11.12.1945
Sameinað þing: 16. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í B-deild Alþingistíðinda. (327)

16. mál, fjárlög 1946

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. í lok síðasta þings, 3. marz þ. á., var samþ. till. til þál. í sameinuðu Alþ. um athugun á starfskerfi og rekstrarútgjöldum ríkisins, og var till. þessi flutt af fjvn. þingsins. Með ályktun þessari var skorað á ríkisstj. að láta þá strax fram fara rækilega athugun og rannsókn á því, hvernig unnt væri að draga verulega úr rekstrarútgjöldum ríkisins og ríkisstofnana og leita jafnframt að leiðum til þess að gera starfskerfið einfaldara og óbrotnara. Í þál. var m. a. lögð áherzla á, að nokkur atriði í þessu sambandi yrðu sérstaklega rannsökuð, svo sem möguleikar til að draga saman starfsemi ríkisstofnana, koma við hagkvæmari vinnubrögðum hjá þeim og raunhæfu eftirliti með rekstrinum, koma í veg fyrir eftirvinnu og gera innheimtu tolla og skatta haganlegri en nú er. Í grg., sem fylgdi þáltill., var á það bent, að kostnaður við ríkisreksturinn hafi aukizt hröðum skrefum síðustu árin og að brýn nauðsyn sé á því að taka allt starfskerfi ríkisins til gagngerðrar athugunar með það fyrir augum að lækka útgjöldin verulega. Ekki hefur orðið vart minnstu viðleitni hjá ríkisstj. til þess að framkvæma þau fyrirmæli, sem Alþ. gaf henni með þessari þál., og er það ámælisvert. En stj. hefur ekki aðeins skotið sér undan þeirri skyldu að fylgja þessum fyrirmælum þingsins, heldur hefur hún farið í þveröfuga átt með því að auka eyðsluna og kostnaðinn við ríkisreksturinn stórkostlega. Um þetta mætti nefna mörg dæmi, en hér er ekki tími til að telja nema fátt eitt. Athuganir fjvn. hafa leitt í ljós, að við sumar ríkisstofnanirnar fá starfsmennirnir greitt mikið fé fyrir aukavinnu til viðbótar fullum starfslaunum eftir nýju aukalögunum. Við eina ríkisstofnun t. d. hefur ríkisstj, eftir að nýju launalögin gengu í gildi, ákveðið daglegan vinnutíma þannig, að starfsmennirnir þurfa ekki að vinna nema tæplega 6 klst. hvern virkan dag, og varð þetta til þess, að viðkomandi stofnun þurfti að bæta við sig mörgum nýjum starfsmönnum á árinu. Sé unnið eitthvað, lengur en þennan ákveðna tíma, er veitt aukaborgun fyrir það til viðbótar fullum launum. Við aðra ríkisstofnun vinna menn, sem hafa, miðað við núgildandi verðlagsvísitölu, um 27 þús. kr. í árslaun, en þurfa ekki skv. reglugerð stj. að láta meira af starfsorku sinni fyrir þessi laun en svo, að þeir geta afkastað aukavinnu hjá sömu stofnun, sem veitir þeim milli 10 og 20 þús. kr. viðbótartekjur, og heildartekjur þeirra fyrir 9 mánaða starf komast yfir 40 þús. kr. Þá hafa margir embættis- og starfsmenn ríkisins launuð aukastörf utan þeirra stofnana, sem þeir aðallega vinna hjá, og fá mikið fé frá ríkinu á þennan hátt, auk fullra embættislauna. Þessir menn skipta mörgum tugum. Mþn., sem undirbjó launalagafrv., er samþ. var á síðasta þ., lét uppi þá skoðun í grg. með frv., að þóknun fyrir aukastörf, er talizt geti hluti af því starfi, sem maður er ráðinn til, ætti alls ekki að eiga sér stað. Einnig taldi n. rangt að fela ríkisstarfsmönnum launuð aukastörf, þar sem slíkt gæti auðveldlega leitt til þess, að aðalstarfið yrði ekki svo vel rækt sem skyldi. N. taldi sig líka hafa búið svo um með till. sínum, að hver starfsmaður ríkisins gæti haft sómasamlegt uppeldi af þeim launum, sem honum voru þar ætluð. En ríkisstj. virðist líta öðruvísi á þetta mál, því að hún borgar starfsmönnum ríkisins stórar fjárfúlgur fyrir aukavinnu og aukastörf, og hún hikar ekki við að brjóta launal., sem samþ. voru á síðasta þingi, strax á fyrstu mánuðum eftir gildistöku þeirra. Þannig hefur ríkisstj. ákveðið á þessu ári að borga þremur embættismönnum viðbót við föstu launin, og nemur þessi uppbót 3000 kr. auk verðlagsuppbótar til hvers þeirra. En embættislaun þessara manna eru skv. launal. 14 þús. kr. auk verðlagsuppbótar, svo að þeir virðast hafa verið allvel haldnir áður en ríkisstj. rétti þeim ábætinn. Með núgildandi vísitölu eru embættislaun þeirra 39760 kr. yfir árið, en viðbótin frá ríkisstj. 8520 kr., og gerir þetta samtals nokkuð yfir 48 þús. kr. Það mun að vísu vera látið heita svo, að viðbótargreiðslan til þessara manna sé styrkur til utanferða, en þó fram tekið, að þeir skuli fá féð hvort sem þeir ferðast nokkuð eða ekki, og verður þetta því í mörgum tilfellum hrein launauppbót og annað ekki.

Árið 1940 fluttu þm. kommúnista till. í sameinuðu Alþ. um ráðstafanir til sparnaðar í launagreiðslum hins opinbera: Þar lögðu þeir m. a. til, að hámark árslauna yrði sett 8 þús. kr. Í greinargerð með till. sinni sögðu þeir m. a.: „Öll alþýða til sjávar og sveita vill hafa ódýra ríkisstjórn og er sammála um, að ef þarf að spara, þá á að byrja á því að draga úr hálaunum, „bitlingum,“ aukagreiðslum og alls konar óþörfum greiðslum.“ — Og þeir ásaka þar ráðamenn þjóðarinnar fyrir að hirða ekki um, „þótt hundruðum þús. af útgjöldum ríkisins sé varið til óþarfrar eyðslu.“ — Síðan þetta skeði, eru nú liðin 5 ár, og ýmislegt er orðið breytt. Aðalflm. till. er búinn að vera á annað ár í ráðherrasæti, en síðan hann komst þangað, hefur hvorki hann né flokksbræður hans minnzt á það með einu einasta orði, að alþýða manna vildi hafa ódýra ríkisstj. Og þeir tala ekki lengur um eyðslu, þó að útgjöld ríkisins hafi margfaldazt. Sjálfstæðismenn töluðu líka mikið um eyðslu og sukk fyrr á árum, en þeir eru löngu hættir því.

Á einu sviði hefur hæstv. núv. ríkisstj. reynzt mjög mikilvirk. Henni hefur tekizt á einu ári að búa til um 30 nýjar nefndir, skipaðar 130–140 mönnum, eftir því, sem næst verður komizt. En auk nm. eru svo aðstoðarmenn hjá sumum n., og munu því þessir nýju þjónar ríkisstj. vera hátt á öðru hundraðinu og e. t. v. fleiri, auk þeirra, sem fyrir voru. Töluna veit enginn nákvæmlega, ekki einu sinni stj. sjálf. Þetta er nú nýsköpun í lagi! Fyrirferðarmest af þessum nýju n. er sú, sem kallast nýbyggingarráð. „Það er stórt orð Hákot,“ stendur þar. Það er stórt orð nýbyggingarráð, enda var kostnaðurinn við þessa einu nefnd, frá ársbyrjun til loka októbermánaðar í ár orðinn 450 þús. kr., og verður því sjáanlega yfir ½ milljón á árinu. Í ráði þessu eru 4 menn, en auk þeirra vinna þar a. m. k. 5 húskarlar og nokkrar konur. Þó er gefið í skyn, að enn þurfi að fjölga vinnufólki þar í Hákoti, og verður það sjálfsagt gert. Það er vafalaust mikið reiknað og skrifað í ráðinu, og margar auglýsingar hefur það birt, en þegar til framkvæmdanna kemur, er ráðið ekki einhlítt og eru þá fleiri látnir koma til skjalanna. Svo er það t. d. við togarakaupin. Hv. þm. Str. hefur nú nokkuð rætt um það stóra mál, en ég vil. einnig fara um það nokkrum orðum. Vinnubrögðunum við þau kaup er vel lýst í nál. frá meiri hl. fjhn. Ed., sem er útgefið 4. þ. m. og er að finna í þskj. 88. Nál. þetta er útgefið og undirritað af fulltrúum allra stjórnarflokkanna í fjhn. Þar segir, að ríkisstj. og nýbyggingarráð hafi hafizt handa um að fá togara í Englandi, og að þriggja manna n., sem var í útlöndum á vegum nýbyggingarráðs, hafi tekizt að fá stjórnarleyfi fyrir 30 nýjum togurum og ná samningum við 5 skipasmíðastöðvar um smíði þeirra. Var umsamið verð 75 þús. sterlingspund fyrir hvert skip. Síðan segir svo í nál.: „Er þessi árangur var fenginn, lét ríkisstj. hefja nákvæmar athuganir á því, hvernig þessir togarar skyldu vera.“ Með öðrum orðum: þá fyrst, þegar búið er að semja við 5 skipasmíðastöðvar úti í Englandi um smíði á skipunum, er farið að athuga, hvernig þau eigi að vera. Mun það vera mjög óvenjulegt, að menn, sem semja um smíði og kaup á einhverjum hlut, fari þá fyrst að hugsa um, hvernig hann eigi að vera, þegar búið er að semja um smíðina. Fáir munu hafa slíka aðferð, þó að um minna sé að ræða en 30 botnvörpunga. Til þess að athuga, hvernig skipin ættu að vera, og yfirlíta verk hinna þriggja. sendimanna, var skipuð ný n. 5 mönnum. Hún komst að þeirri niðurstöðu, að þar væri þörf mikilla umbóta, því að skipin þyrftu að vera allt öðruvísi en um var samið. Var svo enn send ný nefnd utan til þess að semja um breytingar á fyrri samningi, og kom þá á daginn, að skipin hækkuðu í verði vegna þessara breytinga um 36%, upp í 98 þús. sterlingspund eða rúmlega 2½ millj. kr. hvert. Er þó almennt búizt við, að skipin verði enn dýrari hingað komin og fullbúin til veiða. Þegar hér var komið sögu, var málinu enn vísað til nýbyggingarráðs, sem er nú að reyna að selja skipin. Í nál., sem ég áður gat um, frá fulltrúum stjórnarflokkanna í fjhn. Ed., segir, að „óneitanlega“ hefði „verið æskilegast að gera út um þær sölur áður en samningar voru gerðir,“ en það hafi ekki verið hægt, m. a. vegna „ónógs undirbúnings.“ Má um þetta segja, að „bragð er að þá barnið finnur,“ þegar dyggustu stuðningsmenn stjórnarinnar geta ekki orða bundizt um „ónógan undirbúning.“ Ekki verður því um kennt, að ekki hafi verið nægur tími til að undirbúa kaupin, því að langur tími leið frá valdatöku stj., þar til gengið var frá samningum um togarakaupin. Gangur þessa togarakaupamáls er því þessi : Fyrst er ríkisstj., sem auðvitað á frumkvæðið og gefur út brbl. um kaupin. Svo er nýbyggingarráðið, svo er önnur nefnd, svo er enn nefnd, svo er ein nefnd enn, og svo er aftur nýbyggingarráðið. Þetta nefndahrúgald ríkisstj. minnir á mannvirki, sem einu sinni var lýst á þessa leið : „Fyrst er spýta, svo er spýta, svo er spýta í kross, svo er spýta upp, svo er spýta niður og svo fer allt í ganginn.“ Munurinn er bara sá, að það er stórkostleg hætta á því, að nýju togararnir fari aldrei „í ganginn“ þrátt fyrir allar n., ef verðbólgustefnu ríkisstj. verður fylgt áfram. Það er vitanlega nauðsynlegt fyrir þjóðina að eignast ný skip. En þegar um er að ræða að kaupa togara fyrir 70–80 millj. kr., og raunar meira, er ekki alveg sama, hvernig þar er að unnið. Í stað þessara mörgu n. hefði átt að fela einni n. undirbúning og framkvæmdir í málinu og velja í þá n. reyndustu og hæfustu menn á þessu sviði, sem völ er á. Vafalaust hefði niðurstaðan í þessu stórmáli orðið hagstæðari, ef þannig hefði verið að unnið. — Ein af nefndum stjórnarinnar er búnaðarráðið svonefnda. Um þá nefndarskipun hefur nýlega verið rætt í útvarpi. Fjvn. bárust tvær ósamhljóða áætlanir um kostnað við þá n. Samkv. annarri áætluninni verður kostnaðurinn helmingi meiri, en eftir hinni þriðjungi meiri en útgjöldin vegna þeirra n., sem áður fóru með afurðasölumál landbúnaðarins.

Fjáreyðsla ríkisstj. og verðbólgustefna hennar veldur því, að nú er ekki hægt að afgreiða fjárl. á viðunandi hátt. Hallinn á fjárlagafrv. er um 13 millj. kr., þrátt fyrir alla tollana og skattana og takmarkalausa brennivínssölu ríkisstj. Fjmrh. sagði í þingræðu í fyrradag, að stjórnin þyrfti að fá heimild til lántöku til þess að geta innt af höndum þær greiðslur, sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir á næsta ári. Þannig er komið vegna dýrtíðarstefnu stjórnarinnar, að þrátt fyrir það að ríkistekjurnar eru áætlaðar milli 120 og 130 millj. á næsta ári, er ekki hægt að afgreiða fjárl. öðruvísi en með miklum greiðsluhalla og lántökuheimild til stjórnarinnar.

En áhrif verðbólgustefnunnar koma víðar fram en við fjárlagaafgreiðsluna. Þau eru að grafa grunninn undan framleiðslustarfseminni, eins og greinilega sést af ályktunum fiskiþingsins, sem nýlega hefur lokið störfum. Fiskiþingið lýsti því yfir, að það teldi fjárhagsgrundvöll vanta til þess, að hægt verði, að óbreyttum aðstæðum, að gera vélbátaflotann út á þorskveiðar í vetur. Taldi þingið, að útgerðin geti því aðeins hafizt, að útgerðarkostnaður verði lækkaður til verulegra muna með opinberum ráðstöfunum eða afurðaverð hækkað um a. m. k. 15%. — Fiskiþingið samþykkti líka áskorun til Alþingis og ríkisstjórnar um að koma því til leiðar, að öll laun og kaupgjald í landinu verði miðað við magn og verðlag útfluttra afurða. Benti þingið á þá yfirvofandi hættu, að sjómenn fáist ekki á bátaflotann vegna þess, að þeim bjóðist hærra kaup í landi en vélbátaútvegurinn geti risið undir að borga.

Þessar ályktanir fiskiþingsins eru áreiðanlega þess verðar, að þeim sé gaumur gefinn. Áskorun þess um að miða öll laun og kaupgjald í landinu við magn og verðmæti framleiðslunnar er í sömu stefnu og tillaga okkar framsóknarmanna, er við fluttum á síðasta þingi í sambandi við afgreiðslu launalaganna, en sú tillaga okkar var felld af stuðningsliði ríkisstjórnarinnar.

En í stað þess að hlusta á þær raddir, sem krefjast réttlætis í skiptingu þjóðarteknanna, vinnur stjórnin stöðugt að því að auka ósamræmið og rýra hlut þeirra, sem vinna að framleiðslustörfunum. Hún skipar bændum landsins forráðamenn, sem skammta þeim afurðaverð, sem lækkar tekjur þeirra til stórra muna. Á sama tíma borgar ríkisstjórnin í heimildarleysi einstökum embættismönnum stórar fjárhæðir til uppbótar á 40 þús. kr., árslaun. Og fyrir störf í einni af hinum 30 nýju nefndum ríkisstjórnarinnar hefur hún ákveðið launin þannig, að formaðurinn fær 37488 kr. yfir árið, miðað við núgildandi verðlagsvísitölu, en meðnefndarmenn hans 34080 hver. Fyrir þessa hýru þurfa nefndarmennirnir þó ekki að leggja meira á sig en svo, að þeir geta gegnt umsvifamiklum störfum auk nefndarstarfanna. Skrifstofumenn í sömu nefnd hafa fast að 30 þús. kr. árslaunum.

Meðan slíku fer fram, er það ekkert undarlegt, þó að menn vilji fremur annað vinna en að fást við framleiðslustörf á landi og sjó. Það er bæði léttara og gróðavænlegra að fást við ýmislegt annað. Það er t. d, stórum ábatavænlegra að stunda alls konar kaupmang og brask, sem aldrei hefur blómgazt eins vel og nú, í skjóli ríkisstjórnarinnar.

Hér þarf að stefna inn á nýjar brautir. —Það þarf að draga úr verðþenslunni með sanngjarnri þátttöku allra stétta.

Með því einu móti er hægt að tryggja aðalatvinnuvegina, framfarir og velmegun í landinu og viðunanlega afkomu ríkissjóðs. Það þarf að taka upp haganlegri vinnubrögð við ríkisreksturinn, til þess að spara þar útgjöld, og hætta tafarlaust að borga opinberum starfsmönnum stórar fjárfúlgur til viðbótar fullum launum. Það þarf að stefna að meiri jöfnuði í þjóðfélaginu og réttlátari skiptingu þjóðarteknanna, m. a. með því að miða laun og kaupgjald við framleiðslutekjur þjóðarinnar. Það þarf að afnema það ranglæti að skammta þeim, sem vinna framleiðslustörfin, minna en öðrum, sem margir hverjir vinna léttari verk.

Það þarf að ná lögákveðnum sköttum af þeim mörgu mönnum, sem hafa rakað saman hundruðum þúsunda króna á stríðsárunum, með ýmiss konar aðferðum, en skotið miklu af því undan réttmætum gjöldum. Það þarf að koma í veg fyrir, að alls konar brask og víxlarastarfsemi verði framvegis, eins og nú, arðvænlegri atvinnuvegur en framleiðslustörfin.

Ekkert af þessu vill núv. ríkisstjórn og stuðningslið hennar á þingi gera.

En allt þetta þarf að gera, til þess að tryggja efnalegar og menningarlegar framfarir í landinu. — Þess vegna þarf þjóðin að taka í taumana og víkja núv. ríkisstjórn, stjórn misréttis, eyðslunnar og verðbólgunnar, frá völdum.