27.03.1946
Neðri deild: 96. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2087 í B-deild Alþingistíðinda. (3315)

142. mál, sameining Selfossbyggðar í eitt hreppsfélag

Sigurður Thoroddsen:

Herra forseti. Ég fagna þeim sinnaskiptum, sem hafa orðið hjá hv. 1. þm. Árn. nú yfir helgina í þessu máli, sem hafa verið til hins betra. Því að sá hv. þm. er fallinn frá hinni fyrri afstöðu sinni, því að með brtt. sínum hefur hann nálgast upprunalega frv. það mikið, að það ber ekki annað á milli en að hann vill fella Árbæ úr þeim löndum, sem frv. gerir ráð fyrir, að falli undir hinn nýja Selfosshrepp. Efnislega falla brtt. hv. 1. þm. Árn. saman við ákvæði frv. um gerðardóminn. Þessi gerðardómur er þó sterkari samkv. brtt. hv. 1. þm. Árn. Þess vegna get ég vel greitt atkv. með brtt. þessa hv. þm. um gerðardóminn eins og hann gerir ráð fyrir honum, þó með þeim breyt., sem lýst hefur verið um kostnað við gerðardóminn, að hann greiðist úr ríkissjóði, en ekki af Selfosshreppi, eins og hv. 1. þm. Árn. þó gerir ráð fyrir. Það segir sig sjálft, að þá er miklu síður að vænta samkomulags um það, sem gerðardómurinn á að fjalla um, ef ekki næst samkomulag, ef einn hreppur ætti að greiða allan kostnað af gerðardóminum. — Mér finnst sem sagt, afstaða sú, sem hv. 1. þm. Árn. sýnir með brtt. sínum, miklu réttari en hans fyrri afstaða og sinnaskipti hans því til bóta. En þó finnst mér enn vanta þar á nokkuð, þar sem hann vill fella Árbæjarland undan því landi, sem á að falla undir Selfosshrepp. En þeirri brtt. hans er ég mótfallinn.

Ég vil taka fram, að ég get ekki orðið við þeim tilmælum að taka aftur brtt. mína, sem ég flyt ásamt hv. 4. þm. Reykv. á þskj. 455 um eignarnámsheimild handa hinum nýja Selfosshreppi. Sama gildir um hina brtt. mína, á þskj. 545, um að allt Laugardælaland verði lagt undir Selfosshrepp.