26.04.1946
Neðri deild: 124. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2107 í B-deild Alþingistíðinda. (3433)

248. mál, kosningar til Alþingis

Páll Zóphóníasson:

Ég vil sérstaklega benda hv. n., sem á að taka frv. til athugunar, á það, að mér skilst nafnið yfirlæknir í brtt. muni eingöngu eiga við þá lækna, sem eru yfir spítölum, sem margir starfa við, og mun hv. flm. hafa haft í huga sérstaka spítala hér í Reykjavík, en aðra ekki. En það er fjöldi spítala úti á landi, sem engan yfirlækni hafa. Þar er bara einn læknir. Brtt. leyfir ekki sjúklingum á þessum sjúkrahúsum að kjósa. Brtt. nær aðeins til 2–3 sjúkrahúsa í Reykjavík, nema með þeirri túlkun, að læknirinn sé líka yfirlæknir, þótt hann sé einn.