08.12.1945
Sameinað þing: 14. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (311)

16. mál, fjárlög 1946

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég mun reyna að haga orðum mínum þannig, að þau verði ekki til þess að lengja umr. um of. En ég vildi svara hv. form. fjvn. nokkuð. Ég sagði, að ef marka mætti störf n. af þessari brtt. og aðrar till. hennar væru eftir því, þá segði mér illa hugur um störf n. Og þessi skoðun mín hefur staðfestst við síðari ræðu hans, enda þótt ég viðurkenni dugnað hans. Bæði í ræðu sinni og grg. sagði hann, að þessi till. sé gerð til samræmingar á launakjörum. En hún þýðir, að laun mega þá lækka. Hv. frsm. gerði að umræðuefni launakjör við Tryggingastofnun ríkisins og sagði, að þau væru ekki í samræmi við launalögin og taldi undirbúningi frá stofnuninni ábótavant. En þetta er misskilningur. Að því er varðaði laun einstakra starfsmanna hjá stofnuninni, nefndi hann, að sumir hefðu yfir 10 þús. kr. laun. Það er rétt, að 2 menn þar hafa 10200 kr., en það eru sömu laun og t. d. hjá lögreglustjórum á Akranesi og í Neskaupstað. Hann sýndi þá kurteisi að nefna ekki laun forstjórans, en ég skal þá upplýsa, að hann hefur sömu laun og póst- og símamálastjóri og yfirlæknir landsspítalans. Ég skal svo ekkert um það dæma, hvort það er of hátt eða ekki. Að því er varðaði laun tryggingayfirlæknis, taldi hann þau ekki aðeins of há, heldur óþarft að hafa yfirleitt lækni við stofnunina. Ég er eiginlega hálfundrandi yfir þessum ummælum hv. frsm., þar eð þessi læknir á að hafa yfirumsjón með 60–70 sjúkrasamlögum út um allt land, auk starfa síns hér. Svo þarf hann að úrskurða t. d. við slysatryggingar o. s. frv. Ég vil því fullyrða, að starf hans er sízt minna, ef ekki meira en margra annarra lækna. Hann hefur svipuð laun og héraðslæknar, en svo hafa þeir sinn daglega praksis framyfir. Það er mjög fjarri sanni, að laun hans séu of há, og enn fjarstæðara, að hans sé ekki þörf. Launalögin breyttu engu um þetta, og hv. frsm. má ekki gera sér upp vankunnáttu um það. Launin eru alveg þau sömu og áður. Launalögin breyttu heldur engu um slysatryggingu. Þó er það rétt, að hér er innifalin nokkur umboðsþóknun til sýslumanna úti á landi, vegna eftirlits með t. d. elli- og örorkutryggingum, en það eru greiðslur, sem báðum þingdeildum var kunnugt um. Ef hann hefði leitað þessara upplýsinga, mundi hann þegar hafa fengið þær, og þær hefðu verið nógu snemma til fyrir hann, en það er ekki mín sök, þótt þessar till. séu svo illa undirbúnar.

Hv. þm. Barð. vék að því, að ég hefði barizt gegn því, að tryggingastofnanirnar yrðu teknar inn í launalögin, til þess að ég gæti fengið einræði yfir þeim málum. Í raun og veru kemur þetta ekki þessu máli við, og þar að auki er þetta algerlega rangt hjá hv. þm. Ég var einmitt fylgjandi því, að bankarnir, Brunabótafélagið, Sjóvátryggingafélagið, Fiskifélagið o. fl. væru tekin inn í launalögin. En ef eitthvað af þessu yrði ekki sett í launalögin, þá bæri vitanlega að láta mæta afgangi þær stofnanir, sem hafa sérstakan fjárhag, og varð sú skoðun ofan á, og vegna þess hafa tryggingastofnanirnar ekki verið í launalögunum. En þó að það yrði ekki, að stofnanir þessar yrðu settar á launalögin, þá er það fjarri því, að það sé vegna nokkurrar kröfu frá minni hálfu, og ég efast ekki um, að hv. þm. Barð. skilur það. — Þá var það víst ekki fleira, sem ég hafði ástæðu til að minnast á.