17.04.1946
Neðri deild: 115. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2127 í B-deild Alþingistíðinda. (3479)

241. mál, fyrningarafskriftir

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður um brtt. á þskj. 901. Ég boðaði komu hennar við 1. umr. og skýrði frá því, hvað í henni fælist. Ég skal aðeins geta þess, að hv. þm. geta glöggvað sig á því, að brtt. breytir engu öðru í frv. en því, að í síðari hluta 1. gr. eru teknar með til fyrningarafskrifta vinnslustöðvar, sem vinna úr sjávarafurðum og landbúnaðarafurðum. Ég hygg, að þetta þurfi ekki frekari skýringar og að hv. þm. muni geta fylgt þessari brtt. N. er sammála um hana, og vænti ég, að hæstv. ríkisstj. telji þetta ekki raska svo mjög frv., að hún geti ekki sætt sig við það.