23.04.1946
Efri deild: 111. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2050 í B-deild Alþingistíðinda. (2902)

31. mál, menntaskólar

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Mér kom það alveg á óvart, að það skyldi koma fram slík till. sem þessi við þetta frv., vegna þess að ég tel, að það sé mál, sem ekki sé rétt að blanda saman við frv. um menntaskóla, og mér finnst satt að segja ákaflega óviðfelldið að gera það. Ég vildi leggja áherzlu á og mælast til við hv. flm., að hann vildi taka þessa till. aftur og ræða þetta mál sér á öðrum vettvangi, t. d. sem sérstaka þáltill., hvar skólinn eigi að standa, ef honum er það áhugamál, að þingið fjalli um það og taki um það ákvörðun.

Það er svo, að ég tel, að það sé búið að ákveða menntaskólanum stað. N., sem hefur haft þetta mál í undirbúningi, hefur þegar gert sínar ákveðnu till. um, hvar skólanum skuli valinn staður, og er á einu máli, og þessi till. hefur verið samþ. af ráðuneytinu, og bæjarráð hefur og byggingarnefnd fyrir sitt leyti afsalað sér forkaupsrétti á því landi, — sem hér er um að ræða, þ. e. Laugarnesi. Nú hafa komið til greina ýmsir aðrir staðir og þá fyrst sá staður, sem skólinn stendur á. Ég skal koma að því seinna. Það hefur orðið álit þeirra manna, sem um þetta hafa fjallað, að það væri mjög erfitt í framkvæmd, ef skólinn ætti að vera á sama stað, og hefur þá verið hugsað um ýmsa aðra staði en þennan, sem nú hefur verið ákveðinn, og hefur ekki tekizt að finna annan heppilegri stað fyrir skólann. T. d. minntist hv. þm. á einn stað, sem hann taldi, að mundi verða minna út úr í framtíðinni en þessi staður, og það er hér suður á Fossvogshálsi, nálægt því, sem golfskálinn stendur nú, en mér hefur skilizt á hv. þm., að það mundi vera miklum erfiðleikum bundið að fá þennan stað fyrir skóla.

Hvað þennan stað snertir, sem skólinn stendur á nú, þá er það rétt, að ákaflega margir hafa óskað þess, að hann gæti staðið þar áfram. Þetta er tilfinningamál fyrir mörgum, sem eðlilegt er, af því að við þennan stað og þetta hús eru tengdar mjög sögulegar minningar hjá ákaflega mörgum, sem í þessum skóla hafa verið. Ég var einn þeirra manna, sem af tilfinningalegum ástæðum hefði mjög kosið, að skólinn hefði verið á sama stað, og þótti nokkuð sárt, þegar ég heyrði, að á því voru miklir erfiðleikar. En eftir að ég hafði kynnt mér málavexti, þá hef ég sannfærzt um það, að þetta er ekki framkvæmanlegt, bókstaflega ekki framkvæmanlegt, og a. m. k. mundi þá skólinn ekki koma upp fyrr en eftir mjög langan tíma, ef að þessu ráði yrði horfið. Ég er því sannfærður um, ef skólinn verður ákveðinn á sama stað, þá þýðir það sama sem að fresta um óákveðinn tíma að byggja nýjan menntaskóla í Reykjavík. Í fyrsta lagi er það svo, að samkv. þessu skipulagi, sem nú er ákveðið, þá er aðalumferðaæð þar, sem Amtmannsstígur er nú, og það er sammála álit allra skólamanna, sem um það hafa fjallað, að í raun og veru sé alveg ófært að hafa slíkan skóla við aðalumferðaæð. Það kann að vera, að það sé hægt að finna þess dæmi erlendis, að skóli sé mitt í umferð, en ég hygg, að það séu gamlir skólar og yfirleitt séu nýir skólar alls ekki reistir neins staðar þar, sem um er að ræða aðalumferð við hliðina á skólanum.

En þetta er samt sem áður ekki aðalatriðið. Kostnaðurinn, sem af því mundi leiða að byggja skóla á þessum stað, er sýnilega gífurlegur. Það hefur ekki verið áætlað til fulls, en það segja byggingarfróðir menn, sem þetta mál hafa athugað, að mannvirki þarna á lóðinni, sem skólanum mundi vera ætluð með þeim stað, sem hann stendur á, að Þingholtsstræti, mundi ekki vera hægt að fá fyrir minna en um 5 millj. kr., og sennilega er það allt of lítið, m. ö. o., það er um að ræða miklu stærri upphæð en mundi kosta að reisa skóla þar. Hér er um svo geysilega fjárhæð að ræða, og auk þess er erfitt að byggja skóla á þessum stað. Mér er sagt, að það sé svo erfitt, að það mundi verða óútreiknanlegur aukakostnaður vegna þess, að það hagar Þannig til, þar sem skólinn mundi koma til með að standa, að þar er mjög bratt. Ég þekki þetta ekki vel, en mér er sagt af byggingarfróðum mönnum, þar á meðal húsameistara ríkisins, að þar sé um ákaflega mikla örðugleika að ræða, sem ekki sé hægt að gera sér ljóst af óbyggingarfróðum mönnum.

Nú gæti komið til greina að vísu, eins og hv. þm. gat um, að byggja skólann þarna smátt og smátt, en ég hygg, að á því séu mjög miklir erfiðleikar, eins og skipulagið er fyrirhugað. Skólabyggingin sjálf mundi ekki geta komið á þann stað, þar sem olíuportið er nú. Þar mundi skólabyggingin sjálf ekki geta komið, og á þeim stað, sem kæmi til greina að byggja á, eru hús fyrir, m. a. íbúðarhús, og ég hygg, að það líði á nokkuð löngu, áður en í það verður lagt að fara að ryðja burt íbúðarhúsum af skólalóðinni. Á allri skólalóðinni er þó nokkuð mikið af íbúðarhúsum.

Það, sem sérstaklega og í raun og veru er það eina, sem er á móti því að hafa skólann inni í Laugarnesi, er það, að hann sé þar út úr. Það er rétt, eins og bærinn er nú, þá er það mjög út úr. Hv. þm. heldur fram, að það verði alltaf, vegna þess hvernig byggingunum er hagað. Mér sýnist samt sem áður, að þarna séu að rísa upp allmiklar byggingar. Og hvað sem því líður, hvar sem skólinn væri byggður annars staðar, þá mundi hann verða út úr fyrir ýmsa bæjarhluta og verða mjög löng leið þaðan í skólann, þannig að ekki yrði komizt hjá því, að meiri hluti þeirra, sem skólann eiga að sækja, yrði að fara með einhverjum farkosti, þannig að þetta vandamál þarf undir öllum kringumstæðum að leysast, meira að segja þó að skólinn sé áfram á þeim stað, sem hann er nú, þá yrði að leysa þetta fyrir einhverja bæjarbúa, enda þótt þeir yrðu mun fleiri, ef skólinn yrði einhvers staðar í úthverfi. Það er vandamál, sem stjórnir allra borga hafa þurft að leysa, og varla hægt að ætlast til annars en við þurfum að leysa það líka, þegar okkar bær er að vaxa, og sjá fyrir flutningatækjum handa skólafólkinu. Þetta hefur að vísu allmikinn kostnað í för með sér, en ég held, að ekki sé hægt að komast hjá þeim kostnaði, því að það er það, sem fylgir skólunum. Mér er sagt, að nú séu skólar yfirleitt byggðir meira og minna út úr og fyrst og fremst lögð áherzla á, að þeir geti haft mikið landrými, sem óneitanlega er ákaflega mikill kostur fyrir skólana.

En hvað sem því líður, álít ég fyrir mitt leyti, að ef af Alþ. er ákveðið að hafa Menntaskólann í Reykjavík á sama stað, þá sé það sama og að samþ., að skólinn sé ekki byggður fyrst um sinn. En hvað sem skoðun minni um það líður, þætti mér ákaflega vænt um, að ekki yrði farið að blanda þessu inn í frv. um menntaskóla, sem er allt annað mál, því að ef frv. yrði þannig afgr. frá þinginu, þá óska ég fremur, að það yrði ekki afgr., því að ég álít, að það væri alveg það sama og að hindra, að menntaskóli yrði byggður í Reykjavík fyrst um sinn. Ég vil þess vegna, þó að hér sé um skiptar skoðanir að ræða hjá mér og hv. þm., mælast til þess, að hann vildi falla frá því að blanda því saman við þetta mál.