24.04.1946
Neðri deild: 119. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2013 í B-deild Alþingistíðinda. (3244)

139. mál, almannatryggingar

Eysteinn Jónsson:

Ég endurtek dagskrá þá, er ég flutti við 2. umr. málsins, og vísa til raka minna, sem ég þá greindi.

Ég tók aftur fyrri brtt. mína á þskj. 908, vegna þess að ég aðhylltist brtt. hv. 2. þm. N.-M., þá er stendur í sambandi við efni minnar till. Hins vegar endurtek ég síðari brtt. mína á sama þskj., 908, en hv. þm. N.-M. hefur ekki flutt brtt. um það efni.

Ég legg svo fram skrifl. brtt. við 112. gr. frv., en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta : „Við 112. gr.: Síðari málsl. orðist svo: Við ákvörðun þessa iðgjalds og áhættuiðgjalds samkv. 113. gr. skal þó ekki telja með þá vinnu, sem unnin er af börnum, foreldrum eða systkinum vinnuveitanda.“ Hún fjallar um gr., sem ákveður, að vinnuveitendur skuli greiða sérstakt gjald í sjóðinn, miðað við vinnuvikur. Reyndar liggja fyrir till. um að breyta 112. gr. En ég flyt þó þessa till. til vara, ef hinar skyldu verða felldar. Ósanngjarnt er, að þau heimili, þar sem skyldmenni vinna á heimilinu og fyrir það, þ. á m. börn, verði að greiða aukalega miklar fjárfúlgur til trygginganna, þar sem hins vegar önnur heimili, t. d. í kaupstað, greiða miklu minna. Af tilefni þessarar ósanngirni er þessi skriflega brtt. mín fram komin.

Ég orðlengi svo ekki frekar um þetta mál. Vona ég, að hæstv. forseti athugi þetta, og leyfi mér síðan að afhenda honum þessar, tvær till.