabirgðal. eða þangað til þingið kæmi saman aftur til að breyta l. Ég legg því til, að þessar brtt. verði samþ.