24.04.1946
Neðri deild: 119. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1878 í B-deild Alþingistíðinda. (3105)

30. mál, gagnfræðanám

Páll Þorsteinsson:

Eins og 8. þm. Reykv. hefur gert grein fyrir, hafa verið gerðar breyt. á þessu frv. í Ed. Það má segja, að sumar breyt. skipti litlu máli, þó tel ég sumar þeirra til hins verra, svo sem um orlof kennara. Mér sýnist líka, að menntmn. Ed. og sú d. hafi íhugað málið fremur lítið, og vil ég benda á til staðfestingar þeirri grunsemd minni, að í breyt. er talað um gagnfræðaráð, sem alls ekki er lengur til í frv., þó að það hafi áður verið í því. Ég flutti brtt. í haust um málið, sem náðu samþykki d., en nú hefur Ed. fellt þær niður. Ég flyt því hér 3 brtt. á þskj. 948. 1. brtt. er um, að skólanefndirnar fái íhlutun um, hvaða menn fá stöður við skólana. — 2. brtt. er um það, að skólar gagnfræðastigsins skuli vera sjálfseignarstofnanir eða eign hlutaðeigandi bæjarfélaga. Ég tel hæpið, að hitt atriðið, sem Ed. leggur til, að skólahúsin séu sameign ríkis og bæjar- og sveitarfélaga, standist vegna stjórnarskrárinnar. Ég vil benda í þessu sambandi á eitt dæmi og vel til þess Laugarvatnsskólann. Tildrög hans voru, að bóndinn á þessu óðali, Böðvar Magnússon, stóð upp af óðali sínu og lagði það fram sem skólasetur, ekki þannig að hann seldi það ríkinu, því að skólinn skyldi vera sjálfseignarstofnun. Ég hef aðgætt, hvernig þetta er bókað í fasteignamatsbókinni, og komizt að raun um, að þar er allt fært sem eign skólans. Í frv. er talað um eignir skólans og enginn greinarmunur gerður á því, hvernig þær eru, til komnar. Þetta tel ég ekki rétt, og þess vegna flyt ég brtt. um þetta atriði.

Ég hef unnið í þessum málum í menntmn. og borið þar fram þessa skoðun mína, en þar hefur ekki orðið samkomulag um þessi atriði. Ég stend fast með þessu máli, og þó að ég óski sérstaklega eftir, að brtt. verði samþ., mun ég ekki láta fall þeirra varða fylgi mínu við málið í heild. En það er slæmt að flétta þau atriði í merk mál, atriði, sem í sjálfu sér skipta kannske ekki miklu máli, sem vekja óánægju og oft harðar deilur, sem vinna málinu sjálfu stórtjón, eins og átti sér stað í sambandi við 17. gr. jarðræktarlaganna, sem þm. voru sammála um, en þó fléttað inn því, sem varð bitbein hverju þingi. Það verður engum til góðs og sízt málefninu að flétta slíkt inn í löggjöf. Vænti ég, að brtt. mæti svipuðum skilningi og áður og verði samþ.